06.12.1946
Neðri deild: 33. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (3775)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Jónas Jónsson:

Það hefur, eins og ég bjóst við, orðið málinu til góðs, að nokkrar umr. hafa farið fram um það, og verða þær umr. væntanlega eitthvað meiri, vegna þess að formælendur þess, eins og hv. þm. Mýr. og hv. 1. þm. Skagf., eiga eftir að skilja aðalatriðin í þessu máli, sem þeir berjast fyrir. Þeir sem sagt hafa ekki enn náð út yfir að skilja það mál, sem hér liggur fyrir. Og það er alveg rétt — af því að þessir menn eru í valdaaðstöðu í Búnaðarfélagi Íslands —, að nokkuð sé gert til þess að beina þeim á rétta leið.

Það, sem hér liggur fyrir, er það að forkólfar Búnaðarfélagsins hafa beðið Alþ. að lögfesta skatt á bændur landsins í ákveðnu skyni, þ. e. a. s. bændastéttin á að fá fyrir forgöngu þessara manna vissa peninga, sem teknir eru með því að leggja á stéttina visst gjald með landslögum, til þess að stéttin hafi þá til sinnar stéttarstarfsemi. — Þetta er algerlega nýtt. Það er ekkert fordæmi fyrir þessu fyrirkomulagi að færa peninga úr ríkissjóði og ráðstafa þannig. Það er ekkert fordæmi hægt að finna um þetta frá fiskimönnum. Það eru viss tæknileg atriði, sem félag þeirra á að leysa af hendi og fær peninga í því skyni úr ríkissjóði. Ástæðan til þess, að búnaðarfélagsforkólfarnir hafa lent inni á þessari braut, er eins konar samkeppni við launakröfur Alþfl., eins og ég sagði í fyrradag og hv. þm. A-Húnv. rökstuddi nokkuð ýtarlega. Það var háð nokkuð hörð barátta af fulltrúum frá verkalýðnum fyrir því, að verkamenn fengju að ferðast með fullu kaupi frá vinnuveitendum, eins og launastéttir aðrar, sem möguleika höfðu til þess. En þá fyrst er það, sem hv. þm. Mýr. og hans flokksbræðrum dettur í hug að fara að hugsa um þetta, þannig að bændur fái líka hliðstætt fé til umráða. Það er algerlega nauðsynlegt fyrir forkólfa búnaðarfélagsins að skilja þessa sögulegu staðreynd, nefnilega að þetta var ekki hugsað fyrir bændur þannig, að hér væri um félagsskap að ræða. Það var heldur nokkurs konar kapphlaup við orlofslöggjöfina, að reynt var að koma því fram, að bændur fengju ferðastyrk. En hann fékkst ekki á þann veg, að Alþ. léti málið þannig til sín taka. Ég hélt því fram þá, og enginn treysti sér til að neita því, að meiri hluti þingsins — sem eru ekki neitt venju fremur vondir menn, en eru ekki sveitaþingmenn — væri ófáanlegur til þess að gera þetta. Þessi þingmeirihluti veitti fé úr ríkissjóði til orlofs handa fólki, sem kaup eða laun tekur hjá öðrum, en neitaði bændum um sams konar fjárgreiðslur. Og ef Stefán Jóhann, forseti Alþfl., hefði ekki komið með þetta frv., eru ekki líkur til, að nein rödd hefði heyrzt um það, að slíkan sjóð skyldi stofna. Þessi fjárveiting til bænda er því eftiröpun eftir því, sem Stefán Jóhann fékk fram á Alþ. fyrir verkamenn og launastéttirnar. Og þess vegna er það, að það, sem illa er til stofnað, má búast við, að verði ekki langlíft. Því verð ég að segja það, að þessi forsaga málsins er vottur um það, að það er ekki nógu skapandi gáfa þarna að verki. Þessir menn, sem vildu fá þarna fram hlunnindi fyrir bændur, áttu að geta fundið eðlilegri leiðir fyrir bændastéttina til þess að afla fjár til orlofsferða sinna. Það var ein leið opin til þess og ekki nema ein, sú, að leiðtogar bænda — án þess að vera í sambandi við búnaðarfélagið — færu til bænda og segðu: „Þið þurfið að ferðast, eins og þið þurfið ýmissa hlunninda við. Þess vegna legg ég til, að þið stofnið félag eingöngu í þessu skyni, að þið getið tekið ykkur orlofsferðir, og þetta sé ykkar stéttarfélagsskapur. Þið leggið á ykkur viss gjöld í þessu skyni.“ — Og ég veit, að ýmsir greindir bændur vildu þetta, og hv. þm. Skagf. minntist á, að þetta væri þekkt að einhverju leyti í Noregi.

