24.10.1946
Neðri deild: 5. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (3791)

17. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Í þessu frv. felast tvær breyt. á gildandi þingsköpum. Hin fyrri er fólgin í því, að hafi útvarpsumræða verið ákveðin, geti umr. farið fram bæði á undan og eftir útvarpsumræðum. Er þessi brtt. flutt í tilefni af því, að forseti Sþ. hefur nýlega úrskurðað, að skilja beri gildandi þingsköp þannig, að umr. geti ekki haldið áfram að útvarpi loknu. Hin síðari er, að gert er ráð fyrir, að minni hluta í þingflokkum sé veittur viss réttur við útvarpsumræður. Það er augljóst, að ef sú regla, sem gilt hefur, fær að haldast óbreytt, þá getur það orðið til þess að skerða alvarlega málfrelsi þingmanna, ef skoðanir innan flokka eru skiptar. Ef meiri hluti flokks eða stj. hans vildu koma í veg fyrir, að tilteknir þm. tækju til máls, þyrftu þeir ekki annað en að óska útvarpsumr. um málið og ákveða, að aðrir en þeir skyldu tala. Samkv. núverandi þingsköpum er m. ö. o. ekkert því til fyrirstöðu, að flokkstj. geti varnað vissum þingmönnum að taka til máls við umr. Þetta er varhugavert og hættulegt. Hingað til mun það sjaldan hafa komið fyrir, að síðustu umr. hafi verið útvarpað, en það átti sér stað í „flugvallarmálinu“ svo nefnda. Aukaþing var kallað saman með stuttum fyrirvara, og urðu margir þm. síðbúnir, t. d. ég, sem var utan lands og náði því ekki í 1. umr. málsins. Síðari umr. var svo útvarpað og átti ég ekki kost á að taka til máls um málið. Ég flutti ásamt öðrum brtt., en umr. var útvarpað og umr. ekki um málið eftir það, og gátum við því ekki mælt með brtt. okkar. Þegar okkur var þetta ljóst, reyndum við að koma fram með grg., en var hafnað. Við gátum því engum skýringum komið á framfæri, hvorki mælt með till. okkar munnlega né skriflega. Þarf ekki að taka það fram, að slík vinnubrögð eru mjög varhugaverð og afleiðingarnar skaðsamlegar þingræðinu.

Samningamenn þingskapanna hafa tekið mikið tillit til utanflokkamanna, svo að utanflokkamaður á rétt á ræðutíma til hálfs á við hvern þingflokk, þó til samans, ef fleiri eru utanflokkamenn en 2, ekki lengri ræðutíma til samans en hver þingflokkur. En þeim skeikaði mikið, er þeir tóku ekkert tillit til þess, að flokkar eru ekki ávallt sammála innbyrðis. Menn skiptast í flokka eftir afstöðu og viðhorfi til grundvallaratriða þjóðskipulags og aðstöðu til stétta og ýmsum hagsmunum.

Það er augljóst, að til eru mörg önnur mál en þau, sem snerta þann grundvöll, sem flokkaskiptingin byggist á, t. d. menningarmál. Um þau hafa oft skapazt miklar deilur í þinginu, og fer því fjarri, að flokkarnir hafi ávallt verið innbyrðis sammála. Sama gildir og um ýmis utanríkismál, að þá er flokkaskipun önnur en venjulega. Væri meiri hluti flokka eða flokksformenn á einu máli um, að minni hlutinn fengi ekki að láta skoðun sína í ljós, gera þingsköp það kleift, eins og nú er, en ég tel þetta mjög hættulegt þingræðinu. Flugvallarsamningurinn, sem lá fyrir síðasta aukaþingi, er þess eðlis, að ekki er óeðlilegt, þó að venjuleg flokkaskipun raskist í afstöðunni til hans, og þannig getur farið um ýmis mál. Og er þá rétt að meina minni hlutanum að láta álit sitt koma fram? Ég get látið þetta nægja sem rökstuðning fyrir þessu frv.

Ég vil benda á, að um stórmál geta myndazt minni hlutar innan flokkanna, svo stórir, að ranglátt væri, að ekkert kæmi fram frá þeim við útvarpsumr. Hér er því lagt til, að ef flokkur klofnar um mál og sé því lýst yfir við forseta, sé skylt að veita minni hlutanum rétt til að tala í ræðutíma flokksins í hlutfalli við tölu þm. í minni hlutanum, þó aldrei lengur en 1/3 af ræðutíma flokksins.

Þingsköp, eins og þau eru nú, eru ekki byggð á anda sanns lýðræðis, því að ekki er eðlilegt tillit tekið til minni hluta, sem kunna að myndast í afstöðu til einstakra mála. Aftur á móti eru þingsköp frjálsleg, hvað snertir rétt flokka. Flokkur, sem á aðeins einn þm., fær jafnan ræðutíma og flokkur, sem á 40 þm. Og einn utanflokksmaður fær 1½ ræðutíma á við stóran þingflokk. Þingsköpin eru nú ranglát, því að allt að tíu manna minni hluta, sem myndazt getur, eins og flokkaskipting er nú, væri hægt að meina alls réttar við sérstök. tækifæri.

Ég læt svo nægja að vísa til grg. fyrir frv. Frv. er komið fram vegna umr. um flugvallarmálið á síðasta aukaþingi. Þá kom það í ljós, að þingsköp eru gölluð, því að þm. var bannað að taka til máls. Þá kom það fram, að réttur minni hl. var skertur: Í mínum flokki var það svo, að við, sem vorum í minni hl. fengum ekki að gera grein fyrir skoðunum okkar. Að þetta var hægt samkv. þingsköpum tel ég varhugavert og þingræðinu sjálfu skaði að því.