14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (3872)

126. mál, verbúðir

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Það er kannske varla ástæða til þess, að við séum að þrátta um þetta mál hér, ég og hv. þm. Barð., því að við erum búnir að gera það í sjútvn., og það eru fáir fleiri hér í hv. d. til þess að hlusta á okkar rökræður um málið. Ég vil þó svara nokkrum orðum, sem fram komu í ræðu hv. þm. Barð. nú síðast.

Hann taldi mótsögn í röksemdafærslu minni, hvað það snertir, að samkv. frv. ætti aðeins að byggja þessar verbúðir á stöðum, þar sem viðhlítandi hafnarskilyrði væru, — en þegar viðhlítandi væru orðin hafnarskilyrði á einhverjum stað, taldi hann, að fyrst væri tækifæri fyrir hafnarstjórn á þeim sama stað til að snúa sér að því að byggja verbúðir. Ég held, að það sé ekki rétt, að þarna sé um mótsögn að ræða hjá mér. Fyrst og fremst er það matsatriði, hvenær hafnarskilyrði eru orðin viðhlítandi á einhverjum stað, því þó að búið sé að bæta þau mjög, er síður en svo þar með sagt, að ekki þurfi að bæta þau enn meira, færa þau út og endurbæta þau á ýmsan hátt. En bygging verbúða er sá þáttur, sem ég hélt fram og held enn fram, að hafnarstjórnir muni hafa minnstan áhuga fyrir og þess vegna muni alltaf koma á eftir öðrum hafnarmannvirkjum aðgerðir til þess að koma upp verbúðum, a.m.k. í svo stórum stíl, að nægilegt sé, ekki aðeins fyrir heimabátana, heldur líka fyrir þann fjölda báta, sem hlýtur að sækja til margra verstöðva annars staðar að af landinu. Þess vegna held ég, að það sé þörf á alveg sérstökum aðgerðum af hálfu ríkisins til þess að örva ákveðið framkvæmdir í þessu efni.

Þá hélt hv. þm. Barð., að mér skildist, fram, að ég mundi ekki hafa svo mikið traust á hæstv. núv. ríkisstj., að ástæða væri fyrir mig að fela henni framkvæmdir í þessum málum fremur en hafnarstjórnum á viðkomandi stöðum. — Ég ætla ekki að lýsa hér sérstöku trausti og ekki heldur vantrausti á núv. hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál. En ég held samt sem áður, að hún hafi aðstöðu til þess að vera stórvirkari í þessum framkvæmdum en hafnarstjórnir og einnig hljóti hún að hafa nokkurn áhuga á því, að veiðifloti landsmanna geti verið að starfi sem allra mest óhindraður og fái til þess skilyrði og möguleika, vegna þess að fyrst og fremst má búast við þeim tekjum fyrir þjóðarbúið af sjávarútveginum, sem núv. hæstv. ríkisstj., eins og aðrar ríkisstj., þarf sérstaklega á að halda. Og þess vegna álít ég, að ef henni er falið að sjá um framkvæmdir á þessum hlutum, muni hún ekki sitja auðum höndum, heldur muni hún framkvæma þessa hluti, eftir því sem möguleikar verða til á hverjum tíma.

Þá minntist hv. þm. Barð. á það, að fiskifélagið hefði í umsögn sinni sagt frá því — og það er rétt —, að það hefði beðið þá menn, sem vantaði viðlegupláss fyrir báta sína, að gefa sig fram, en enginn hefði komið. En þessi auglýsing fiskifélagsins birtist ekki fyrr en síðast í janúar, eða eftir að vertíðin var byrjuð. Það er rétt, að eftir þeirri auglýsingu gaf enginn sig fram, sem vantaði viðlegupláss fyrir báta sína. En það er ekki sönnun fyrir því, að fyrir þessum málum hafi verið séð á viðunandi hátt. Og mér er kunnugt um, að fyrir jólin s.l. voru það eigendur, að ég hygg 20 eða 30 báta, sem sóttu um viðlegupláss fyrir þá, en gátu ekki fengið. Einhverjir þeirra fengu viðlegupláss, m.a. hér í Reykjavík, en áreiðanlega fengu þeir ekki allir viðunandi pláss fyrir þá, þannig að ég veit, að sumir eigendur þessara báta hættu alveg við að gera út hér á Faxaflóa, vegna þess að þá vantaði viðlegupláss. En það var ekki von, að menn vildu fara að gefa sig fram eftir þessari auglýsingu fiskifélagsins, eftir að byrjuð var vertíð. — Þessi auglýsing fiskifélagsins er því ekki sönnun fyrir því, að ekkert sé þörf að gera í þessu efni. Enda mælti fiskifélagið ákveðið með því, að frumv. þetta, sem hér liggur fyrir, væri samþ., til þess að ráðstafanir verði gerðar, að minnsta kosti fyrir næstu vertíð, í þessu efni. Og slíkra ráðstafana er áreiðanlega þörf, ekki aðeins að áliti fiskifélagsins, heldur býst ég við allra þeirra, sem í þessu efni hafa hagsmuna að gæta í þessu sambandi og þeirrar aðstöðu þurfa að njóta, sem verbúðir skapa mönnum.

