11.12.1946
Neðri deild: 35. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (3778)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Jónas Jónsson [frh.] :

Það hafa margir legið í kvefi undanfarið, og ég er einn af þeim, svo nokkuð er farið að fyrnast yfir það, sem sagt hefur verið hér um þetta mál. — En ég var kominn þar í þessari sögu, að á síðasta sumri var hið undarlega stéttarsamband bænda kallað saman á Hvanneyri, þannig að undrum sætti. Það hefur í raun og veru leikið nokkur vafi á því, hvort þeir menn, sem mætt höfðu á fyrsta fundinum, væru réttilega fengnir eða hvort þeim hefði ekki verið hnuplað frá búnaðarfélaginu. Nú voru þeir kallaðir aftur saman á þennan fund, og nú gerðu menn ráð fyrir því, að þeir hefðu lítils háttar meiri hluta fyrir því í atkvgr., að hin nýju bændasamtök yrðu undirdeild í búnaðarfélaginu, því að maður ætlaði, að nú yrði farið að standsetja þetta nýja hús. En þegar þangað kemur, er allt breytt. Þá voru allir höfuðleiðtogar búnaðarfélagsins horfnir frá því, sem gert var áður. Einn af helztu mönnum búnaðarfélagsins var farinn í ferð til þess að kaupa hross fyrir ríkisstjórnina, og er það maður vaskur og fylginn í málum. Annar helzti maðurinn í búnaðarfélaginu var látinn athuga samþ. að nýju. Svo kemur það í ljós, að búnaðarfélagsstjórnin hefur gefizt upp á að innlima bændasamtökin í búnaðarfélagið, og allur Hvanneyrarfundurinn gekk út á það að eyðileggja allt, sem gert hafði verið í málinu áður af hálfu búnaðarfélagsins. Ástæðan til þess var náttúrlega sú, að stjórn búnaðarfélagsins sá, að það var svo mikil ólund í bændum út af þess verknaði og að það mundi aldrei verða þeim til gleði að ganga beint framan að þeim með ráðagerðir búnaðarfélagsstjórnarinnar. Þess vegna var það látið heita svo, að þetta væru frjáls samtök, og búnaðarfélagið sleppti alveg hendi sinni af þeim. Og formaður búnaðarfélagsins — eftir þeim l., sem hann hafði búið til áður — mun hafa vikið úr sæti, sem skyldi vera tákn þess, að hans veldi væri þar með búið.

Nú skyldi maður ætla, að þar sem þetta var atburður, sem komið hefur við nálægt 6 þús. bændum á landinu, sem skyldaðir eru til að vera í búnaðarfélögum í landinu, mundi hafa verið sagt greinilega frá þessu. En í þeim tveimur blöðum, sem standa næst formanni búnaðarfélagsins, Tímanum og Degi, var ekki sagt eitt einasta orð um þetta. Þar var sagt, að allir væru ánægðir og allt væri eins og vera ætti. Það hefur nefnilega farið þannig, að fólkið úti um landið hefur alveg snúið við frá ráðagerðum forustumanna búnaðarfélagsins, svo að þeir hafa neyðzt til að láta taka frá sér þennan kjörgrip.

Rétt um sama leyti kom hins vegar í Morgunblaðinu ritstjórnargrein, þar sem augsýnilega var verið að benda leiðtogum búnaðarfélagsins á það, að mögulegt væri að gera á þessu þá verkaskiptingu, að búnaðarfélagið tæki að sér verðlagsmál og deilumál fyrir bændur, en stjórnarráðið tæki aftur að sér þá framkvæmd búnaðarmálanna, sem það hefur falið búnaðarfélaginu að framkvæma. Þessa leið hafa leiðtogar búnaðarfélagsins komið auga á áður, og þess vegna hafa þeir búizt við, að rétt væri að hætta við þessa ráðagerð alla.

