24.02.1947
Efri deild: 79. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (3808)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Frsm. minni hl. taldi, að ekki kæmi til mála að vísa frv. frá, og færði fyrir því þau rök, að hann vildi taka upp breytta háttu í kennslu í iðnaði almennt, og er þetta út af fyrir sig mál, sem hægt er að tala um, en það er ekki hægt að taka það upp bara fyrir sveitirnar. Það er kannske nær sanni að taka upp kennslu bæði í sveitum og kaupstöðum, en ég vil benda hv. þm. á það, að þeir hafa nýlega sent frv. héðan út úr d., þar sem þeir samþ. að halda uppi þessari kennslu um sinn undir stjórn meistara. Með tilvísun til þessa er ég á móti því að taka upp þessa kennslu í sveitunum. Ég vil, að þm. þekki mismuninn á þessu. Mér heyrðist líka á hv. þm. Str., að hann væri með því að taka upp kennslu í skólum í staðinn fyrir að láta menn nema í 4 ár hjá meisturum. En þá ætti þetta að gilda fyrir landið allt. Frv. um iðnfræðslu lá hér fyrir, og átti þá að taka þetta upp í sambandi við það frv.

Hv. þm. N-M. segir, að okkur vanti ekki búhaga menn. Ef það er réttur skilningur hjá honum, að þessi skóli á ekki að vera til þess að fjölga búhögum mönnum í þessu landi, þá er engin ástæða til að hafa verklega deild við alþýðuskólana eða búnaðarskólana. Mér heyrðist ekki þm. Str. vera á sama máli, því að hann sagði, að menn kynnu ekki svo mikið, að þeir gætu farið með sínar eigin vinnuvélar. Ég veit, að Alþ. hefur lagt fram fé til þess að koma upp vélaverkstæðum út um sveitir landsins, og tel ég því fé vel varið. Ég tel rétta stefnu að vinna að því að gera menn búhaga, þótt þeir geti ekki staðið fyrir að reisa byggingar í sveitum, en sé nóg af búhögum mönnum í sveitunum, er ekki ástæða til að eyða fé til þess að auka þá kennslu.

Það er um það að ræða, hvort á að halda uppi skóla til þess að gera menn búhaga eða hvort á að útskrifa fullgilda iðnaðarmenn fyrir sveitirnar. Það er aðalágreiningurinn, og við teljum, að þessir menn verði ekki nógu góðir fyrir sveitirnar. Hv. þm. N-M. gat þess, að ekki mundi þurfa nema lítið sem ekkert fé úr ríkissjóði til þess að koma þessu upp. Ef þetta er rétt, held ég það verði ekki mikill vandi fyrir aðila í sveitum landsins, í héruðunum sjálfum eða sýslunum að koma þessu upp, sé ekki um annað en ábyrgðina að ræða. Ég held jafnvel, að voldug fyrirtæki, eins og Samband íslenzkra samvinnufélaga eða Kaupfélag Eyfirðinga, mundu geta komið upp slíkum skóla, ef hann á að geta borið sig fjárhagslega. En ég er ekki viss um, að þetta sé rétt, og vil benda á það, að komið hefur verið upp byrjunarvísi að svona skóla á Hólmi, og ég held, að engir nemendur séu dýrari en þeir, sem koma þaðan.