Fyrstu hrakfarirnar í þessu efni hjá búnaðarfélagsforkólfunum var, að þegar þeir máttu sjá, að þeir komust ekki þessa leið, sem þeir ætluðu að fara til þess að fá þetta fé handa bændastéttinni, þá sáu þeir ekki, hvaða leið var eðlilegust. Og þeir máttu sjá, að til þess að eitt félag væri óháð sem stéttarfélag, þá varð það að hafa sinn eigin fjárhag, ráða sjálft yfir sínum málum og hafa sína stjórn. Og þetta er það, sem reynt hefur verið að gera skiljanlegt bæði hv. þm. býr. og hv. 1. þm. Skagf. En þessu hafa þeir gengið fram hjá, því að sá stéttarfélagsskapur, sem væri undirgefinn stjórn Búnaðarfélags Íslands, yrði beygður með tiltölulega auðveldu móti af þjóðfélaginu, af því að Búnaðarfélag Íslands er ekki frjáls félagsskapur. Það er leiðinlegt, að svona vel gerðir menn, eins og hv. þm. Mýr. og hv. 1. þm. Skagf., skuli ekki sjá, að þegar Alþ. er tvisvar búið að taka af þessu félagi æðstu stjórn og setja algerlega aðra stjórn í staðinn, fyrst með því að fara svo með stjórnina og síðan framkvæmdastjórann hjá þessu félagi, þá er ekki hægt lengur að deila um það, að þetta er ekki frjálst félag lengur. Það er sannarlega furðulegt fyrirbrigði, að þessir annars merkilegu tveir hv. þm. skuli ekki vera búnir að sjá þetta enn þá. Og enda þótt hv. 1. þm. Skagf. segi, að búnaðarfélagið hafi ekki orðið fyrir neinu aðkasti hingað til, síðan skipt var um búnaðarmálastjóra — sem vel getur satt verið — þá geta menn þó séð, að það, sem gert hefur verið tvisvar af því opinbera, getur orðið gert alveg eins í þriðja eða fjórða skiptið, þar sem Alþ. hefur sagt því fyrir verkum, þegar Alþ. hefur þótt ástæða til.

Ég benti á það í fyrradag, að örlítið félag, tíu til tuttugu manna félag, geti haft ótrúlega mikið vald með því að neita um sína þjónustu. En formaður Búnaðarfélags Íslands hefur látið sig þetta litlu skipta. En hann gæti gert mikið í þessu máli, með sinni góðu greind, ef hann hefði ekki gert öfugt, eins og Sveinn dúfa, því að hann fór til hægri, þegar á að fara til vinstri, og til vinstri, þegar á að fara til hægri. — Það, sem lá fyrir bændastéttinni eftir hinar miklu hrakfarir haustið 1944, var að reyna að búa sér til tæki til þess að stýra sér út úr þeim vandræðum. En það gat hún ekki gert nema með því að taka sjálf verðlagningarvaldið yfir landbúnaðarvörum í sínar hendur. Ég tók það fram í dag og áleit, að formaður búnaðarfélagsins hefði gjarnan mátt heyra það, að þegar bændur urðu fyrir þessu óhappi haustið 1944, þá kemur Búnaðarfélag Íslands, sem er ekkert nema stjórnardeild, og fer að tala um, hvernig landsstjórnin eigi að vera. Og það vita allir, að það var sagt þá í stærsta blaði í Reykjavík, Morgunblaðinu, að leiðtogar Sjálfstfl. og Framsfl. hefðu beðið búnaðarfélagið að kalla saman sitt þing til þess að vinna að því að greiða fyrir myndun ríkisstj. Nú verð ég að vísu að taka fram, að ég tel ekki allt alveg óyggjandi sannleika, þó að það standi í Morgunblaðinu. En þessu var ekki mótmælt, hvorki af sjálfstæðismönnum né búnaðarfélaginu né af framsóknarmönnum, og þegar ég og aðrir reyndu að mótmæla þessu gerræði, þá stóðu form. Sjálfstfl. og Framsfl. saman, — þá komu þeir sér í eitt skipti saman, aðeins eitt skipti — um það, að reyna að hindra, að bændur á Suðurlandsundirlendinu gætu komið vilja sínum fram. Þeir tóku sig svo til, þessir góðu menn, til að sýna fram á, að þessi skrítni samningur eða þessi skrítni bátur, sem var bara afturendinn, en vantaði framendann og var þess vegna ekki góður til að vera á floti, væri góður. Þeir sendu m. a. hv. 1. þm. S-M. og hv. þm. A-Húnv. austur á Skeið, og þáverandi forseti Alþ., núverandi hv. þm. V-Sk., og form. Framsfl. börðust hlið við hlið við Ölfusárbrú, og að sama skapi var vel skipað í Rangárvallasýslu. Þá var