04.12.1946
Neðri deild: 32. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (3767)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Mér þykir hv. þm. A-Húnv. (JPálm) finna nokkuð mikið til sín, þegar hann lýsir því hér yfir á fyrsta stigi þessa máls, að það hafi enga þýðingu að bera það hér fram. Er hann sá drottinshöfðingi yfir högum og athöfnum hv. þm. hér í hv. d., að hann geti upp á sitt eindæmi lýst yfir því, að þetta mál sé frá upphafi fordæmt? Það gæti vel verið, að hv. þm. A-Húnv. hefði við einhvern grun að styðjast í þessum efnum, ef svo hefði staðið á, að hér hefði engin mannabreyting á orðið í hv. Nd. frá því, að þetta mál var hér síðast til umr. En það er nú síður en svo. Síðan hafa farið fram nýjar kosningar til Alþ., og við þær kosningar hafa orðið æðimiklar mannabreytingar hér, sem þá kemur sérstaklega fram í hv. Nd., sem er skipuð miklum meiri hl. hv. þm. — Mér finnst því það vera drýldni — ég verð að segja mikilmennskubrjálæði, sem kemur fram hjá hv. þm. A-Húnv. í því að lýsa því yfir á fyrsta stigi málsins, að það hafi enga þýðingu að bera málið fram. Ég veit, að hann álítur þá menn í bændastéttinni, sem að því standa að halda þessu máli í sínum upphaflega farvegi, lítilmótlega, en hitt verð ég að segja, að það gegnir alveg furðu um hugarástand þessa hv. þm., að hann skuli taka sér það vald að leyfa sér að lýsa slíku yfir, sem ég hef hér á minnst, í viðurvist meiri hl. hv. þm. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa gefið honum umboð til þessarar árásar, en ætla, að svo sé ekki, heldur sé þetta hans eigin uppfinning, sem stjórnast þá fyrst og fremst af því, sem ég áðan sagði. Ég minnist þess ekki, að mál, sem flutt er og varðar alveg sérstaklega eina stétt í þjóðfélaginu, eins og þetta mál, sem er hreint landbúnaðarmál, og sem tengt er við hagsmunasamtök bændastéttarinnar og á að þjóna þeim, hafi nokkurn tíma mætt slíkri meðferð eins og þetta mál mætir hér. Ég man aldrei til þess, að borin hafi verið fram rökst. dagskrá til þess að vísa máli frá við 1. umr., og held ég, að þótt leitað væri í þingsögunni síðast liðna áratugi, þá hafi slíkt ekki komið fyrir. Þetta er ef til vill leyfilegt samkvæmt þingsköpum, enda getur hæstv. forseti skorið úr um það, en hitt er algengt á síðasta stigi máls, við 2. eða 3. umr., að hafa þá afgreiðsluaðferð að vísa máli frá með rökst. dagskrá. — Það hafa nú verið flutt á þessu þingi fjöldamörg frv., sem snerta aðrar stéttir þjóðfélagsins, t. d. verkamenn, iðnaðarmenn, embættismenn, kaupsýslumenn, sjómenn, útgerðarmenn o. fl., og hefur engum hv. þm. dottið í hug að sýna þá frámunalegu þröngsýni að amast við því, að þessi mál fái að ganga til 2. umr. og takast fyrir með þinglegri meðferð, en það má segja, að það sé að minnsta kosti, óvenjuleg meðferð að vísa máli frá á fyrsta stigi þess. Fyrsta fórnarlamb þessarar þröngsýni á svo bændastéttin að vera hér eða þetta mál bændastéttarinnar. Það hefur verið vel við öllum öðrum slíkum málum tekið, þótt menn hafi haft um þau mismunandi skoðanir. Þannig er það t. d. algengt, að n. er fengin til þess að flytja frv. fyrir ríkisstj., og þykir sjálfsögð skylda að gera þetta, þótt menn séu í grundvallaratriðum móti ákvæðum slíkra frv., og er venjulega tekinn fram fyrirvari í grg. að því er þetta snertir. Það er sú eðlilega, þingræðislega og frjálslyndislega meðferð í uppburði mála á hv. Alþ., að þannig sé farið að. Hér er hins vegar brugðið út af