06.12.1946
Neðri deild: 33. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (3772)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er nú eitt og annað, sem hv. flm. þessa frv. hafa sagt, síðan ég talaði hér síðast, sem ég tel ástæðu til að víkja að til viðbótar því, sem ég sagði þá. Í síðustu ræðu sinni endurtók hv. 1. þm. Skagf. þau ummæli hv. þm. Borgf., að það væri sérstaklega vansæmandi fyrir mig sem forseta Alþ. að mæla með því, að dagskrártill. hv. 2. þm. Rang. yrði samþ. En það er ekki sízt vegna þess, að ég er forseti Sþ., að ég legg þetta einmitt til í þessu máli, því að vitað er, að það stofnar hér til langvarandi rifrildis. Það var heitasta deilumálið á síðasta fjárlagaþingi, og ástæðulaust er að hefja þær deilur á nýjan leik. En úr því að það hefur nú engu að síður verið gert, tel ég heppilegra að afgreiða málið við eina umr. en láta það tefja þingstörfin lengur. Það er því sízt vegna ofstækis, að ég mæli með því, að dagskrártill. hv. 2. þm. Rang. verði samþ., því að ef hún verður samþ., er þetta mál útgert hér.

Annars ætla ég strax að víkja að ræðu hv. þm. Borgf., sem ekki gæti talizt óvenjuleg af hálfu framsóknarmanna, og hann virðist vera orðinn einn af þeim. Hann komst þannig að orði, að ég hefði látið hv. 2. þm. Rang. flytja þessa till., og er þetta alltítt orðalag hjá framsóknarmönnum. Nú bætti hv. 1. þm. Skagf. við þetta með því að gefa í skyn, að við hv. 2. þm. Rang. værum verkfæri hv. þm. S-Þ. Það er raunalegt að hlusta á svona getsakir og þvætting á Alþ. Það er undarlegt að heyra hv. 1. þm. Skagf., sem maður þekkir að því að vera siðaðan mann (hvað sem hv. þm. Borgf. líður), brigzla þm. um, að þeir séu verkfæri annarra.

Þá var hv. þm. Borgf. að tala um yfirlæti og jafnvel mikilmennskubrjálæði, þó að ég benti á, að þýðingarlaust væri að vekja þrætur um þetta mál. Það hefur ekki orðið svo mikil breyt. á d. Annars mun það koma í ljós við atkvgr. um dagskrártill. 2. þm. Rang. Það er því algerlega út í loftið mælt, að hér sé um mikilmennsku að ræða.

Ég ætla því næst að víkja ofurlítið að því, sem hv. þm. Borgf. sagði um, að við hefðum gefizt upp við að rökræða þetta mál á síðasta þingi. Þetta er líka út í loftið, en hitt er rétt, að okkur þótti ekki viðeigandi að svara þvættingi þeim, sem þessi hv. þm. flutti í tveggja stunda ræðu, því að aðalatriðið var að koma málinu fram í þeirri mynd, sem það var flutt.

Hv. 1. þm. Skagf. var að tala um, að málið hefði verið árás á frjálsan félagsskap bændanna. Þetta er helber vitleysa, því að bændastéttin er klofin í þessu máli og það liggur ekkert fyrir um það hvoru megin meiri hlutinn er. Það voru fleiri búnaðarfélög, sem lýstu sig fylgjandi þessum 1. (JS: Þetta er ósatt.) Það munu liggja hér frammi skjöl, sem sanna þetta.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um upphaf þessa máls vegna þess, sem fram hefur komið. Það hófst á því, að till. kom fram í Nd. um að leggja fram 60 þús. kr. til orlofs fyrir bændur, eða sem svaraði 10 kr. á hvern bónda, og skyldi þetta vera ferðasjóður. Frv. þessu var svo breytt í Ed., þannig að í stað 60 þús. kr. framlags skyldi lagt ½% gjald á afurðir bænda, sem rynni í ferðasjóð þann, er um ræðir í frv., en frv. dagaði uppi á þessu þingi.

Það, sem næst skeður, er það, að búnaðarþing tekur upp þetta gjald, en breytir um verkefni þessa fjár og leggur til, að það verði notað til húsbyggingar fyrir Búnaðarfélag Íslands og þá um leið til hótelbyggingar, en nokkrum hluta til styrktar Stéttarsambandi bænda. Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að engin bönd væru í 1. um fjárráð búnaðarfélagsins. Þó eru fjárreiður þess allar háðar samþykki landbrh., en það er einmitt þetta atriði í þessum 1., sem mestar æsingar hafa verið út af, og þó segir búnaðarmálastjóri, að þetta hafi aldrei komið að sök. Það hefði líka verið opinbert vantraust á núverandi landbrh., ef þetta ákvæði hefði verið afnumið úr þessum 1., þar sem fé þetta er innheimt af hinu opinbera. Aftur á móti tel ég það ekki vantraust á ráðh., þó sett séu ákvæði um, að féð skuli fara til búnaðarsambandanna í réttu hlutfalli við framlög þeirra, þó að hv. þm. Borgf. leyfi sér að hafa þannig endaskipti á sannleikanum að telja það. Þá hefur þessu máli mjög verið blandað í deilur um Stéttarsamband bænda, sem stóðu um, hvort sambandið skyldi óháð eða deild í Búnaðarfélagi Íslands, og þess vegna alls ekki nátengdar búnaðarmálasjóði. Nú var það gert að flokksmáli hjá Framsókn að vera á móti 1. um búnaðarmálasjóð, og átti við afgr. þess máls að nota handjárnaaðferðina á hv. þm. S-Þ., en eins og kunnugt er, beygði hann sig ekki fyrir handjárnaákvæðinu og lét sig hvergi, eins og allir raunar vissu, sem þekkja JJ. Það, sem næst skeður, er það, að þm. Borgf. fer á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands til að berjast fyrir Framsókn, eftir því sem bezt verður séð. Þessi fundur stóð í 16 eða 17 st. — annars ætla ég ekki að lýsa honum nánar. Menn, sem samþykkir voru 1. um búnaðarmálasjóð, voru þar í meiri hl., sem sjá má af því, að stj., sem lýst hafði sig samþykka 1. þessum, var öll endurkosin, þó að þm. Borgf. sýndi sig þar eystra sem verkamann Framsóknar, en ekki heiðarlegan sjálfstæðismann. Eitt, sem þm. Borgf. var að nudda með, var það, að kommúnisti hefði verið aðalfylgismaður minn í n., og talaði með lítilsvirðingu um það og taldi það niðrandi fyrir mig sem bónda að vera í félagsskap með manni, sem væri kommúnisti. Nú stendur þannig á, að við höfum verið í opinberri stjórnarsamvinnu við kommúnista, og þess vegna eðlilegt og sjálfsagt, að við störfuðum saman að ýmsum málum. Ég tek þessa aths. þm. Borgf. því ekki alvarlega. Varðandi það atriði, sem 1. þm. Skagf. sagði, að það væri ekki þingræðisleg aðferð að vísa ekki máli til n., þá er þetta fjarri sanni. Það má afgr. mál við hvaða umr. sem er.

Aths. þessa sama þm. varðandi Búnaðarfélag Íslands sé ég ekki ástæðu til að fara út í. Ég tel ekki ástæðu til að blanda meiru en þörf er á í þessa deilu, sem hér um ræðir, og tel þess vegna heppilegast að afgr. málið við þessa 1. umr.