12.04.1947
Neðri deild: 112. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Arnfinnur Jónsson:

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram í umr. um þetta mál, að tekjurnar af þessum þremur frv., sem hér eru til meðferðar, muni nema um 35 millj. kr., en eitt stjórnarblaðið, Tíminn. segir í dag. að tekjurnar muni nema 50 millj. kr., og mun það vera rétt, því að Tíminn miðar þar við heilt ár, þar sem hinir halda því aftur á móti fram, að þessi l. nái aðeins til 9 mánaða, — fyrsti ársfjórðungurinn komi ekki til greina, þar sem l. falli úr gildi um næstu áramót. Nú dettur engum í hug, að þessi l. verði numin úr gildi um næstu áramót, ef núv. stj. verður þá við völd. Fremur mundu menn búast við, að einhverjar nýjar aðferðir kæmu til viðbótar.

Ég býst við, þó að ég sé ekki kunnugur í þessum sökum, að afgreiðslan á þessum stórmálum sé allóvenjuleg. Ef gert er ráð fyrir, að fjárl. nemi 200 millj. kr., sem varla verður, þá er hér hvorki meira né minna um að ræða en 1/4 af þeirri upphæð alls, og þetta á að leggja á þjóðina með þeim forgangshraða, sem mun vera einsdæmi um slík mál. Helzt átti víst að hespa það af á einum sólarhring og helzt að minnsta kosti á tveimur. Það þýðir, að stjórnarandstaðan á ekki að fá neitt tækifæri til þess að koma með brtt. við t.d. rökstuddar till. um aðrar leiðir til þess að afla ríkissjóði tekna. Hún fær ekki einu sinni tækifæri til þess að koma með ýtarlegar brtt. við frv. sjálft. Og ofan á það er stjórnarandstaðan látin sæta ávítum fyrir það að víkja litla stund úr þingsalnum til þess að tala sig saman um þetta mál meðan verið er að leita afbrigða fyrir málinu. Maður skyldi þó ætla, þar sem hin yfirlýsta stjórnarandstaða er 7 menn í þessari d., en hinir 28, að þá hefði stjórnarandstöðunni verið óhætt að hverfa litla stund, til þess að fá mætti afbrigði fyrir þessu máli. En hvort mundi það nú svo, að sjálfum stuðningsmönnum þessarar hæstv. ríkissj. sé ekki meira en svo um þessi frv. gefið, að jafnvel þeir, sem að lokum fylktu í hv. d., til þess að rétt á takmörkum væri hægt að veita afbrigði áður en stjórnarandstaðan kom, jafnvel þeir séu farnir að verða dálítið hugsi út af þessari nýju aðferð til þess að ná tekjum úr vasa alþýðunnar í ríkissjóð? Trúlegt þykir mér það, að þeir séu farnir að finna, að málið er ekki vinsælt og að það séu miklu fleiri, en stuðningsmenn Sósfl., sem kunna þeim litlar þakkir fyrir þessa tekjuöflunaraðferð. En látum svo vera. Það tókst í þetta sinn að koma málinu í gegn. En hvað er framundan, ef beita á framvegis þessari aðferð til þess að afla ríkissjóði tekna? Maður gæti látið sér detta í hug, að hún yrði ekki jafnhátíðleg meðferðin, sem viðhöfð yrði um fjárl. næst, þegar þessi hæstv. stj. leggur næsta fjárlfrv. fyrir, því að mér finnst ekki mikill munur á þessu og því að afgr. þau fjárl. athugasemdalaust, svo að stjórnarandstaðan. sem kynni að vilja fetta fingur út í þetta, fengi ekki of mikinn tíma. Og mér finnst það ætti ekki að geta komið neinum á óvart, þótt þessi stj., sem treystir sér til að leggja 50 millj. kr. á þjóðina í beinum tollum af svona skyndingu, treysti sér til að afgr. fjárl. næsta árs á svipaðan hátt. Sem sagt, lýðræðið hefur verið þurrkað út í meðferð þessara mála, og gæti ég trúað, að ríkisstj. ætti eftir að komast að raun um, að fleirum en sósíalistum þyki þessi málsmeðferð bæði róttæk og ólýðræðisleg.

Það er þegar séð fyrir því, að þetta mál fái afgreiðslu í nótt. Ég skal því ekki tefja tímann með neinum málalengingum, en vil samt leyfa mér að bera fram nokkrar brtt. við frv., sem vitanlega átti ekki að vera tími til að undirbúa. en ég legg hér fram skriflega í trausti þess, að ekki sé svo girt fyrir allt samkomulag við stuðningsmenn þessa lagafrv., að þeir taki ekki tillit til þeirra. Þessar till. eru allar undanþágur fyrir vörur, sem allur almenningur notar mjög mikið, bæði nú og fyrr á öldum. Við 2. umr. þessa máls kom þó í ljós, að það er til einhver vilji fyrir því að leiðrétta eitthvað smávegis í þessu frv. — Vil 6g nú fara örfáum orðum um þessar brtt.

