14.01.1947
Neðri deild: 53. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (3861)

126. mál, verbúðir

Frsm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Í desembermánuði s.l. flutti ég þáltill. um sama efni og það, sem ræðir um í þessu frv. Var í þessari þáltill. skorað á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að bætt yrði úr brýnni þörf í því efni, að komið yrði upp verbúðum og aðstöðu til fiskverkunar og beitningarskúrum til þess að salta í fisk, ef til þess þyrfti að taka, en á þessu er mikil vöntun í verstöðvum við Faxaflóa og sennilega víðar í aflasælum verstöðvum víðs vegar um landið. Þó að þessi þáltill. kæmi nokkuð seint fram, var þó svigrúm, ef undinn hefði verið bráður bugur að málinu, til þess að bæta úr brýnni þörf í þessum efnum fyrir þá vertíð, sem hófst nú við Faxaflóa um áramótin síðustu. Benti ég í grg. fyrir þessari þáltill. á fljótvirkustu leiðina til þess að bæta úr þessari þörf, sem sé þá, að fengnir yrðu í þessu skyni braggar, sem allmikið er af hér í nágrenninu og í Hvalfirði, og mætti bæði fljótlega rífa þá og koma þeim upp og mundi ekki vandkvæðum bundið að gera þá þannig úr garði, að þeir yrðu sæmilegar verbúðir til bráðabirgða, og auk þess mætti með þeim hætti bæta úr þörfinni, sem á því er að koma upp beitningarplássum og aðstöðu til söltunar á fiski. Þessi þáltill. gekk hér til n., en ekkert var frekar í málinu gert, sem má ef til vill rekja til þess, sem fleiri framkvæmdir hafa strandað á, að við búum við það ástand á Alþ. um skeið, að ekki er til ríkisstj. nema til bráðabirgða, og má með sanni segja, að margar nauðsynlegar framkvæmdir hér á Alþ. hafi tafizt af þeim sökum, að við höfum orðið að búa svo lengi við það miður skemmtilega ástand, og skal ég ekki nota þetta tækifæri til þess að rekja það hér frekar, hvað afgreiðslu fjárl. og annað hefur rekið í strand fyrir það, að svona er ástatt. En ég veit, að aðgerðaleysið í þessu máli á fyrst og fremst rót sína að rekja til þess, að sú ríkisstj., sem nú er til bráðabirgða, hófst ekki handa um að gera neitt til úrlausnar í þessu máli, en þetta hafði það í för með sér, að allmargir bátar eða útgerðarmenn utan af landi, sem vildu koma hingað á vertíðinni og fá viðlegu við Faxaflóa, hafa orðið frá að hverfa af þessum sökum, að ekki er hægt að taka á móti fleiri bátum en þegar er orðið, sem fyrst og fremst stafar af vöntun á viðleguplássi og aðstöðu til fiskverkunar.

Þetta frv., sem ekki kemur fram fyrr en komið er þetta fram á vertíð, er því ólíklegt til að bæta úr þeirri brýnu þörf, sem var á aðgerðum fyrir þessa vertíð, en er hins vegar engan veginn að ófyrirsynju fram komið þrátt fyrir það. Því ef ekki fæst úr þessu bætt með öðrum hætti, þá er ekki annað líklegra en að það verði að fara inn á þá braut, að ríkið beiti sér fyrir framkvæmdum í þessum efnum, sem fyrst og fremst væri beint að því að hvetja viðkomandi aðila til þess að gera það, og væri það langæskilegast, að ríkið þyrfti ekki sjálft að fara að gera þetta eða taka sig fram um það að leggja fram fé í þessu skyni. Þetta frv., sem sjútvn. hefur flutt og tekið er fram í grg., að einstakir nm. hafi óbundnar hendur um afstöðu til, er eingöngu miðað við Faxaflóa í þessum efnum, en í þáltill., sem ég flutti og ég hef nú minnzt á, var það ekki eingöngu einskorðað við Faxaflóa, þó að þörfin í bili væri þar brýnust, heldur átti það einnig að ná til annarra fiskisælla verstöðva við strendur landsins, og er það að sjálfsögðu til athugunar í sjútvn. fyrir 3. umr., hvort ekki þyrfti að breyta ákvæðum þessa frv. og færa það út á víðara svið en í frv. felst. auk þess sem n. tæki frv. til athugunar að öðru leyti.

En það hefur komið í ljós, eins og vikið var að í grg. þáltill., sem ég flutti um þetta efni, að aukningu bátaflotans hafa ekki fylgt hraðar aðgerðir í því efni að bæta úr aðstöðunni í verstöðvum hvað þetta snertir, frá því sem verið hefur, auk þess sem enn skortir á það, að þessari öru og miklu bátafjölgun hafi einnig verið mætt með nægum hafnar- eða lendingarbótaaðgerðum einmitt í þeim verstöðvum, sem mest mæðir á um og liggja við aflasælustu fiskimiðin. En það kemur náttúrlega í ljós, að aukning bátaflotans kemur því aðeins að tilætluðum notum fyrir okkur, að jafnframt verði bætt úr í þessum efnum, þannig að bátarnir geti fengið inni á þeim stöðum, þar sem arðvænlegast er að reka útgerð með þeim á hverjum tíma, og í þessum efnum skortir mjög mikið á það, hvað snertir Faxaflóa, og reyndar víða kringum strendur landsins, þar sem fýsilegt er og arðvænlegt undir venjulegum kringumstæðum að reka útgerð. Ég held þess vegna, að það sé rétt að láta þetta mál ganga áfram, og geri ég ráð fyrir því, að sjútvn. taki það til athugunar fyrir 3. umr., og væri æskilegt, að samband væri milli forseta og n. um það, að málið væri ekki tekið á dagskrá aftur, fyrr en þeirri nýju athugun á málinu væri lokið, sem sennilega þarf ekki að dragast lengi úr þessu.