ekki neinn þústur á mínum góðu Framsóknarsamherjum við hv. 2. þm. Rang. Allt var ein kærleikskeðja á þessum fundum, og það lék ekki á tveimur tungum, eins og þetta þýðingarmikla og merka blað sagði frá, að búnaðarfélagið hóf þessi fundarboð fyrir forstöðu tveggja flokka, og þessi vitnisburður staðfestist með því, að flokksformennirnir stjórnuðu þessum fundum, sem voru gerðir til að beygja bændur á Suðurlandi og venja þá af því að hafa sjálfstæða skoðun. (GSv grípur fram í.) Það gleður mig að heyra, að hv. þm. V-Sk. er hér nærstaddur. Hann getur bæði nú og síðar verið vitni um þá ást og eindrægni, sem ríkti í þessu efni, m. a. við Ölfusá, þar sem þessi hv. þm. gekk svo vel fram í að framfylgja boðum síns yfirboðara, sem var búinn að brúka búnaðarfélagið á þennan einkennilega hátt. Það er líka stuðningur fyrir þessa frásögn Morgunblaðsins, að eftir að búnaðarfélagið hafði kallað búnaðarþing saman og það hafði lýst yfir, að það vildi gefa eftir, því að það gaf upp sexmannagrundvöllinn að þessu sinni og lagði þar ofan á litlar 8 milljónir fyrir eitt ár, þá skrifuðu þessir stóru herrar í blöð sín og sýndu þá kurteisi að afsaka þessa milljónasamþykkt. Þeir skrifuðu grein, sem þeir hafa að líkindum samið í sameiningu, form. Framsfl. og form. Sjálfstfl., en svo látið prentarana breyta örlítið, settu svo þessa grein út hvor með sínu nafni í Tímann og Morgunblaðið. Í þessum greinum þakka þeir bændum mjög vel fyrir þegnskap og drengskap, hæla þeim mikið fyrir, hvað þetta hafi verið fallega gert af þeim, en taka báðir fram, að drengskapurinn sé ekki eins mikill og menn hyggi, því að bændur hafi engan rétt haft og hafi því ekki getað tapað neinu, en það hafi hins vegar verið skynsamlegt af þeim að gera þessa verzlun við mannfélagið, því að vel geti verið, að þeir hafi eitthvað upp úr þessu. Nú vil ég beina því til formanns búnaðarfélagsins, sem sýnir okkur þá ánægju og gagn að vera hér við, hvort hann haldi, að ef bændur hefðu verið sjálfir kvaddir til, að þeir hefðu viljað láta 8 milljónir og gefa upp sexmannagrundvöllinn, þó að þeir hefðu orðið fyrir þeirri ánægju að fá formenn þessara flokka í stjórn. Þó að ég efist ekki um, að margir hefðu viljað fá þessa merku menn til að stjórna landinu, þá höfðu þeir ekki þá óeigingirni, að þeir hefðu viljað eyðileggja málstað sinn til þess, og ekkert stéttarfélag veraldarinnar, sem rétt er myndað, hefði gert tilboð, sem var bindandi aðeins fyrir annan aðilann, eins og þetta var fyrir hina tvöföldu, hálu aðstöðu búnaðarfélagsins. Félagið er stjórnardeild og læzt vera forsjón bænda og á að vera það, og mun ég síðar sýna fram á, hvernig það rækir sín störf. En þegar búnaðarfélagið fór út fyrir það svið, sem því var ætlað, þá gerðust þessir ótrúlegu hlutir, að búnaðarþing var kallað saman til að reyna að mynda ríkisstj. og síðar til að eyðileggja það, að bændur sjálfir gætu bjargað sér. Búnaðarfélagið var búið að gera þá mestu ólukku, sem það gat gert, þegar það kom út á það svið, sem það hafði ekki leyfi til að vera á, þar sem allt var planlaust og rakalaust, sem þeir gerðu, og varð því að slysi. Sorgarsaga búnaðarfélagsins frá 1944 er flestum kunn, og mér er sagt frá mönnum, sem voru á búnaðarráðsfundum í vetur og voru áður í búnaðarfélaginu, að þeir hafi lýst yfir hreinlega, hvað þeir hafi verið blekktir mikið og sjái eftir því, sem þeir hafi gert 1944, og þetta er alveg rétt að viðurkenna, og þetta álít ég, að forseti búnaðarfélagsins ætti að gera manna mest. Ég veit, að honum hefur gengið gott eitt til, því að hann gerði þetta í góðri trú, en það bar þveröfugan ávöxt, því að vissulega ætlaðist hann ekki til að fá í landsstjórn menn, sem halda fram, að a. m. k. 90% af kjósendum í Mýrasýslu hafi enga lífsmöguleika, engin