12.04.1947
Efri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur atriði, sem ég vildi taka fram. Ég þarf mjög lítið að svara þeirri ræðu, sem hæstv. fjmrh. hélt hér nú. Hann virtist vera svona heldur ergilegur og óvenjulega æstur í ræðu sinni. En málefnislega séð er það ákaflega lítið, sem þarf að svara. Það var í fyrsta lagi, að hæstv. fjmrh. spurði hvers vegna Sósfl. hefði ekki brugðið við það, að fjárl. skyldu fara nú upp í 200 millj. kr., fyrst honum yrði svona bilt við þessa tollhækkun. Við höfum aldrei haldið því fram, að fjárhagur okkar væri þannig kominn, að engin leið væri að láta tekjur og gjöld fjárl. standast á. En við erum þeirrar skoðunar, að við höfum ekki efni á því að hafa fjárl. eins og gengið er frá þeim. Það er ekki ágreiningur um það, og það er því óþarfi fyrir hæstv. ráðh. að vera með slíkar spurningar. Við erum reiðubúnir til þess, ef þess væri einhver kostur að ná um það þingmeirihluta, að leggja fram till. um fjáröflun til þess að standast þessi útgjöld.

Það er alveg rangt hjá hæstv. fjmrh., að við sósíalistar gerum aðeins kröfur um útgjöld. en séum ekki með neinum ráðum til þess að afla tekna. Á meðan við vorum í ríkisstj., stóð aldrei á því. Og það tókst þá að koma fjárl. saman þannig, að áætlaðar tekjur og gjöld stóðust á. Í þeim samningi, sem fór fram um stjórnarmyndun í vetur, þá var það ekki það ágreiningsefni, sem strandaði á, og var í því sambandi rætt um ýmislegt af þeim till., sem við lögðum fram, eins og hv. þm. þekkja. Og ef samkomulag hefði getað orðið um aðra hluti, geri ég ráð fyrir, að samkomulag hefði orðið um eitthvað af þeim.

Í tilefni af þessu frv., sem hér liggur fyrir, vil ég spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvernig á því standi, að öðru stjórnarfrv., sem er um innkaupastofnun ríkisins, skuli ekki liggja neitt á, úr því að tollafrv. liggur svona mikið á. Ef þetta frv. væri lagt fram áður, en þetta tollafrv. er samþ., er ekki að vita nema hægt væri að finna leiðir í sambandi við það frv. til þess að afla ríkissjóði tekna, — það er að segja, ef nokkur alvara er hjá hæstv. ríkisstj. að koma sér saman um nokkuð annað. Hæstv. fjmrh. ætti ekki, jafnrólegur maður og hann annars er, að vera að belgja sig svona upp út af því, að við sósíalistar værum á móti öllum till. um tekjuöflun fyrir ríkissjóð, slíkt eru ekki annað, en persónulegar fullyrðingar. Hvenær hefur það komið fyrir, að við sósíalistar höfum lagt fram fyrir kjósendur annað en það, sem við höfum staðið við? Komið þið bara með dæmi. Hvenær höfum við gengið á móti stefnuskrá okkar, sem við höfum lagt fram við kosningar? Komið þið með eitt einasta dæmi. Við höfum verið á móti hækkun á tollum á nauðsynjavörum fyrir kosningar. (GÍG: Hvar eru frv.?). Það hafa komið fram frv. og það koma frv. (Forsrh.: Það komu ekki frv. á meðan sósíalistar voru í ríkisstj.). Sósíalistum gekk betur að koma fjárl. saman, en þessari hæstv. ríkisstj. Og ég skal geta þess, að Sósfl. var til viðtals um að breyta tollskránni og hækka toll á sumum vörum samtímis því, sem lækkaðir væru tollar á nauðsynjavörum, og Sósfl. hefur einnig haldið því fram, að það ætti að endurskoða tollskrána til þess að lækka tollana á nauðsynjavörum og að það væri eitt af þeim ráðum, sem kæmi til greina til lækkunar á vísitölunni. En það eru líka aðrir flokkar, sem hafa haldið fram, að lækka bæri tolla á nauðsynjavörum — og það er ekki lengra, en nokkrir mánuðir síðan — og að hækka bæri stighækkandi toll á stórtekjugróðanum. Það eru sömu flokkarnir, sem nú eru hér á ferðinni með till. um meiri hækkun á nauðsynjavörum, en nokkurn tíma hefur komið fram áður. Ef þetta er ekki fals og blekkingar og bara til þess að sýnast, þá veit ég ekki, hvað það er. Og það situr sízt á þeim mönnum, sem þannig fara að, að vera með fals og blekkingar. Hvað getur fals og blekkingar gengið langt? Þetta snertir líka sjálfstæðismenn. Morgunblaðið sagði, að þessi aðferð ríkisstj. stappaði nærri brjálæði. En hvers vegna er Morgunblaðið að skrifa á þennan hátt? Vegna þess að blaðið veit, að þetta er óvinsælt mál. (Fjmrh.: Það var í sambandi við afgreiðslu fjárl.). Það var um málið í heild sinni. Ef hv. þm. vill verða sendisveinn fyrir mig og ná í blaðið, skal ég lesa part úr gr. upp. Þetta er gert til þess að hampa því framan í ófróðan almenning, að Morgunblaðið og sá flokkur. sem að því stendur, sé ekki fylgjandi þessum háu tollum, enda þótt till. um slíkt sé borin fram af hæstv. fjmrh. og fylgt fram af svo miklu offorsi, að ég veit, að þm. eru óánægðir með það. (Dómsmrh.: Hverjir eru það?) Ég skal hvísla því að hæstv. ráðh. á eftir. (Dómsmrh.: Ég vil ekkert baktjaldamakk).