Þá var hv. þm. Barð. að andmæla ummælum mínum um það, að vegna þess að til væri nokkuð af gömlum og úreltum verbúðum, sem eigendur þeirra vildu nota í lengstu lög, þá drægi það úr áhuga heima fyrir á viðkomandi stöðum á að byggja nýjar verbúðir. Og taldi hv. þm. Barð. þetta því aðeins koma til greina, ef þessar verbúðir væru í eigu hafnarsjóða, en það mundu þær ekki vera, og því væru þetta ekki rök í málinu, sem ég bar fram um þetta. Ég held þvert á móti, að þó að þessar verbúðir séu í eigu einstaklinga — ég hef að vísu ekki dæmi um það, en mér þykir eðlilegt, að í mörgum tilfellum muni það vera svo —, þá mundu þeir einstaklingar, sem eiga verbúðirnar, hafa nokkur áhrif á hafnarstjórn á hverjum stað og á stjórn mála viðkomandi héraðs, og þess vegna komi þetta til með að verka alveg á sama hátt; þó að verbúðir séu í eigu einstaklinga.

Þá er það að lokum eitt atriði, sem ég tel, að sé nú ekki alveg réttilega fram tekið í þessari rökst. dagskrá hv. meiri hl. sjútvn., þar sem talað er um, að samþykkt þessa frv. og sú framkvæmd, sem gerð yrði á grundvelli hennar, mundi raska hlutföllum þeim, sem sett eru í gildandi hafnarl. um framlög til verbúða annars vegar og annarra hafnarmannvirkja hins vegar. Ég fæ ekki séð, að það mundi verða, því þó að ríkisstj. á þann hátt hefði frumkvæði um það að byggja verbúðir á einhverjum stað, þá er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því í frv., að um slíkar framkvæmdir sé leitað samkomulags við viðkomandi hafnarstjórnir og leitað eftir þátttöku þeirra í kostnaðinum eftir þeim hlutföllum, sem hafnarl. gera ráð fyrir. Og ef slíkt samstarf tækist milli ríkisstj. og viðkomandi hafnarstjórnar, þá verða verbúðirnar eign víðkomandi hafnarstjórnar eða sveitarfélags, þannig að þá mundi þetta falla í þann farveg, sem ákveðið er með hinum almennu hafnarl. Hins vegar þótt þetta yrði ekki þannig og ríkið eignaðist verbúðirnar á einstöku stöðum, þá mundi það ekki raska þeim ákvæðum, sem í almennu hafnarl. eru, og hver verstöð gæti eftir sem áður byggt verbúðir samkv. ákvæðum hafnarl. og notið til þess þess stuðnings, sem ríkissjóður veitir með þeim l. Ég sé því ekki, að þetta raski þeim ákvæðum, heldur sé beinlínis við þau miðað. Og síðustu ummæli hv. þm. Barð. um það; að þessi ákvæði séu komin inn í hafnarl. af beinni þörf til þess að létta viðkomandi verstöðvum að byggja, ekki aðeins sínar hafnir, heldur og verbúðir —, eru því aðeins viðbótarviðurkenning á því, hversu þörfin þarna er mikil, og ekkert annað en rökstuðningur fyrir því, að gera þurfi meira í þessum efnum en hingað til hefur verið gert, og það er aðeins það, sem ætlazt er til með þessu frv., sem hér liggur fyrir, og þess vegna er það, sem ég, ásamt hv. þm. N-Þ., hafði þá aðstöðu í n. að mæla með samþykkt þessa frv.