24.02.1947
Efri deild: 79. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (3812)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hafði hér yfir íslenzkan góðan og gildan málshátt um þá, sem sífellt mændu til Ameríku, en vildu ekki líta þangað í þessum efnum, þar sem sú höfuðregla ríkti að greiða sem bezt fyrir því, að verkleg hæfni manna fengi notið sín sem bezt. En hér virtist vera hið gagnstæða, ef svo miklar hömlur væru hafðar á því, að menn menntuðu sig verklega, að menn gætu ómögulega hugsað sér nema eina aðferð til þess, þ. e. a. s. þá, að hafa nemendur undir hendi meistara í fjögur ár. Ég gat búizt við því, að einhverjir af þeim, sem sífellt mæna til Ameríku, t. d. Vísisliðið og Sjálfstfl. almennt, töluðu eins og hv. 1. landsk. hefur gert hér, en ég hélt ekki, að hann færi að taka upp þann hugsunarhátt, sem alltaf mænir upp til síns herra, en þessi er niðurstaðan. Hv. 1. landsk. talaði um það, hvernig þessum málum væri hagað á Norðurlöndum, en hann er því vafalaust ekki kunnugri heldur en ég, þótt hann kunni að vera kunnugri í Ameríku. En á Norðurlöndunum öllum er það þannig, að þar eru tugir af tekniskum skólum, þar sem menn geta stundað nám og fengið fullkomin iðnréttindi alveg á sama hátt eins og þeir öðlast réttindi með því að stunda nám hjá viðurkenndum meisturum og ljúka þannig iðnaðarnámi. Hví má ekki opna báðar þessar leiðir hér? Hví mega ungir menn, sem ætla að mennta sig, ekki velja um það, hvort þeir gerast námsmenn hjá meistara í 4 ár og öðlast víðtækari rétt eða ganga í tekniskan skóla og ljúka námi á 2 árum með takmarkaðri réttindum? Hv. þm. Barð. hélt því fram, að hér yrði að vera um annað hvort þetta að ræða, en mér finnst, að þetta hvort tveggja gæti verið hlið við hlið í íslenzkri löggjöf. Ef hið gamla fyrirkomulag um verklegt nám undir húsbóndahendi meistara sýndi það í reynslunni, að þeir menn, sem þann veg hafa lært, sköruðu fram úr og væru hæfari iðnaðarmenn en þeir, sem lokið hefðu prófi í slíkum iðnskóla sem hér um ræðir, þá mundi fyrst og fremst verða leitað til þeirra um að hafa verklegar framkvæmdir með höndum, en hinir, sem hefðu notið þessarar skólamenntunar, mundu þá vinna að þessum störfum fyrst í stað, meðan neyðin er sárust, en iðnaðarmenn fást ekki til þess, eins og ástandið er nú. Það er búið að fara svo með þessi mál, að kaupstaðirnir hafa togað úr sveitum landsins hvern lagtækan mann til þjónustu í byggingarframkvæmdum kaupstaðanna, og þess vegna er útilokað að fá iðnlærða menn til að inna byggingarstörf af hendi í sveitunum. En á þessu verður að ráða bót, því að það er ekki hægt að bíða með byggingarframkvæmdir í sveitunum svo nokkru nemi. Aftur á móti játa ég það, að ef svo skyldi fara, að þeir menn, sem sæktu menntun sína í skóla eins og þennan, skyldu koma hv. þm. Barð. og hv. 1. landsk. á óvart — að dómur reynslunnar yrði kveðinn upp á þann hátt, að þeir yrðu hinum kannske jafnsnjallir —, þá skal ég játa það, að gamla kerfinu kynni að vera hætt, en annars ekki. Hér er full þörf á að opna aðra leið en þá, sem ríkt hefur, og þegar talað er um það, að það eigi að spyrja iðnstéttirnar, það eigi að fara eftir þeirra till., þá vil ég segja það, að það orkar tvímælis að spyrja iðnstéttirnar eða einungis hennar aðila, tvo eða þrjá. Það á fyrst og fremst að afgr. þetta mál, ekki eftir dómi iðnstéttanna, heldur eftir því, hvað er þörf þjóðfélagsins í þessum málum, svo að það er víðtækara sjónarmið, sem á að taka tillit til, heldur en að spyrja einn aðila, hvað gera eigi. Hv. 1. landsk. lét undrun sína í ljós yfir því, að ég sem gamall verkalýðsmaður skyldi vilja fylgja frv., sem þrengdi mjög kosti iðnstéttanna. En þá hlýtur hann að bera mjög fyrir brjósti meistara iðnstéttanna, því að það að koma upp slíkum skóla mundi ekki þröngva kosti iðnstéttanna nema meistaranna; og ég ber þá ekki fyrir brjósti.

