25.02.1947
Efri deild: 80. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (3820)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er erfitt að koma því fyrir í stuttri aths., sem ég vildi segja í þessu máli, en ég mun leitast við að stytta mál mitt, hæstv. forseti.

Ég vík mér þá fyrst að hv. þm. Barð., og hann sagði, að ástæðulaust væri að afgreiða málið, og færði hann þau rök gegn því, að það væri þegar heimilað í l. um gagnfræðaskóla, að smíðakennsla færi fram í þeim. Þetta er alrangt. Ég er sjálfur skólastjóri fyrir gagnfræðaskóla, og ætti ég því að vera kunnugur verksviði þeirra, en í þeim l. er ekki stafur um að kenna skuli þar húsabyggingar, sem felst í þessu frv. Gagnfræðaskólarnir starfa aðeins nokkra vetur, en á 4. vetri má kenna nemendum vinnuaðferðir og meðferð véla og verkfæra, og geta þeir lært það á tveim árum, en helzt þurfa þeir fjögur ár. Á þessa þekkingu má byggja með því að bæta við námstímann einu til tveim árum, sem bundin séu við byggingu steinhúsa, raflagningar og vinnu eftir teikningum, eða í stuttu máli, að nemendur læri að byggja og ganga frá steinhúsi í sveit. Ég tek undir það með hv. þm. Barð., að ef ekkert er gert í því að veita þessum nemendum réttindi og viðurkenningu, þá kemur tossastimpillinn á þá.

Ég geri það fyrir hv. 1. landsk. að samsinna honum í því, að rétt er, að húsakostur sveitanna batni. En hvernig er þessum málum farið? Búið er að toga allan þorra verklaginna manna til bæjanna og þá sérstaklega til Reykjavíkur, og samt hrekkur þetta ekki til við byggingarframkvæmdirnar, heldur verður einnig að toga menn úr öðrum löndum hingað, og er eytt í það geysimiklum gjaldeyri. Svo segja menn, að hægt sé að fá iðnkunnandi menn. Eru ekki sveitirnar þegar tómar af slíkum mönnum, svo að ekkert er hægt að byggja þar? Allir fara til Reykjavíkur. Nú er talað um að koma upp sérstöku námskeiði fyrir iðnaðarmenn í sveit, og þeir gangi að námi loknu undir strangt próf, og ef þeir standist það, þá verði þeim veitt réttindi. En hér er reynt að bregða fyrir þá fæti og hindra, að þessir menn fái tækifæri til að fullnuma sig, fullnuma sig sem handverksmenn með viðbótarnámi, en það er það, sem felst í frv.

Hv. 1. landsk. sagði, að fara skyldi eftir till. meistaranna í þessu efni. (SÁÓ: Nei.) Ég held nú, að taka ætti takmarkað tillit til umsagna meistaranna, og ég veit, að hv. 1. landsk. mundi ekki, ef um sjómannamál væri að ræða, spyrja togaraeigendur, heldur færi hann til einhvers togarakarlsins að spyrja hann, að öðrum kosti þætti honum þeirri stétt misboðið. Það á að taka tillit til þeirra manna, sem eiga að búa við þetta ófremdarástand. Hv. 1. landsk. sagðist hafa sérþekkinguna í hávegum og hætta væri á, að hún biði hnekki með þessu frv. Mér sýnist nú einmitt, að meistarar mættu fagna því. Ég vék að því í gær, hverjir gallar feldust í iðnlöggjöfinni, og benti m. a. á fjögurra ára einskorðun námstímans, jafnt klaufans og afburðamannsins. Nei, þetta er ekki rétt, hér eiga mismunandi hæfileikar að fá að njóta sín. Enn fremur er það alrangt, að jafnlangan tíma þurfi til þess að læra allar iðngreinar, en fyrir þessu er gert ráð í núverandi iðnlöggjöf. Það þarf 4 ár til þess að læra að byggja fullkomið hús, 4 ár til þess að læra að sóla skó, 4 ár til þess að læra að raka mann og 4 ár til þess að verða vélsmiður. Ætli þetta sé á viti byggt? Nei, meistararnir okra aðeins á nemendum sínum, og sú stefna virðist ráða enn hér á Alþ. Nei, þetta er aðeins kákiðnlöggjöf. Nem. endur eru látnir erfiða að deginum til og stunda svo bóklegt nám að kvöldinu til, og er því bóklega fræðslan kák eitt og nafnið tómt. Þetta er ekkert fyrirkomulag, og ætti að vera búið að þvo það af fyrir löngu. Á sömu bókina er það lært, er hv. 1. landsk. fer að tala um þau ríflegu kjör, sem nemendur njóta hjá sumum meisturum. En færi nú hv. 1. landsk. til togaraútgerðarmanna til þess að spyrja þá um kjör sjómanna, ef þeir ættu í hlut? Nei, hann mundi fara til einhvers togarakarlsins. Upplýsingar meistaranna eru ekki einhlítar. Hv. þm. N-Þ. sagði hér áðan frá því dæmi, að nemandi nokkur hefði sem svaraði 500 krónum á mánuði fyrsta árið við að læra iðn, en síðasta árið 806 krónur, og ég hefði nú haldið, að hv. þm. væru ekki alveg ómerk heimild. Og hver lifir nú af slíku, 500–800 krónum á mánuði? Ekki ég og ekki hv. 1. landsk. heldur. Það er því alrangt, að séð sé fyrir góðum kjörum nemenda. Það er illa séð fyrir bóklega náminu, það er illa séð fyrir verklega náminu, og það er illa séð fyrir fjárhagshlið þessara mála. Og svo berjast menn gegn 25–30 manna skóla úti á landi. Nú bíða framkvæmdir iðnaðarmanna úti um sveitir landsins, og þjóðin býr við heilsuspillandi húsakynni, og nú er talað um að reisa skóla, sem kenni nemendum húsbyggingar, svo að unnt verði að koma þeim húsum upp, sem bráð nauðsyn ber til, og þá á að víkja þessu máli frá í annað sinn. Aukinnar iðnfræðslu er brýn þörf, og með því að reisa þennan skóla og gefa gervismiðunum, sem þess óska, tækifæri að ganga undir strangt próf, mun mega bæta úr þessu ófremdarástandi á skemmri tíma en nú má ætla, og gerði það mögulegt að byggja upp sveitir landsins. Einnig mundu þessir menn verða til þess, að þeim útlendingum fækkaði, sem hingað eru fluttir, og spara eitthvað af þeim mikla gjaldeyri, sem þeir taka með sér út úr þessu landi.