þeirri leið í þessu máli og af þeirri þröngsýni, sem ég hef þegar lýst, sem líklega finnast engin dæmi fyrir í þingsögu síðustu áratuga. Ég get búizt við því, að hv. 2. þm. Rang. þykist nokkuð stór karl, þar sem honum hefur verið att á þetta foræði. Annars efast ég um, að hann eigi upptökin að þessu, heldur mun hann hafa leiðzt út í þetta í trú á forsjón og yfirráð hv. þm. A-Húnv. yfir atkvæðagreiðslu þm. og þykist því standa mjög föstum fótum og geta vísað málinu frá. En ég skýt því til hv. dm., að þeir láti ekki framhleypni og þröngsýni þessara manna hafa þau áhrif á atkv. sitt, að þeir vísi málinu frá. Ekkert tilefni var gefið af mér í þeim fáu orðum, sem ég sagði áðan, til þess að hefja miklar umr. um málið. Sökin er þeirra, að málið er komið á þetta stig í umr. Það er alkunna, að þegar um kunn mál er að ræða eins og nú, þá verða litlar eða engar umræður við 1. umr., en hér er þessi regla brotin eins og allar aðrar reglur. Hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. A-Húnv. hefja báðir umræður um þetta mál við 1. umr., en ég mun lítt fara út í að svara andmælum þeirra. Hv. 1. þm. Skagf. hefur svarað hv. 2. þm. Rang., en þegar það atriði var áður til umr. lenti hv. þm. A-Húnv. í þvílíkum hrakningum, að hann kaus að þegja, en hann vissi þá, að meiri hl. þm. var með þeim breyt., er hann lagði til, og kaus að neyta afls. En sem dæmi upp á málflutning þessa hv. þm. má geta þess, að hann hélt því fram, að till. um að fella niður ákvæðið um, að landbrh. samþ. úthlutun fjárins, væri grímuklætt vantraust á ráðh. En þetta var algerlega hrakið. Ráðh. hafði t. d. samþykkt fjárhagsáætlun búnaðarþings og sýndi, að hann átti alls ekkert vantraust skilið. Aftur á móti fólst í till. hv. þm. A-Húnv. fullkomið vantraust á landbrh. Þannig hefur þessi hv. þm. haft endaskipti á hlutunum ásamt með kommúnistanum í landbn., sem hann hafði stöðugt samneyti við, en þeirra viðskiptum lauk jafnan þannig, að kommúnistinn sneri á hann, þótt hann væri ekki eins breiður um axlir og gildur eins og hv. þm. A-Húnv. Það var á sínum tíma eðlilegt, að búnaðarþing skipti þessu fé, og það er jafneðlilegt nú, að fénu sé skipt milli búnaðarþings og stéttarsambandsins. Starfsemi búnaðarþings er klofin í tvennt, en báðir aðilar berjast fyrir hagsmunamálum bænda og ættu að úthluta fénu. Hringrásin í þeim 1., sem nú gilda, líkist því helzt, að hún væri sett af þrem frægum sögupersónum, sem hétu Gísli, Eiríkur og Helgi. Fjárins er fyrst aflað hjá búnaðarsamböndunum og sent svo út til þeirra aftur. Hafa og heyrzt háværar raddir um að kippa þessu í lag og koma því í það form, sem bændur höfðu áður samþykkt. Undirbúningur þessa máls var óvenjulega góður, og hafði verið leitað álits og fengið samþ. forystumanna búnaðarsambandanna. Vænti ég þess af hv. d., að hún láti ekki flekast af offorsi 2. þm. Rang. og borginmannlegu tali hv. þm. A-Húnv. og vísi málinu frá. Heldur skulu hv. dm. fara aðrar leiðir og réttari og láta málið ganga til 2. umr., og kæmi þá fram, hvort málið fengi þá afgreiðslu, sem við flm. vildum, og hvort núgildandi ákvæði yrðu niður felld. Þá er komið á það stig, að til úrslita getur dregið. En sú aðferð, sem hér hefur átt að beita, er því hatramlegri, að hér á í hlut forseti Sþ., sem á að vaka yfir virðingu þingsins og hafa í heiðri þingsköp og þinglegar reglur, og er það stórfurðulegt, að forseti geti tekið undir eins fíflslega till. og komið hefur frá hv. 2. þm. Rang.