Þetta nýja fyrirkomulag mundi opna ungum mönnum nýja leið til verklegrar þekkingar, hef svo sem áður kynnzt þekkingaróttanum, t. d. er ég var nemandi í Gagnfræðaskólanum á Akureyri fyrir 20 árum og fyrir Alþ. lá að breyta þeim skóla í menntaskóla. Nei, þá var hætta á offjölgun stúdenta, sagði hv. Alþ., það náði engri átt að unga þannig út stúdentum. En nú eru orðnir þrír menntaskólar í landinu og heimild í fjárl. til að reisa menntaskóla í sveit, og hér í Reykjavík liggur það í loftinu að reisa einn menntaskóla í viðbót. Nú er runninn af mönnum sá ótti við offjölgun stúdenta, sem þeir voru áður tröllteknir af. En nú skýtur þessi draugatrú upp kollinum að nýju í nokkuð annarri mynd, þegar hefja á hina verklegu menntun upp úr afgömlum og stirðnuðum formum. Það hefur þegar verið gert á Norðurlöndum og í því efni mætti gjarnan líta til Ameríku.

Tvennt var það í ræðu hv. þm. Barð., sem ég get vel tekið undir. Annað var það, að hér ætti að vera byggingarfulltrúi í hverju héraði, sem væri fær leiðbeinandi og ráðunautur í byggingamálum. Á því væri fullkomlega þörf, það væri ágætt, það kemur ekki beint þessu frv. við, en þyrfti að koma til viðbótar því. Og ég tel, að hv. þm: Barð. ætti ekki að skiljast við þessa hugmynd, þótt þetta frv. yrði samþ. Annað var það, sem hann minntist á, að gluggar og hurðir væru smíðaðar í einni stórri verksmiðju og framleitt þannig „standardiserað“. Ég er hv. þm. Barð. alveg sammála um þetta. Það nær ekki neinni átt að smíða allar hurðir og glugga í höndunum úti um allt land, og væri miklu betra, að gera það í einni stórri verksmiðju, sem sendi svo teikningar út um landið og gæfi þeim, sem væru að byggja, kost á að panta þessar vörur, Slík framleiðsla yrði miklu ódýrari og hagkvæmari en nú er og mundi flýta fyrir nauðsynlegum aðgerðum í byggingarmálum, því að bæði er þetta nú kostnaðarsamt og erfitt um útvegun. Það er nógu erfitt um að fá menn til að smíða hús í sveitunum, þó að spursmálið um hurðir og glugga væri leyst á þennan hátt, það þarf að gerast að auki. Það skyldi ekki standa á mér að vera því fylgjandi, að slík verksmiðja væri reist, t. d. sem deild úr landssmiðjunni. Því fylgdi engin áhætti, og brýna nauðsyn ber til, að þetta verkefni sé upp tekið.

Ég tel, að það sé full þörf á að opna hér nýja leið til menntunar iðnaðarmanna. En hér er talað líkt og það gangi glæpi næst að fylgja þessu máti, þar eð ný iðnaðarlöggjöf hafi fengið góðar undirtektir hér á þinginu. Ég játa, að það frv. er til bóta að ýmsu leyti, en því miður byggir það of mikið á hinni gömlu verklegu löggjöf, og sumum vitlausustu ákvæðum hennar er meira að segja haldið. Ég skal t. d. benda á eitt. Því er enn slegið föstu í þessu frv., að iðnréttindi geti menn ekki öðlazt fyrr en eftir fjögurra ára nám. Þessu er slegið föstu sem algildu. En í gagnfræðaskólum er hverjum nemanda, sem hefur gáfur og dugnað, opin leið og heimilt að ljúka sínu námi svo fljótt sem hann getur. Sama er að segja um menntaskól: ana og háskólann. Ég man t. d. eftir því, þegar ég var í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, að piltur kom austan af Langanesi og settist í fyrsta bekk, en sagði sig síðan úr skóla og tók próf utanskóla. Þessi maður lauk gagnfræðaprófi eftir tvö ár og náminu í lærdómsdeild á tveimur árum, eða venjulegum sex ára skóla á fjórum árum. Þetta var Gísli Guðmundsson, fyrrverandi ritstjóri. Er nokkurt vit í að viðhalda þessum aðstöðumun þeirra, sem hafa hæfileika til verklegs náms, og hinna, sem hafa andlega hæfileika eða hæfileika til bóklegs náms? Sá iðnnemi, sem allt leikur í höndunum á og hefur brennandi áhuga á hinu verklega námi sínu, getur lokið náminu á margfalt skemmri tíma en klaufinn, en er þó bundinn til fjögurra ára. Ef hæfileikamenn eiga að fá að njóta sín og ljúka náminu fyrr en aðrir, ef þeir vilja, þá þarf að vera opin leið fyrir þá til að sanna hæfni sína eða próf, en ekki hefur vantað andstöðuna hér gegn því ákvæði.