En spurningin er: Ef sunnlenzku bændurnir höfðu rétt fyrir sér, hvers vegna var þá allur þessi áróður og allt þetta ofbeldi og undirróður og stórmæli um, að þessum málum væri hvergi betur komið en hjá búnaðarfélaginu?

Eftir að þetta var allt um garð gengið á Hvanneyri og búið að segja ósatt frá því, sem gerðist þar, þá leggst þetta allt í það sama sofandi ástand í þessum málum, sem það áður var í. — Það var kölluð saman stjórn búnaðarsamtakanna. Frá henni heyrðist ekki neitt. Hún gerði ekki neitt, og hún getur ekkert gert.

Þannig er ástandið orðið í þessum málum, að það eru ýmsir leiðtogar, sem fengizt hafa við það að bjarga bændum í þessum efnum, þar sem þeir hafa rekið sig á hvert skerið af öðru. — Fyrst er þetta: Þeim dettur í hug að fara að ná í peninga, af því að Stefán Jóhann Stefánsson er að reyna að ná í peninga handa verkafólki. Það mistekst. Síðan er reynt að stofna búnaðarmálasjóð. Þá taka leiðtogar búnaðarfélagsins sig til og reyna að setja sjóðinn undir eftirlit. Síðan, þegar málið er enn tekið fyrir, sendir Alþ. peningana í hendur sveitamönnum. Um sama leyti leggur búnaðarfélagið undir sig bændasamtökin, og árið eftir kastar stjórn búnaðarfélagsins þeim frá sér og vill ekkert við þau eiga. Þessi sorgarsaga sýnir forráðamönnum búnaðarfélagsins, að þeir hafa farið villir vega.

Ef þetta mál kemst til 2. umr., álít ég vel við eigandi að ræða við þessa góðu menn um það, hvort þeir gætu ekki snúið sér að því sem allra fyrst að sinna búnaðinum eingöngu og láta þessa reynslu sína verða til þess að dreifa ekki kröftunum. Og sem dæmi um það, að rétt væri fyrir búnaðarfélagið að dreifa ekki kröftunum, heldur halda sér við sitt eiginlega verkefni, vil ég nefna þá einu tilraun, sem gerð hefur verið um það, sem kommúnistar og nokkrir framsóknarmenn hafa mestan áhuga fyrir í búnaðarmálum, að taka stór lönd til ræktunar samfelld og nota til þess nýjustu tækni. Það hefur verið aðeins gerð ein tilraun í þessu efni — það er hin svo kallaða Síbería, sem liggur í hjarta Suðurlands, rétt við rafmagn, rétt við síma, rétt viti mjólkurbú og rétt við kaupstað. En þessu máli er fylgt lítið eftir. Þegar búið var að ræsa fram 100 hektara með ærnum kostnaði og allt benti á, að nú ætti að byrja á slíkri ræktun fyrir alvöru, sem kommúnistar hafa viljað hafa, hvað þá? Þá gleymir búnaðarfélagið að halda þessu máli til streitu, heldur liggur þetta land þannig, að skurðirnir eru opnir og strengirnir í plógförunum eru uppgrónir, þannig að illfært er um landið. — Þetta dæmi vil ég leggja fram sem síðustu röksemd um það að sinni, að búnaðarfélagið er á villigötum, þegar það er að vinna að öðrum málum en sem undir það heyra, svo sem að gera tilraunir til að mynda ríkisstjórn, búa út bændasamtök eða starfa að verðlagningarmálum, meðan það á jafnáberandi hátt, eins og átt hefur sér stað um Síberíuræktunina, kemur í ljós, að búnaðarfélagið getur ekki leyst verkefni, sem lágu algerlega á leið þess. Þessi mistök félagsins stöfuðu af því, að leiðtogar félagsins hafa verið að fást við málefni, sem þeir hafa ekki ráðið við.

— Og af þessu álít ég, að skylda Alþ. sé að beina búnaðarfélaginu inn á þau verkefni, þar sem störf þess geta haft mikla framtíð, ef það sinnir þeim. — Hygg ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta að sinni.