menningarskilyrði séu þar hugsanleg og þess vegna eigi byggðin að leggjast í eyði. Þessi skoðun kom fram hjá frambjóðanda þessa flokks í Þingeyjarsýslu. Hann hélt fram, að dreifbýlið hefði enga menningu eða framtíð. Þetta er stefna flokksins, og hann vinnur trúlega eftir því. Það, sem hafðist upp úr gjafapólitíkinni 1944, var því aðeins þetta, að koma svona flokki til valda og svona mönnum í ríkisstjórn. Og ástæðan til þess, að sunnlenzkir bændur og greindir bændur út um land komu með hugmyndina um stéttarfélag bænda í verðlagmálum, var þetta óhapp. Ég veit, að allir leiðandi menn í búnaðarfélaginu ætluðu að gera gott 1944, en það varð ákaflega vont, af því að búnaðarfélagið á ekkert að hugsa um að mynda ríkisstjórnir eða fella þær, það er utan við þess vettvang, og þar af leiðandi er það svo, að búnaðarfélagið er það háð ríkisvaldinu, að það lætur eggja sig til að kalla saman búnaðarþing í pólitískum tilgangi, af því að einhverjir flokksleiðtogar vilja hafa þá til þess.

Ég held, að það sé þá bezt að bæta því við, fyrst farið er að tala um þessa hryggilegu atburði 1944, og það er gagnlegt fyrir sögu framtíðarinnar að segja það, að það er nokkurn veginn víst, að þegar leiðtogar Framsfl. og Sjálfstfl., líklega báðir í góðri trú, byrjuðu þetta tilhugalíf, þá höfðu þeir báðir verið alllengi í leit eftir paradís, návist kommúnistafl., og það er vitað, að þeir báðir höfðu tapað, því að rauða maddaman hafði þá verið ósveigjanleg með sína blíðu marga mánuði og báðir höfuðbiðlarnir sáu ekkert fram undan annað en ömurleik og einstæðingsskap, ef þeir ættu að treysta á þá maddömu. En hvað gerist svo? Nú höfðu þessi ósköp gerzt, að búnaðarþing hafði verið kallað saman og látið gefa eftirgjafaryfirlýsingu til að létta fyrir. Ég held, að ég verði að segja hv. þm. Mýr. smásögu þessu til skýringar, og ég vona, að hann skilji hana, af því að hann er svo góður sveitamaður. Það var einu sinni merkisbóndi nokkur í Öxnadal, ég hugsa, að hv. 1. þm. Eyf. kannist við hann. Hann fékk sér stundum nokkuð mikið í staupinu í kaupstaðnum. Hann átti ágætan reiðhest og reið honum jafnan. Þegar hann var að koma drukkinn úr kaupstaðnum og datt af baki, þá kraup hesturinn á kné, til þess að hinn drukkni riddari gæti komizt á bak aftur. Eins fór hér. Búnaðarþing kraup á kné, til þess að hinir vösku, ófullu pólitísku riddarar gætu komizt á bak. En hvað gerðist svo, þegar þessi fagnaðarlæti stóðu sem hæst? Þá snýr rauða maddaman við, snýr sér að öðrum þessara flokka með opinn faðminn, kastar sér um hálsinn á honum og segir: „Ég er þín, að minnsta kosti um stundarsakir.“ Upp úr þessu kom svo núverandi ríkisstjórn. Það leiðir af sjálfu sér, þegar einn biðill, sem hefur verið lengi á sínu ferðalagi, allt í einu fær svona svör, þá getur hann ekki neitað, en það er sárt fyrir okkur hv. þm. Mýr. af flokkslegum ástæðum að verða að viðurkenna, að okkar kæru flokksbræður urðu afskiptir. Og ef ég hef lesið rétt greinar í Tímanum undanfarið, þá búast framsóknarmenn við því, að þessi sáttmáli muni halda áfram og Framsfl. muni ekki hafa annað af sinni eftirgjöf og pólitíska ævintýri 1944 en sorglegar endurminningar. Ég vona því, að þegar jafnskýr maður og hv. þm. Mýr. lítur á þetta og rennir huganum yfir fundina, þá hljóti hann að skilja, að bændur hafa ástæðu til að vantreysta Búnaðarfélagi Íslands í þessu efni. Þeir geta trúað ákaflega vel Pálma Einarssyni til að mæla fyrir skurðum og Páli Zóphóníassyni til að rekja ættartölur kúa, þar er ekki ástæða til að efast um hæfileikana, en það er rótgróin ástæða til að efast um hæfileika búnaðarfélagsins til að blanda sér inn í annað en fagleg mál, því að hv. þm. Mýr. og hans menn brutu þarna af sér og áttu eftir að brjóta meira af sér, en allt í beztu trú.

