03.03.1947
Efri deild: 83. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (3830)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Eiríkur Einarsson:

Það er nú vegna rásar viðburðanna, að ég hef komizt í þá n., sem hefur fjallað um frv. þetta, iðnn., nú á miðju þingi. Og þar sem ég hef skrifað undir nál. meiri hl. n. um, að málið verið afgr. með rökst. dagskrá, þá tel ég réttmætt af mér að gera grein fyrir því, hvers vegna ég tel, að svo eigi að gera.

Ég vil taka fram, að ég álít í rauninni gott og þakkarvert, að frv. um þessi mál skuli hafa komið fram til þess að róta upp í hugum sumra þm. um nauðsyn þess, að séð sé fyrir nægilega mörgum og góðum smiðum til þess að inna af höndum nauðsynlegar húsagerðir á sveitabýlum. En ég tel hins vegar, að frv. sé ekki þannig sniðið, að ég sjái mér fært að ljá því atkv., að komið verði upp einum slíkum skóla með 50 nemendum fyrir sveitafólkið, með þeim námstíma, sem þar er gert ráð fyrir, og á þann hátt, sem þar er miðað við. Um þetta hefur verið svo mikið rætt, að ég ætla ekki að endurtaka það. Þau rök skýra sig frá sjónarmiði hvers eins, eftir því sem þeim þykir líklegast, og ég hef þar mínar skoðanir. En það er annað, sem vakir sérstaklega fyrir mér, þegar um þetta er rætt og afgreiðslu frv., sem hér liggur fyrir, og það er, að ég tel, að í þessum sökum verði að viðhafa mjög mikla kostgæfni um það að samræma það til náms í skólunum, sem samræmanlegt er. Að koma upp nýjum skóla með nýju formi til nýs náms umfram það, sem nauðsyn krefur, tel ég, að eigi ekki að gera. Er þá eitthvað til samkvæmt skólakerfi landsins, sem gæti í einhverju fullnægt þeim þörfum, sem á að fullnægja samkvæmt frv.? Ég held, að það sé vafasamt að svara þeirri spurningu neitandi, og ég held það megi gera það að álitamáli, hvort ekki er hægt að svara því játandi. Við vitum, að samkvæmt skólalöggjöfinni er svo ráð fyrir gert, bæði um gagnfræðaskólana og héraðsskólana, og sérstaklega finnst mér viðeigandi að nefna í þessu sambandi bændaskóla landsins, að þar séu iðngreinar þessar kenndar, þó að raunar sé í þeim lagasetningum stiklað á því stærsta. En til þess finnst mér eigi að setja inn í slík l. svo þýðingarmikil atriði um fræðslu æskulýðsins til nauðsynlegs frambúðarstarfs, að það verði meira en bókstafur laganna. Og ég tel, að sérstaklega ætti í þessu sambandi að vera tekið til alvarlegrar íhugunar og endurbóta af hálfu þeirra, sem umráðaréttinn hafa, hvernig eigi að fylgja þessu betur og meir eftir en svarar til þess, sem enn er orðið. Ég álít einmitt, að þessir skólar, bændaskólar landsins, sem eru eingöngu fyrir unga pilta, þeir ættu á sérstakan hátt að vera hentugur grundvöllur til þess í sambandi við annað nám, sem þar fer fram, t. d. jarðrækt, að taka á ýtarlegan hátt þetta nám að sér. Bændaskólarnir eru nú í uppsiglingu og verða senn þrír eða kannske fjórir, og þá áliti ég það í sjálfu sér hagkvæmnisatriði, að slíkir kunnáttumenn, sem eru komnir úr sveitunum til þess að læra þau fræði, sem bændaefnum framtíðarinnar henta bezt, búfræði, þeir séu úr nálægum héruðum og dreifistöðvarnar því fleiri en ein um þetta mál, sem kæmu þar til greina, og væri það betra en að einn skóli væri stofnaður fyrir allt landið.

Ég vil líka benda á það í þessu sambandi, að sú lagasetning, sem fyrir er í landinu og miðar að þróun og hagkvæmri skipun þeirra málefna, sem eru skyld þessu, svo sem jarðræktarsamþykktir, sem má nú gera úti um sveitir landsins, og samþykktir um húsagerð í sveitum, ætti að vera lyftiafl slíkra möguleika til framgangs um þessi málefni.

Ég sagði í upphafi máls míns, að frv. væri fram komið af góðum vilja til úrbóta í þessum efnum, og eins og þegar hefur komið fram, hefur það að ýmsu leyti inni að halda sjónarmið mín sjálfs, þó að ég telji það ekki henta eins og það liggur fyrir, heldur líti á það sem vakningu til úrbótar á nauðsynjamáli. Ég sagði áðan, að frv. væri komið fram af góðum vilja og að það sé til úrbóta í þessum efnum. Frá mínu sjónarmiði er það því allrar virðingar vert, þótt ég telji það ekki henta, heldur álít það frekar til vakningar á nauðsynjamáli. Teldi ég heppilegra, að það, er frv. fjallar um, yrði sameinað þeim skólum, sem eru sama eðlis, og þá fyrst og fremst bændaskólunum. Yrði að því mikill kostnaðarsparnaður að hafa þetta allt saman undir sama hatti. Ég tel nauðsyn á því að láta þá skóla — hvort sem það eru bændaskólar eða héraðsskólar —, sem eiga að þroska sveitafólkið til síns lífsstarfs, taka þessi mál föstum tökum og jöfnum höndum, því að þessir skólar, sem reknir eru af ríkinu, eru allt of kostnaðarsamir til þess að vera reknir með svefnhöfga. Þeir verða að vera reknir með vitund þess, að þeir eru kostaðir til að verða þjóðfélaginu að sem beztu gagni. Þetta eru aðeins lauslegar bendingar, sem ég vildi láta í ljós, þar eð ég tel þörf úrbóta í þessum efnum. — Hv. flm. vék að þeim möguleika í ræðu sinni, að einhverjir hinna starfandi héraðsskóla yrðu teknir til kennslu í þeim greinum, er hér um ræðir, og tel ég þá till. enga fjarstæðu. Skoðun mín á alþýðumenntuninni hér á landi er sú, að henni sé ábótavant, af því að hún hefur ekki fundið sitt markmið, og tel ég svefnhöfgann það versta, sem getur átt sér stað í skólum æskunnar. Af þessum ástæðum óska ég eftir, að þessi málefni verði tekin til gaumgæfilegrar og bráðrar athugunar.

Samkvæmt undirskrift undir nál. mun ég greiða atkv. með rökst. dagskránni á þskj. 423, ekki af því, að ég sjái ekki, að hér þurfi á ýmsan hátt úrbóta við, heldur geri ég það í trausti þess, að þegar þessu máli verður vísað til hæstv. ríkisstj., taki hún á því með víðsýni og fullri sanngirni.