24.02.1947
Efri deild: 79. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (3805)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Frsm minni hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég gat ekki orðið sammála meðnm. mínum um afgr. þessa máls. Ég get að vísu viðurkennt það sjónarmið, að það gæti vel komið til mála að vísa öllum breyt. við iðnlöggjöfina, bæði því, sem í þessu frv. felst, og þá ekki síður því, sem felst í frv., sem áður var búið að samþ. hér í hv. d., um iðnfræðslu, frá á þessu stigi málsins með tilliti til þess, að n. situr á rökstólum, er skipuð var 1941 til þess að samræma alla skólalöggjöf í landinu. Frá þeirri n. hefur komið í þingið gegnum hæstv. ríkisstj. og menntmn. d. heill bunki af frv. Þó er það nú svo, að hún á eftir nokkurn hluta af fræðslunni í landinu og þar á meðal alla iðnfræðsluna. Við vitum það um störf þeirrar n. og að Sigfús Sigurhjartarson og Ingimar Jónsson voru settir í n. til þess að athuga um það, hvernig ætti að haga iðnfræðslunni og hvernig hún gæti bezt fallið inn í heildarskólakerfið.

Þegar l. um iðnfræðslu voru hér til afgr., kom ég með rökst. dagskrá um það, að beðið væri álits þessarar n. Þá var þessi hv. d. á móti því, og dagskrá mín var felld. Þess vegna tel ég, að hér eigi líka að ganga það sama yfir og að það komi þá ekki til mála að fara að vísa þessu frá, því að fyrst deildin afgreiðir áfram mál, sem svona var ástatt um, á líka að afgreiða þetta. Og ég tel, að það, sem er höfuðefni þessa frumvarps, sé, að þetta eigi að kenna í skólum, en hverfa frá því áð láta meistarana hafa iðnnema sem vinnuþræla, en kenna þeim lítið, — þá stefnu eigi að taka upp í heild sinni, bæði í kaupstöðum og sveitum. Þess vegna virðist sú meginhugsun, sem í frv. felst, vera alveg rétt, þó að hún sé ekki útfærð hér nema að því, er sveitirnar snertir. Og að það er ekki gert, er af þeirri ástæðu, að þar, í sveitunum, er þörfin fyrir iðnaðarmenn — ekki búhaga menn, því að þeir eru þegar til um allt landið, og mönnum er hjálpað til þess að verða búhagir, m. a. með kennslu í bændaskólunum, því að þar eru kennd handverk nokkra klukkutíma á viku hverri — heldur vantar okkur þá menn í sveitirnar, sem geti staðið fyrir húsabyggingum. Og það er það, sem á að ná með þessum væntanlega skóla, að útvega þá menn. Ég tel, að þessi nauðsyn sé brýn, og brýnni nú heldur en nokkurn tíma áður. Það liggur fyrir, að það eru ákaflega mörg býli á landinu, sem svo er ástatt um byggingar á, að það þarf að byggja upp á þeim, og þó eru hin býlin enn þá fleiri, þar sem þarf að gera viðbótarbyggingar og breyta byggingum vegna þeirra breyt. á búnaðarháttum, sem nú eru að verða um nokkuð stórt svæði á landinu, þar sem menn eru meira og minna að hverfa frá sauðfjárbúskap og fara inn á kúabúskap, og vantar víða tilfinnanlega útihús í sambandi við þá breyt. Til þess að standa fyrir byggingum í sveitum vegna þessarar breyt. á búskapnum er ákaflega brýn þörf, á mönnum. Og það er fyrst og fremst sú þörf, sem ég vil láta iðnskóla í sveit leysa. Þess vegna taldi ég, að þetta frv. ætti að samþykkjast. — Kostnaður við þetta mál er að vísu nokkur í framkvæmd. En það er hugsað þannig hér í frv., að fengið sé fé til þess að láni og skólinn sjálfur rísi undir láninu, þannig að skólinn þurfi ekki að kosta ríkissjóð beint útlagt fé í peningum. Þess vegna er það misskilningur hjá hv. frsm. meiri hl. n., að þetta þurfi að verða svo ákaflega dýrt. — Ég tel þess vegna, að þetta frv. eigi að samþ. En hins vegar tel ég, að það þurfi að gera á því nokkrar breyt. Ég tel, að breyta þurfi nokkuð ákvæðunum um hina bóklegu kennslu, sem hér er gert ráð fyrir. Ég tel ástæðu til að leggja meiri áherzlu á húsasmíði heldur en í frv. er gert í kennslu á þessum skóla. Fleiru álít ég, að þurfi að breyta, og ég mun koma með brtt. við frv., ef það sýnir sig, að meiri hl. þessarar hv. d. vill afgr. frv. sem l., en ekki með rökst. dagskrá. Ég tel á því ákaflega brýna þörf að fá iðnlærða menn út um sveitir landsins og því sé brýn þörf á að fá þessa stofnun, sem geti gert þessa menn hæfa í því starfi, sem þeim er ætlað að vinna. Þess vegna vil ég samþ. þetta frv. með þeirri breyt., sem ég mun koma með við 3. umr., ef hv. þd. fellst á að afgr. ekki málið með rökst. dagskrá. En ég sé ekki ástæðu til að koma með brtt., meðan ekki er séð, hvernig fer með þá dagskrártill.