Nú í sumar var haldinn fundur á Hvanneyri. Það er dálítið merkilegt að segja frá því, að aðdragandinn er sá, að það voru menn á Suðurlandi, sem töldu, að illa hefði verið haldið á málunum. Það var búið að vekja landshreyfingu til að stofna samband um verðlagsmál bænda, en þá hljóp búnaðarfélagið til eins og formlegur flokkur og hertók þetta samband. Leiðtogar búnaðarfélagsins höfðu aldrei gert neitt til að skapa stéttarsamband. Þeim var nóg að hafa búnaðarfélagið, eins og það var. Þeir sögðu, eins og stendur í Alþingisrímunum, þegar Arnljótur er að halda ræðu:

„Bankann þarf ei, Þórshöfn dugar,

þar er Snæbjörn minn.“

Þeim fannst ekki ástæða til, að neitt væri til nema þeirra „organisation“, sem var þá orðin stjórnarmóðir. Þeir komu austur að Laugarvatni og voru þá búnir að setja allt kosningaapparat búnaðarfélagsins í gang til að hafa áhrif á gerðir fundarins, búnir að beita öllu því ofbeldi og kúgun, sem þeir gátu. Í mitt kjördæmi var t. d. búið að senda mann, sem hafði verið framsóknarmaður, alþýðuflokksmaður, kommúnisti og unnið með sjálfstæðismönnum, til að reyna að blekkja bændur á laun og reyna að koma að þeim óvörum á fundinum. Svo mikils þótti hér við þurfa. Svo koma þeir allir að Laugarvatni, eftir að hv. þm. Mýr. var búinn að kalla þá saman í Reykjavík til að æfa þá í, hvernig þeir ættu að kjósa hv. þm. Borgf. sem fundarstjóra og hvernig hann, hv. þm. Mýr., ætti að koma þar fram eins og Kristján konungur IX., þar sem hann stendur á stjórnarráðsblettinum með stjórnarskrána, eins átti hann að koma þar með stjórnarskrá bændasamtakanna í framréttri hendi, mikið plagg, þar sem stæði, hvernig allt ætti að vera, þar sem bændur áttu ekki að vera frjálsir, heldur sérstök deild í búnaðarfélaginu, og forseti búnaðarfélagsins átti að stíga eins og keisari á sinn veldisstól í formannsæti og tróna þar. Þetta gekk allt eftir áætlun, eins og þegar Hitler hertók Pólland og Tékkóslóvakíu. Þó að búnaðarfélagið hefði beðið fullkominn ósigur fyrir kommúnistum í sambandi við stjórnarmyndunina, þá gat það þó rétt hlut sinn heima þar.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Þrátt fyrir allan þennan mikla dugnað var mikið af bændum, sem vissu, að þetta var stórkostlega vitlaust og að það þekkist hvergi nokkurs staðar, að stéttarfélag sé látið vera háð ríkisvaldinu. Það vissu þeir, þó að þeir hefðu ekki staðið í stræku. Og þá átti að gera klókindabragð með því að segja: „Við skulum bera þetta undir bændur. Við skulum láta almenna atkvæðagreiðslu bænda skera úr, hvort þessi nýja hreyfing skuli verða frjáls eða ófrjáls.“ Þeir treystu blaðakosti sínum, Tímanum og Degi, að þau gætu talið bændum trú um, að þeir ættu að fara á básinn. En svo verður nokkuð ofan á. Mér er sagt, að hv. 1. þm. Skagf. hafi sagt, sem vel má vera, með sínu góðlátlega blíða brosi, þegar atkvæðakassarnir komu í búnaðarfélagið: „Það er bezt að hafa atkvæði sunnlenzku bændanna ofan á, til þess að talningin verði ánægjulegri, þegar neðar kemur í kassann.