24.02.1947
Efri deild: 79. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (3807)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er sannfærður um það, að þetta er allmerkilegt mál, sem hér er á ferð. Mér finnst það benda á einhverja linku í störfum Alþ., þegar máli eins og þessu er vikið frá afgreiðslu þingsins ár eftir ár. Ég held, að það sé ekki hægt að skýra það með öðru en því, að vandanum við að búa svona mál í heppilegt form sé vikið frá sér af einhverri tregðu við að leggja það á sig: Það er vafalaust, að eitthvað er hægt að finna áð þessu frv., sem hefði þurft að laga. En í þessum fskj., sem hér liggja fyrir með þessu máli, er það fyllilega viðurkennt, að hugmyndin sé góð, sem kemur fram í frv. T. d. í III. fskj. segir svo, með leyfi hæstv. forseta (Þetta fskj. er frá Sveinasambandi byggingamanna): „Teljum vér sjálfa hugmyndina um iðnskóla í sveitum góða og af nauðsyn fram komna.“ En svo hefur þessi aðili ýmislegt að athuga og benda á, sem hann telur standa til bóta í frv., eins og það, að nemendafjöldinn kunni að verða of mikill samkv. frv. vegna þess, hve verkleg kennsla sé plássfrek og plássfrekari en bókleg kennsla o. s. frv., og leggur til, að búsáhaldadeildinni verði alveg sleppt, vegna þess að verkleg kennsla í héraðsskólum og bændaskólum ætti að geta gert menn nokkurn veginn búhaga. En það, sem ég legg mest upp úr í sambandi við fskj. I frá stjórn Landssambands iðnaðarmanna, er það, sem ég vil nú lesa. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Meðmæli landssambandsstjórnarinnar með frumvarpinu frá 7. febr. 1946 byggist á því, að í stað manna, sem ekkert hafa lært og enga æfingu fengið í iðnaðarstörfum, en taka þó að sér iðnaðarstörf í sveitum og þorpum landsins, oft samkvæmt beiðni opinberra aðila, komi menn, er dálitla tilsögn hafa fengið.“ M. ö. o., þarna er af Landssambandi iðnaðarmanna fyrir ári síðan viðurkennt, að þetta frv., ef að l. verður, bæti úr þessu ástandi. (SÁÓ: Er ekki rétt að lesa næstu grein á eftir? ) Ég ræð, hvað ég les, hv. þm. Hann getur svo lesið hér á eftir það, sem hann vill í viðbót. En hér er sem sagt miðað að því, að til þess að sjá um byggingar í sveit, skuli í stað manna, sem enga verklega þekkingu hafa til þess eða æfingu, en hafa verið beðnir að sjá um húsabyggingar, jafnvel beðnir þess af hálfu þess opinbera, koma menn, sem þó dálitla þekkingu hafa, eftir að þeir hafa unnið allt að tvö ár undir handleiðslu kennara í skipulögðum skóla. Og ég er ekki sannfærður um, að fjögurra ára nám með öllu fökkinu og öllu sendisveinastarfinu og öllu því, sem alkunnugt er, að fer fram í þessu fjögurra ára námi hjá þessum meisturum — eins og hv. þm. Str. hefur bent á í þessum umr. — ég er ekki sannfærður um, að þetta fjögurra ára nám sé með svo miklum ágætum, að með tveggja ára námi í góðum, skipulögðum skóla yrðu sveinar miklu verr að sér í iðn sinni heldur en þessir sveinar, sem búið er að útskrifa eftir fjögurra ára nám hjá meistara. En ef reynslan sýndi það nú, þá hygg ég, að það lægi beinast við að lengja þá eitthvað námstímann í þessum bóklega skóla, sem frv. er um, eða fækka námsgreinum, eins og Sveinasamband byggingamanna bendir á.

Ég held, að það dyljist engum, að þörfin fyrir endurbyggingu sveitanna er mikil og að það eru ekki fyrir hendi menn með neina fagþekkingu eða iðnréttindi til þess að inna þetta nauðsynlega endurbyggingarstarf af hendi. Og þess vegna ber þjóðfélaginu skylda til þess að bæta þar úr, eins vel og kostur er. Og það væri einmitt að mínu áliti aðferðin til að bæta úr þessu að koma upp slíkum skóla, sem hér er um að ræða. Það er ekki sæmandi, að það skuli vanta hér byggingar, bæði í kaupstöðum og sveitum.

Iðnaðarmenn í landinu hafa fengið lagalegan stuðning til þess að standa í vegi fyrir því, að ágætir hæfileikar ungra manna á verklegu sviði fái að njóta sín og að þeir fái menntun á þennan hátt. Ameríka gæti sannarlega verið okkur til fyrirmyndar að þessu leyti, og þeir, sem alltaf mæna í vestur og horfa þangað eins og hundtík upp á sinn herra, mættu læra það af Ameríkumönnum að reyna ekki síður að koma mönnum áfram á verklegu sviði heldur en í bóklegum efnum. Ég er þess vegna undrandi á því, að Alþ. skuli ætla að víkja málinu frá sér enn um sinn, þótt viðurkennt sé af iðnaðarmönnum, að hugmyndin sé góð og það sé ágætt, að menn komi, sem nokkra þekkingu hafa, í staðinn fyrir menn með enga þekkingu. Iðnaðarmannasambandið hefur fyrir ári síðan mælt með frv., hvað sem það gerir nú, og útmálað gagnsemi þess.

Ég vil leggja áherzlu á það, að Alþ. slái botn í þetta mál með jákvæðri ályktun. Þörfin er svo rík, að ekkert annað á við. Þm. verða að nenna að vinna að málinu og koma því í eitthvert form.