25.02.1947
Efri deild: 80. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (3815)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég verð að segja það, að mig undrar stórlega, hvað hv. 1. landsk. er orðinn íhaldssamur. Er þetta hvað furðulegast, þegar þess er gætt, að maðurinn var áður fyrr hinn framsæknasti, en ég tel, að þetta sýni ljóslega, hversu ellin getur leikið menn grátt. Hann aðhylltist þá svo mjög hina radikölu stefnu, að hún var oft við hann kennd og nefnd Sigurjónismi. En svo hverfur hann um stundarsakir frá þingmennsku, en kemur svo aftur til þings og er þá orðinn íhaldsmaður. Þetta minnir mig á mann nokkurn, föður eins okkar frægasta tónskálds. Hann hóf að rita ævisögu sína og var þá radikal, en svo hætti hann um 7 ára skeið, en hélt svo áfram ritinu, en er þá orðinn svo gerbreyttur og íhaldssamur, að hann segir m. a., að Jón Sigurðsson forseti hafi verið þjóðmálaskúmur, og allt eftir því.

Hv. 1. landsk. heldur því fram, að aðalkjarni þessa máls sé, að við eigum ágæta iðnaðarmenn og því þurfi ekkert að gera í iðnfræðslumálunum. Mér er spurn, hvað er stagneruð íhaldssemi, ef ekki þessi hugsunarháttur? En svo kemur hann með önnur rök. Af þessum ástæðum segir hann enga þörf fyrir skóla. Iðnaðarmenn, sem lært hafa undir hendi meistara, séu svo fullkomnir, að þeir þurfi alls ekki að vera betri. En svo segir hann, að ef einn sveitaiðnskóli væri reistur, og hann slær því föstu, að hann yrði ómögulegur, þá kæmu allir hinir fjórðungarnir á eftir og heimtuðu slíkan skóla, og þó heldur hann því fram, að engin þörf sé fyrir þá. Hann telur og, að rök okkar til stuðnings þessa máls verði vegin og léttvæg fundin, en ég vil benda honum á það, að rök okkar þurfa ekki hans skýringa við. Í gær komu fram þær till., að í gagnfræðaskólum og héraðsskólum skyldi haldið uppi nokkurri iðnfræðslu fyrir nemendur á vissum aldri. Nú er það auðvitað, að þeir, sem þetta nám stunda, verða ekki fullkomlega hæfir til að inna af hendi öll þau smíða- og byggingastörf, sem aðkallandi eru í sveitum landsins, nema þá ef til vill þeir, sem eru sérstaklega duglegir. Í frv. er átt við það að koma upp skóla fyrir þessa menn, sem námi vilja halda áfram, en allar líkur mæla með því, að það yrði úrvalið úr þessum gagnfræðaskóla eða héraðsskólanemendum. Þessir menn yrðu þá fullkomnir iðnaðarmenn, en ég tel, að mönnum geti ekki dulizt, hversu nauðsynlegt það er að opna þessum unglingum leið til framhaldsnáms, en án þessara skóla yrði hún að mestu lokuð. Með skólunum samrýmdist þörf sveitanna fyrir iðnaðarmenn og þessi brýna þörf fyrir betri iðnfræðslu. Ég er ekkert hræddur við að stofna nýja skóla og sízt slíkan skóla sem þennan. Ég vildi benda á það, að þarft væri að taka eina af héraðsskólabyggingunum fyrir þennan skóla, t. d. héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði, en hann væri sérstaklega heppilegur. Vitanlega yrði þá að leggja niður héraðsskólann, en nú er það auðvitað, að ef slíkur iðnskóli væri fyrir hendi, þá mundu færri sækja um héraðsskólana. Ég get ómögulega skilið það sjónarmið, sem fram kemur hjá hv. 1. landskjörnum, að iðnfræðsla þurfi eingöngu að fara fram undir hendi meistara. Það má ómögulega vera val á milli meistaranáms og skóla. Mundu ekki flestir frjálshuga menn vilja hafa, eins og aðrar þjóðir hafa, bæði meistarakerfi og skólakerfi í þessum greinum? Ekki sízt ætti þetta að liggja beint við, þar sem það er vitað, að við höfum nú einstrengingslegri kennslu í þessu en nokkur önnur nágrannaþjóð okkar. (SÁÓ: Þetta er rangt.) Hv. 1. landsk. var rétt að sleppa orðinu, þar sem hann sagði, að í Svíþjóð væri bæði meistarakerfi og skólakerfi. (SÁÓ: Aðeins í Svíþjóð.) Ég hef skýrslur í höndunum, sem sanna það, að slíkir skólar eru bæði í Noregi og Danmörku. Ég veit t. d. um nemanda, sem ekki hafði nægilega hátt próf til þess að fá aðgöngu að bóklegu námi utanlands, en aftur á móti hafði hann næg tækifæri til að komast að við verknámsskóla, og ég var einmitt að blaða í skýrslum þessara skóla, rétt áður en ég fór að heiman frá mér áðan, svo að ég þarf enga sögusögn um það, að þeir séu hvergi til á Norðurlöndunum nema í Svíþjóð. Það er annars einkennilegt, að ekki skuli mega róta við þessu steinrunna kerfi, sem í gildi er hér hjá okkur, svo að menn rísi ekki upp og mótmæli umbótum á því.

Menn mega vera vissir um það, að þótt frv. þetta verði fellt nú, þá skal ég koma með skýrslur, sem sanna það tvímælalaust, að við erum langt á eftir öðrum þjóðum, hvað snertir iðnfræðslu. Ég er alveg steinhissa á því, að þegar menn vita, hve langt við erum á eftir tímanum í þessum efnum, þá skuli þeir ekki með nokkru móti fást til að breyta því til batnaðar.

Nú er það svo, að námstími hjá meistara er 4 ár, en heimilt er að útskrifa nemanda eftir skemmri tíma, ef hann er sérstaklega duglegur. En það er bara með naumindum, að það fáist samþ., að þessir sérstaklega duglegu menn fái að ljúka prófinu, áður en þessi 4 ár eru liðin. Uppvíst er, að sveitirnar vantar svo tilfinnanlega iðnlærða menn, að engin leið er til uppbyggingar þar. Ef þetta er ekki steinrunnin hugsun, þá veit ég ekki, hvernig hún er, en vonandi, að það verði ekki hugsun af þeirri tegund, sem ræður niðurlögum þessa frv. Vænti ég þess, að hv. þd. sjái sér fært að afgreiða frv. þetta, svo að sómi sé að. Ég er sannfærður um, að þessi skóli yrði einn þarfasti skóli landsins, sem fljótlega hlyti almenna viðurkenningu. Ég læt svo mál þetta útrætt nú, þótt ég gjarnan vildi ræða það betur, en ég hef tekið tvisvar til máls við þessa umr. og gert aths., svo að mér er víst ekki heimilt að ræða það frekar við þessa umr.