Hv. þm. Str. var undrandi yfir þeim fjandskap, sem þetta frv. mætti á Alþ. Ég vil benda honum á, að það er misskilningur að afgreiðsla málsins sé nokkur fjandskapur við málið sjálft. Það er ágreiningur um það, hvort á að tryggja sveitunum fullkomna iðnaðarmenn eða fúskara. Það er þetta, sem deilt er um milli meiri hl. iðnn. og þeirra, sem eru með þessu frv. Meiri hl. iðnn. lítur svo á, að með þessu frv. sé ekki verið að tryggja sveitunum nægilega góða iðnaðarmenn, auk þess sem hún lítur svo á, að engin vissa sé fyrir því, að þessir menn stöðvist í sveitinni, eftir að búið er að kenna þeim, því að sveitirnar geta ekki tekið á móti þeim öllum saman. Hann spurði, hvað við vildum leggja til. Það er eðlileg spurning. Ég skal benda hv. flm. á það, að í l. um húsagerð í sveitum er í 2. k. samþ. að fara inn á þá leið, sem ég álít langheppilegasta, eins og nú er, að byggingaframkvæmdir eigi að vera á hendi ákveðins aðila, sem hefði möguleika til þess að láta vinna þessi verk í héruðunum í heild. Þetta væru menn með fullkomna þekkingu og fullkomnar vélar. Ég tel, að þetta sé heppilegri lausn á málinu en að útunga svo og svo mörgum fúskurum, en útiloka starfsemi samkvæmt 15.–17. gr. þessara l., og ég vil segja það, að ef fé fengist til þessa, fyndist mér eðlilegt að ræða það, hvort ríkissjóður vill ekki styrkja það. Þessir menn hafa fullkomna ábyrgð, fullkomna þekkingu og fullkomnar vélar. Það sést þá, að ekki sýnum við málinu sjálfu fullan fjandskap.

Það var annað atriði, sem flm. ber fyrir brjósti, sem ekki kemur því við að koma upp byggingum, en það er, hvernig þm. hugsar sér að koma piltum, sem vilja nema, í nám. Það er allt annars eðlis. Nú tek ég það ekki sem sönnun, að ekki sé hægt að koma sveitapiltum í nám hér í Reykjavík, auk þess sem það eru ýmsir aðrir staðir til en Reykjavík. Í öllum þorpunum eru menn, sem hafa öll réttindi til þess að kenna iðnað, svo að ekki þarf að hrúga þeim öllum til Reykjavíkur. En það er annað vandamál: Það er ekki hægt að fá þessa menn til að fara í sveitina aftur. Ég hugsa, að það sé hægt að finna miklu fleiri dæmi; þar sem piltarnir úr sveitinni hafa ekki viljað hverfa heim aftur, heldur en þau, að ekki væri hægt að koma þeim í iðnað. Iðnaðarmannalöggjöfin nú opnar möguleika til þess, að menn geti fengið aðgang að iðnaðinum miklu fyrr en áður var.

Flm. talaði um skort á iðnaðarmönnum. Ég held ekki, að það sé meiri skortur á iðnaðarmönnum í sveitunum heldur en hér. Hér liggja fyrir tugir húsa, sem eru hálfsmíðuð. Það er skortur á iðnaðarmönnum um allt land, og þess vegna hefur þurft að taka gerviiðnaðarmenn til þess að vinna þessi verk. Þetta er tímabilsástand í landinu. Ég veit ekki betur en verið sé að laga þetta þannig, að ekki verði lagt í meiri mannvirki á hverjum tíma en sem svarar vinnuafli í landinu, og þá kemur til athugunar, hvernig á að haga störfum í hinum ýmsu héruðum landsins, og þá þarf að athuga og gera upp störf þeirra manna, sem taka að sér byggingar og skipulagningar í sveitunum. Það þarf ekki að segja mér, að ekki sé hægt að skipuleggja flokka til þess að framkvæma þessi störf í sveitunum, ef vinnuafl er fyrir hendi. Ég væri fús til að taka upp fulla samvinnu við hv. þm. Str. um það, hvort ekki væri rétt að skipa héraðsbyggingameistara í héruðunum, sem gæfu upplýsingar, stæðu fyrir byggingum og aðstoðuðu við byggingar á hinum ýmsu svæðum. Ég hygg, að þeir mundu á stuttum tíma geta leiðbeint um rakavarnarlagnir o. fl., og mætti undir þeirra stjórn nota meira gervimenn og ólærða menn en gert er nú, því að mér finnst ekki rétt að láta menn með minni þekkingu standa fyrir byggingum í sveitum heldur en í kaupstöðum. Ég teldi, að það mætti hjálpa mikið, ef byggingarfulltrúi væri í héruðunum, sem leiðbeindi á allan hátt og sæi um þessi mál, og vona ég, að þetta verði ekki tekið sem fjandskapur gegn málinu.