Ég hef nú margsinnis lesið hina rökst. dagskrá meiri hl. iðnn., og með leyfi hv. forseta ætla ég nú að lesa hana hér upp. Ég ætla að lesa hæg., svo að menn geti fylgzt vel með því, hve fágætt plagg þetta er:

„Með því að nú þegar er heimild í lögum til þess að taka upp verklega kennslu í ýmsum skólum landsins á svipaðan hátt og gert er ráð fyrir í þessu frv. og að það er á valdi ríkisstjórnarinnar, hvenær hún lætur þau ákvæði koma til framkvæmda, en sérskóli sá, sem frv. ræðir um, mundi hins vegar hafa stórkostleg útgjöld í för með sér, án þess þö að ná þeim árangri, sem gildandi iðnlög ætlast til, að náð verði, sér deildin ekki ástæðu til frekari aðgerða í málinu og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það er tvennt, sem felst í þessari dagskrá. Þar eð gert er ráð fyrir verklegri kennslu í ýmsum skólum landsins, er ekki þörf á að afgr. þetta frv. hér, það er nóg, sem fyrir er, við það er ekki bætandi. Hin ástæðan, sem dagskráin er rökst. með, er sú, að það verði of kostnaðarsamt að hafa þennan fyrirhugaða skóla. Hinir sömu menn, sem bera fram þessar ástæður gegn málinu, hafa og flutt þau rök gegn því, að skólinn mundi veita of litla verklega menntun og svo hraklega yrði búið að nemendunum fjárhagslega, að skólahaldið minnti á þrælahald. Hér stangast rök þeirra með öðrum orðum algerlega. Hv. 1. landsk. þykist mæla með dagskránni sökum þess, hve hraklega verði búið að nemendum skólans fjárhagslega samkv. þessu frv., þótt skólahaldið yrði þá vissulega ódýrara, ef svo væri, en á hinn bóginn skrifar hann undir dagskrána með þeirri forsendu, að skólinn verði of dýr. Þannig eru rökin.

Ég skal nú víkja nokkuð að hinum þungu skólakjörum, sem talað er um, og gera nokkurn samanburð. Nú verða iðnnemar að stunda sitt nám í fjögur ár. Fyrsta og annað árið hrekkur kaup þeirra naumast fyrir fæði, en fjórða árið fá þeir nokkurt verulegt kaup. En í þessum fyrirhugaða iðnskóla hér fá nemendur að vísu ekki beinar kaupgreiðslur, en þeir fá ókeypis fæði, húsnæði, kennslu, verkfæri til notkunar og -nokkurn klæðnað, og svo kaupgreiðslur, ef þeir vinna yfirvinnu. En kaupgreiðslur þær, sem iðnnemar fá hjá meisturum, duga ekki til að greiða fyrir þessar þarfir. Og hver er svo munurinn? Samkv. þessu frv. eiga iðnnemar að öðlast réttindi eftir tvö ár í stað fjögurra, og það er líka nokkurt kaup. Ég hefði raunar vel getað fellt mig við, að nemendur hefðu fengið kaup í skólanum, en hins vegar er sómasamlega séð fyrir þörfum þeirra án þess. Nokkurn gjaldmiðil fengju þeir þó, ef unnin væri aukavinna, sem á að greiðast í peningum, og það væru þá vasapeningar. Mér virðist, að þeir nemendur kæmu nokkurn veginn skuldlausir úr skólanum, og ekki er það nú almennt, að menn hafi miklar tekjur í skólum, hitt er reglan, að menn verði að borga þar skólagjöld og eitthvað með sér. Ég vísa því á bug aðdróttunum um, að nemendur verði illa haldnir í skólanum. Ég tel aðbúð þeirra enga frágangssölu. Hins vegar skyldi ég styðja brtt. í þá átt að gera hlut þeirra enn þá betri, en það mundi hafa aukakostnað í fór með sér, en andstæðingar málsins, sem tala mest um aðbúðina, vilja þó einmitt vísa málinu frá vegna kostnaðarhliðarinnar, sem ríkið þarf að standa straum af.