Brtt. eru við 3. gr. Fyrst er það tollskrárkafli 9, en þar er í frv. kaffi undanþegið, en ekki te. Varð ég mjög undrandi, er ég sá þetta í frv. Hvers eiga þeir að gjalda, sem drekka te? Þykir mér því sanngjarnt að leiðrétta þetta og hef tekið upp undanþágutill., nr. 3–17, sem nær yfir te og enn fremur pipar, negul og annað krydd, sem ekki er hægt að framleiða hér á landi. en er mikið notað.

Í öðru lagi er það 11. kaflinn, nr. 20–21, sagógrjón, sagómjöl. Ég álít sanngjarnt og eðlilegt, að það sé undanþegið. — Við 18. kaflann, nr. 4, 7, hef ég tekið kakóduft og suðusúkkulaði, sem er mjög mikið notað á mörgum heimilum, einkum handa börnum, þar sem ekki er mikil mjólk, en börnum er ekki gefið kaffi, sem ekki er talið nærandi. — Þá kemur næst tómatsósa, sem er mjög algeng á borðum fólks, og virðist óeðlilegt að skatta hana fremur en aðrar brýnar nauðsynjar. — Þá er það við 28. kaflann, nr. 57, öll nauðsynlegustu lyf samkv. skrá, staðfestri af fjmrh. Virðist öll sanngirni mæla með því, að mönnum séu ekki gerð nauðsynlegustu lyf dýrari, en brýnasta nauðsyn krefur, því að venjulega fylgir nógur kostnaður sjúkdómum, þó að ekki sé skrúfað upp verð á lyfjum.

Við 30. kafla, nr. 39–41, hef ég tekið blek alls konar, blýanta, skólakrít, alls konar litkrít og pastelkrít. Þetta eru kennsluáhöld, auk þess sem almenningur notar þau einnig mikið, og kæmi hækkun á þeim þungt niður á fjölmennum heimilum, þar sem börn eru, sem öll sækja skóla og þurfa að kaupa þessar vörur. Og meðan ríkið ekki beinlínis leggur skólunum til þessar vörur, sem sjálfsagt er, væri í fyllsta máta ósanngjarnt að vera að íþyngja einmitt þeim fjölskyldum, sem flest eiga börnin.

Við 34. kafla hef ég tekið eldspýtur, sem allur almenningur þarf að nota, jafnt ríkir sem fátækir. Mér finnst, að fátæka fólkið megi eins njóta elds þeirra. — Við 37. kafla hef ég tekið bakpoka og fatapoka, sem mjög eru notaðir af sjómönnum, sem sækja vinnu langt frá heimilum sínum.

Þá er það 44. kafli. nr. 2–4, þar sem talinn er upp þakpappi, veggpappi og gólfpappi. Hv. 2. þm. Reykv. hefur einnig gert till. um byggingarefni, og læt ég hans rökstuðning nægja í því. Við sama kafla eru svo taldir upp ýmsir liðir, sem allt hið sama gildir um og skólaáhöld. Þar er og tekinn upp liður um ferðakistur og ferðatöskur, sem ekki eru framleiddar í landinu og almenningur notar mikið, einkum á síðustu árum, eftir að orlofsl. gengu í gildi.

Við 45. kafla eru undanþágutill. um teiknibækur handa börnum og landabréf alls konar, sem í raun og veru ætti að vera algerlega tollfrjálst.

Við 47. kafla, nr. 7–9 eru gerðar undanþágutill. um gólfábreiður, gólfmottur og gólfdregla úr ull og dýrahári, og sama er að segja um 48. kafla, 9–11. Þessar vörur eru ekki framleiddar hér á landi, en munu talsvert nauðsynlegar í heimahúsum. og mér finnst því ekki rétt að gera mönnum erfiðara fyrir en nauðsynlegt er að veita sér þessar vörur. — Síðan er talinn upp ýmis nærfatnaður, ytri fatnaður, sokkar, leistar, skófatnaður, enskar húfur o.fl. og gerðar till. um undanþágur á þeim vörum. Þetta eru allt vörur, sem enginn getur án verið og eru sannarlega nógu dýrar fyrir allan þorra manna, þó að ekki séu stórhækkaðir á þeim tollarnir frá því, sem nú er.

Síðasta till., við 79. kafla, er um að undanþiggja orgel og harmoníum þessari tollhækkun. Þetta eru þau hljóðfæri, sem allur almenningur í landinu kaupir helzt og eru langalgengust í heimahúsum. Þau eru mjög dýr og þola enga hækkun, ef aðrir en þeir efnuðustu eiga að geta veitt sér þau. Hins vegar er mjög mikil vakning meðal þjóðarinnar í músíkmálum, og væri eðlilegra að ýta undir þá viðleitni manna og greiða fyrir henni, með því að gefa almenningi kost á að afla sér hentugra hljóðfæra, heldur en að bægja mönnum frá því að geta keypt þau.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Ég veit, að það mun ekki valda neinum úrslitum um afgreiðslu þessa máls, hvort ég segi meira eða minna, en vil þó vænta, að hv. d. taki tillit til þessara óska minna og samþ. þær.