Hv. þm. Str. hafði mjög stór orð um það, hvernig tímanum væri hagað hjá meisturum almennt. Hann fullyrti, að þessir menn væru ekkert betri iðnaðarmenn eftir 4 ár heldur en þeir mundu verða úr þessum skóla. Ég vil þó benda honum á það, að til þess að hægt sé að ná þessum árangri á 18 mánuðum, sem þessir menn ná á 4 árum, þarf að binda námið við ákveðið fag, en það er ekki gert. Það eru svo mörg fög, að það eru ekki líkur til annars en að það yrði fúsk, þar sem ætlazt er til, að lærðar séu 10–12 námsgreinar og sumar svo vandasamar, að það þyrfti 18 mánuði fyrir hverja. Svo segir flm., að þetta komi iðnaðarmönnum í kaupstöðum ekki við, en það kemur Alþ. við, hvort verið er að byggja upp fyrir milljónir króna úr ríkissjóði til þess að útskrifa fúskara, auk þess sem það kemur við iðnaðarstétt alls landsins, en ekki eingöngu iðnaðarstétt kaupstaðanna.

Ég vildi benda hv. 3. landsk. (HV) á það í sambandi við það, sem hann las, að hann las ekki allt. Hann tók út úr samhengi, eins og við var að búast. Í bréfi Landssambands iðnaðarmanna segir: „Stjórn landssambandsins telur þá menn, er útskrifast kynnu úr umræddum skólum, ekki kunnáttumenn. Hún telur ekki æskilegt né öruggt að láta þá taka að sér iðnaðarstörf.“ Og er þá rétt að styðja að því, að þessum mönnum sé falið að byggja upp sveitirnar? Ég tel nú þetta meiri fjandskap við sveitirnar heldur en hitt, sem við sýnum þeim. Þeir segja líka: „Iðnaðarmenn geta þessir menn ekki kallazt og fá engin iðnréttindi, nema þeir gerist nemendur hjá meistara og læri á venjulegan hátt.“ Þeir eru á þeirri skoðun, að þeir geti ekki lært á svo skömmum tíma, og sérstaklega ekki, þegar þeir eiga að læra svo og svo mörg fög, eins og ætlazt er til.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar. Ég er fús til, eins og ég sagði áðan, að ræða aðferðir, sem geta leyst þetta vandamál, en tel ekki, að frv., eins og það er borið fram, leysi þann vanda, sem þarf að leysa.

Þá kemur til greina sú hugmynd, að ríkið setji upp trésmiðju til þess að smíða allar hurðir og glugga, sem þarf að smíða í opinberar byggingar. Það er vitanlegt öllum, að það er langódýrast að hafa sama form á þessu, og er hugsanlegt að kenna mönnum það í staðinn fyrir að hafa það eins og nú er, en það er mál, sem þarf undirbúning, og þó hv. 3. landsk. vildi væna iðnn. um það, að hún nennti ekki að hugsa málið, þá vil ég segja það, að henni ber náttúrlega ekki skylda til þess að gjörbreyta svo frv., að það þekkist ekki, ekki einu sinni fyrirsögnin, — en þetta er ef til vill leið. Ég veit, að húsameistari, Björn Rögnvaldsson, og jafnvel búnaðarbankinn hafa verið inni á þessari stefnu, að stofna bæri landstrésmiðju, en þá smiðju má þó ekki setja í sveit. Hún þarf að vera á þeim stað, þar sem ódýrt er að koma hráefni að henni og fullunnum afurðum frá henni.