12.12.1946
Neðri deild: 36. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (3784)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr., var enda lasinn, svo að ég mun ekki blanda mér inn í þessar deilur. En ræða hv. 2. þm. Rang. gaf tilefni til þess, að ég bað um orðið og ætla að segja örfá orð, áður en gengið verður til atkv. En áður ætla ég aðeins að víkja að því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði. Hann taldi, að búnaðarsamböndunum væri mikil þörf á starfsmanni. Það dregur enginn í efa, og það vita allir, að tilgangurinn með búnaðarmálasjóði var að styrkja búnaðarsamböndin. En það, sem ég ætlaði að ræða um, var ræða hv. 2. þm. Rang. Sú ræða byggðist öll á því að reyna að færa rök að því, að bezt væri, að l. væru eins og þau eru nú. En einustu rökin voru þau, að tvö búnaðarsambönd hefðu lýst sig samþykka þeim í þessari mynd. Það er nú varla hægt að stæra sig af minna, því að þetta eru aðeins 2 af 13. 11 búnaðarsambönd hafa mótmælt, og geta menn af því séð, hverjar eru óskir bænda almennt. Á hinn bóginn höfum við flm. þessa frv. áskoranir frá stjórnum 11 búnaðarsambanda um að flytja þetta mál hér. Varðandi dagskrártill. hv. þm., þá getur þannig löguð afgreiðsla ekki byggzt á öðru en því, að álit bænda almennt væri þveröfugt við það, sem það er. Hv. þm. sagði, að þetta væri mál Framsóknar og það styddu það ekki aðrir en framsóknarmenn, Ég get nú búizt við, að hann telji okkur hv. þm. Borgf. svarta sauði í flokknum. (ÓTh: Ekki tel ég það.) En mér þykir ólíklegt, að hv. þm. Barð. verði talinn meðal svörtu sauðanna, en svo sem menn muna, var hann einn af aðalstuðningsmönnum málsins í fyrra og barðist ötullega fyrir því í Ed. Sýnir þetta, hve mikið er á ummælum hv. þm. að byggja.