Annað er það, sem mikið er talað um, að nemendur úr þessum skóla verði fúskarar í samanburði við þá iðnaðarmenn, sem koma frá meisturunum: Nú er það svo í nýju fræðslul., að gert er ráð fyrir almennu skólanámi frá 12 til 16 ára, og fyrstu tvö árin er um skyldunám að ræða. Hver einasti unglingur hér á landi verður að stunda það nám í framtíðinni, en langflestir verða þó í skóla allt þetta árabil, eða í fjögur ár, og skólanum verður skipt í bóknámsdeild og verknámsdeild. Þeir, sem velja verkleg störf, stunda námið í verknámsdeild. Í flestum héraðsskólum eru nú þegar skilyrði til að stunda verklegt nám, og hið sama er að segja um suma gagnfræðaskóla. Nú er það vitað, að allir unglingar eiga í framtíðinni að hafa notið tveggja til fjögurra ára náms, þar sem helmingurinn af námstímanum fer í verklegt nám, en síðan mundu unglingarnir úr verknámsdeildinni fara í iðnskólann og vera þar í tvö ár. Það er þetta, sem hv. þm. verða að taka með í reikninginn, þegar verið er að tala hér um fúskara. Það eru allar líkur til, að nemendur, sem koma í þennan iðnskóla, verði búnir, a. m. k. í tvö ár, að helga sig verklegu námi; meðferð véla og þess háttar í gagnfræðaskólum og héraðsskólum, áður en þeir koma í þennan skóla, og það nám væri því til viðbótar tveggja ára námi í iðnskólanum. Ég efast um, að þessir menn yrðu upp og ofan verr menntaðir en þeir, sem nú útskrifast frá meisturunum, en lærlingavali meistaranna ráða oft persónulegar ástæður, klíkuskapur, kunningsskapur, ættarbönd eða annað, en hæfari menn hafa aftur á móti oft verið útilokaðir frá náminu að undanförnu.

Eftir því, sem ég hugsa betur um þetta, verð ég sannfærðari um, að ekki er rétt að láta lengur við svo búið standa að opna ekki nýja leið til menntunar iðnaðarmanna. Ég tel alveg sjálfsagt, að þess skóli komi til viðbótar verklegri kennslu í gagnfræðaskólum og héraðsskólum, eins og bóknámsdeildirnar veita réttindi til framhaldsnáms í menntaskólum, kennaraskóla og öðrum framhaldsskólum. Verknámsdeildirnar þurfa einnig að vera grundvöllur undir einhver réttindi, annað er óhugsandi. Ég tel hóflega í sakirnar farið að veita þessum mönnum fyrst réttindi til að standa fyrir smíði smærri íbúðarhúsa og útihúsa í sveitum, sem þó þurfa að vera góð. En það er trúa mín, ef þessi leið reyndist eins góð og gamla leiðin til menntunar iðnaðarmanna, að Alþ. rýmkaði síðar réttindi þessara manna, unz þeir stæðu jafnfætis öðrum iðnaðarmönnum í því efni. Þar ganga þeir með sigur af hólmi, sem almenningsálitið dæmir þess verða. Það er nauðsynlegt að rýmka leiðirnar til menntunar á verklega sviðinu, eins og við höfum gert á bóklega sviðinu að undanförnu. Nú kreppir skórinn fastar að á verklega sviðinu, og það er skylda Alþ. að vísa þessu máli ekki frá. Það má breyta frv., en tilraunina verður að gera, ekki til að fjandskapast við meistarana eða neina aðra, heldur af þjóðarnauðsyn. Þetta er ekkert sérmál, þetta er þjóðarmál, þetta er ekki mál meistaranna.