“ Þetta var allt mjög skynsamlegt. (StgrSt: Þetta er ein af gróusögum hv. þm., sem enginn sannleikur er fyrir.) Ég verð að hryggja hv. þm. með því, að þetta er satt. Hann veit, að hann hefur svo sorglega sögu að segja frá brölti sínu 1944 og á.fram, að honum er heppilegra að viðhafa það lítillæti og ástúð, sem honum er lagin, en að vera með drýldni. (StgrSt: Ég hef ekki haft eins illt af brölti mínu og hv. þm. af sínu brölti.) Ég veit, að þessi hv. þm. hlýðir minni vinsamlegu bendingu, fyrst með þögn nú og síðar með kurteisri ræðu, þegar þar að kemur. En hvernig sem menn hafa spáð fyrir þessu, þá varð niðurstaðan allt önnur en sú, sem forkólfarnir gerðu ráð fyrir. Þó að þeir beittu öllum þeim tækjum, sem þeir höfðu ráð á, til að fá bændur til að fara á básinn, þá fengu þeir aðeins örlítinn meiri hluta fyrir innlimuninni. Og þá er tekið undarlegt ráð, þ. e. a. s., að inn í þetta mun hafa komið annað, sem kom líka fram í ræðu hv. þm. Skagf. Um sama leyti, kannske eitthvað áður, hafði landbrh. tekið í sína þjónustu Árna Eylands, sem lengi hafði verið starfsmaður í búnaðarfélaginu og unnið þar mjög myndarlega og líka fyrir sambandið og unnið manna mest að útbreiðslu vélanotkunar hjá bændum landsins. Það má segja, að Árni Eylands hafi meira en nokkur annar Íslendingur unnið að því að auka þekkingu bænda á vélum og hjálpað til að fá hingað til lands sem heppilegastar vélar. Þar að auki er hann prýðilega ritfær og hafði verið ritstjóri Freys um stund, en hvort sem hann braut af sér eða ekki, þá var honum sagt þar upp, en fór í þjónustu landbrh. og var gerður fulltrúi í landbrn. (Forseti BG: Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á því, að fundartími er senn á þrotum. — BÁ: Þetta kemur nú málinu heldur lítið við. — StgrSt: Sambandið sagði Árna fyrst upp.) Ég vildi óska þess, að hæstv. forseti reyndi til að halda hv. 1. þm. Skagf. við sinn eigin ræðutíma, svo að það er bezt fyrir þann hv. þm. að geyma krafta sína til þess. Árni Eylands hafði verið hjá sambandinu og unnið þar vel, en frá búnaðarfélaginu var hann rekinn. Nú er hann orðinn yfirmaður búnaðarfélagsins í stjórnarráðinu, og ekki er ósennilegt, að búnaðarfélagsforkólfarnir hafi verið farnir að renna grun í, að ef búnaðarfélagið héldi áfram þessa götu, þá yrði kannske gerð nokkur breyt. í yfirstjórn þessara mála. Að minnsta kosti var það svo, að um það leyti, sem Hvanneyrarfundurinn var, og að því mun ég víkja nánar, þegar þessari umr. verður haldið áfram síðar, þá var í Morgunblaðinu hógvær grein um það, að búnaðarfélagið sé aðallega farið að gefa sig við kaupgjaldsmálum bænda, en sinni síður sínum upprunalegu málum, og því sé líklegt, að það hafi þá afleiðingu, að Búnaðarfélag Íslands verði aðeins stéttarfélag, en hin tæknilegu mál komi í stjórnarráðið. Og ég vil svo enda á því nú, að á Hvanneyrarfundinum kastaði búnaðarfélagið öllu fyrir borð, tók allt aftur, skar á öll tengsl milli búnaðarfélagsins og stéttarsambandsins. Hv. þm. Mýr., sem átti að setjast á keisarastólinn á Hvanneyri, gekk frá honum og afhenti keisaradæmið einhverjum öðrum, en um það tölum við seinna. [Frh.]