03.03.1947
Efri deild: 83. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (3832)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Str., flm. þessa frv., vildi eins og áður bera forskólana sænsku og norsku saman við þennan skóla, er frv. fjallar um, og spurði, hvort ég vildi fyrir mitt leyti mæla með, að þetta frv. yrði fært í það form, sem skandinavísku skólarnir, er hann nefndi, væru í. Skal ég svara því til, að ég er mjög fús til að taka það til athugunar, en leyfi mér að halda fram, að sá skóli, er frv. ræðir um, er allt annars eðlis en þeir sænsku og norsku. Hv. þm. Str. sagði, að kennd væri 21 námsgrein við þennan sænska skóla, en þess ber að gæta í því sambandi, að þar stundar hver nemandi yfirleitt ekki nema eina námsgrein, en í þeim skóla, er frv. fjallar um, er mælt svo fyrir, að nemendur eigi að læra 6 iðngreinar á tæpum tveim árum. Iðnnemar í Svíþjóð og Noregi stunda þannig eina námsgrein í samtals 4 ár, verja einu ári á skóla til undirbúnings, sem þá er tekið til greina og dregið frá, en fúska ekki í 6 iðngreinum, eins og hv. flm. ætlast til með þessu frv. Í Noregi tekur þessi forskóli yfir 12 mánuði í flestum iðngreinum, en í sumum 18 mánuði. Ég hef sjálfur komið á einn slíkan forskóla í Noregi og átt þar tal við forstöðumann hans um fyrirkomulag náms þar. Var mér sagt, að það gæfist vel að láta hvern nemanda stunda eina námsgrein í eitt ár við skólann og síðan hjá meistara í 3 ár. Er þetta gert fyrst og fremst af því, að aðstæður hafa reynzt erfiðar til að koma nemendum allan námstímann að hjá meisturunum. Þá vil ég benda á, að meistarakennslan er miklu hagkvæmari fyrir þjóðfélagið í heild og fyrir ríkissjóð, meðan skilyrði fyrir henni eru í landinu, og fer fjarri því, að hún sé neitt miðaldafyrirkomulag, eins og hv. flm. vildi halda fram.