03.03.1947
Efri deild: 83. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (3831)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég vil aðeins svara því, sem kom fram hjá hæstv. samgmrh., að þessi skóli, sem ég er að flytja frv. um, væri ekki hliðstæður neinum skólum annars staðar, og hann nefndi hann eins konar viðrini, eins og hann komst svo smekklega að orði. Kom hann svo með dæmi um það, að alls staðar væru forskólar nema þá í Danmörku, og í Noregi væri eins árs skólanám í þessum efnum. Ég fletti upp í umr. frá í fyrra, er þetta mál var til umr., og þá upplýsti hæstv. ráðh., að í Noregi væri fyrst 18 mánaða skóli, síðan yrðu nemendur að vera 2 ár hjá meistara, og teldust þeir eftir það fullgildir iðnaðarmenn. Hvað viðvíkur skólanum í Svíþjóð, sem ég nefndi síðast, get ég frætt hann um það, að námsgreinar hans eru 21 að tölu, og er þetta eins konar forskóli, og stendur í plaggi því, er ég hef hér fyrir framan mig um þennan skóla, að þegar nemendur hafi verið þar í 2 ár, séu þeir mjög eftirsóttir af iðnaðarmönnum, en er þeir hafi unnið hjá meisturum í 2 ár, geti þeir fengið full iðnréttindi. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvort hann vilji mæla með því að breyta þessum skóla mínum í það horf, að þar verði sama fyrirkomulag og í þeim sænsku eða norsku, þ. e. að nemendur verði 18 mánuði eða 2 ár á skóla og síðan tvö ár hjá meistara og fái síðan full iðnréttindi. Fullyrða má, að hvergi sé erfiðara en hér á landi að koma nemendum til meistara. Veit ég dæmi þess, að orðið hefur að senda efnilega menn utan í þessu skyni, sem óvíst er að hverfi aftur heim. Í þessu sambandi minnist ég þess, að hér var á sínum tíma rætt um 97 ólöglega iðnnemendur, og var verið að berjast fyrir því að fá þá viðurkennda, af því að ekki var hægt að koma þeim eftir öðrum leiðum. Hygg ég, að það hafi verið núverandi hæstv. fjmrh., sem var að reyna að ráða bót á þessu ástandi.

Vil ég benda á, að með litlum breyt. mætti hafa þennan skóla, sem ég er að flytja frv. um, með sama fyrirkomulagi og þá sænsku eða norsku, m. ö. o. að nemendur þurfa að vera 2 ár við nám í skólanum, síðan 2 ár hjá meistara og yrðu þeir þá viðurkenndir fagmenn eftir próf. — Það er annars dálítið einkennilegt, að sá maður, sem nú stendur á móti því, að þessi leið verði farin, hann stóð á sínum tíma í hinu mesta stappi út af því, hvort hann ætti að fá viðurkennd sín iðnréttindi, og átti þannig að útiloka þennan mann frá stéttinni, sem nú er fyrir öllum iðnmálum. (Samgmrh.: Hvernig er hann fyrir öllum iðnmálum?) Hann er eins konar forsvarsmaður iðnaðarmanna, því að hann hefur skrifað undir álitsgerð þeirra í þessum efnum.

Skal ég svo ekki orðlengja um málið frekar, en þótt því verði nú vísað frá með rökst. dagskrá, þá skuluð þið sanna það, hv. þm., að þessi skóli, sem hér er farið fram á, mun koma og verður ekki staðið gegn því. Okkur vantar ekki aðeins skóla í þessari námsgrein, heldur munu rísa upp skólar í fleiri námsgreinum, t. d. í meðferð véla og þess háttar. Ég mun því á næsta þingi enn á ný bera fram frv. um þessi efni eftir nánari undirbúning og þótt kannske verði í öðru formi.