Ég er hissa á því, ef hann vill ekkert baktjaldamakk, eins og við höfum makkað mikið saman. En þm. í Nd. lýstu yfir því, að þeir væru óánægðir. (Dómsmrh.: Hverjir lýstu yfir því?). T.d. hv. þm. N-Ísf. og hv. 5. þm. Reykv. (SK). En það mun vera hægt að fræða hæstv. ráðh. um það seinna. En þarna eru komnir 2 þm., sem lýst hafa yfir þessu. Annars þarf hæstv. ráðh. ekki að vera svona æstur, það er bezt fyrir hann að halda sér á mottunni, eins og hann hefur gert hingað til. Ég veit, að þetta er þung stund fyrir þennan flokk, og það sér hæstv. ráðh., sem ber slíkt mál fram, sem er þannig vaxið, að flokksblaðið treystir sér ekki til þess að mæla neitt með því og gengur svo langt í dómum sínum um það, að það segir, að það gangi brjálæði næst að koma með svona frv. Ég get vel skilið, að hæstv. ráðh. sé ekki í góðu skapi, en ég vil samt ráðleggja honum að reyna að stilla skap sitt, því að honum veitir ekki af því.

Þá sagði hæstv. fjmrh., að ég hefði ekki verið að því að bera slík mál undir félagssamtökin í landinu á meðan ég hefði verið í ríkisstj. Mér hefur ekki verið borið slíkt á brýn, fyrr en nú. heldur alveg það gagnstæða. En það kann vel að vera, að ég hafi ekki gert nóg að því, en hitt hefur verið sagt, að ég hafi ráðgazt of mikið við félagsstarfsemi utan þings. Og er þetta því í fyrsta skipti, sem ég er sakaður um það, að ég hafi ekki gert það. — Í sambandi við þetta sagði hæstv. fjmrh., að það hefði ekki borið saman það, sem ég hefði sagt og flokksbræður mínir í hv. Nd. Það er rétt, sem flokksbróðir minn í Nd. sagði. að það kvisaðist út meðal almennings, - og það fyrir löngu síðan, — að það ætti að leggja fram frv. um mjög miklar tollahækkanir, og nú vil ég fyrir mitt leyti ekkert fullyrða um það, hvernig á því stendur, að þetta kvisast svona út. Hv. þm. álitur, að það hafi verið gert vitandi vits. Það er rétt, — hvernig sem á því stendur, að þessar fregnir voru manna á meðal. - að slíkt frv. væri á leiðinni. en hvernig þessi frv. mundu verða, fékk enginn af forustumönnum verkalýðsfélaganna að vita um, né heldur enginn af stjórnarandstöðunni. Og mér hefur verið sagt, að því hafi verið lýst yfir af þm. annarra flokka. Ef það var svo, að það var vitað meðal almennings, að frv. ætti að leggja fram um tollhækkanir, hvaða ástæða var þá að fara með svo mikilli leynd með þetta gagnvart verkalýðssamtökunum, eins og hv. samflþm. minn hefur haldið fram?

Þá vildi hæstv. fjmrh. halda því fram, að ein ástæðan fyrir samstarfsrofinu í ríkisstj. hefði verið samningurinn við Bandaríkin um flugvöllinn. Það er rétt, að höfuðástæðan var Keflavíkursamningurinn, sem hæstv. ráðh. var svo elskulegur að kalla, að það hefði verið þjónusta við erlent stórveldi. Það er náttúrlega ekki ástæða til þess að verða hissa á því, þó að slík slagorð séu notuð í blaði flokks hæstv. fjmrh., en hitt finnst mér undarlegra og varla samboðið hæstv. ráðh., að nota slík slagorð sem þessi. Við erum sammála um, að höfuðdeilumálið var þessi samningur. En þó að hann hefði ekki komið til, þá hefði ekki stjórnarsamvinna getað orðið, nema samningar hefðu getað orðið um fleiri mál. Sósfl. lýsti yfir því við kosningar, að hann vildi halda áfram samvinnu í ríkisstj., ef samkomulag tækist um herstöðvamálið og enn fremur, að nýjar ráðstafanir yrðu gerðar að því er snertir nýsköpun, og loks ráðstafanir í dýrtíðarmálunum. Og eftir kosningar vildi flokkurinn gera slíkan nýjan málefnasamning, og var því ekki neitað af Sjálfstfl. En þegar til samninga kom og stjórnarsamvinnan hafði klofnað með flugvallarsamningnum og eftir að farið var að semja aftur, kom í ljós, að ekki var samstarfsgrundvöllur fyrir hendi. Þess vegna slitnaði upp úr stjórnarsamvinnunni, eins og hæstv. ráðh. veit og allir hv. þm.

Till. Sósfl. eru öllum almenningi kunnar, því að þær hafa verið birtar. Þær voru lagðar fram í 12 manna n. sem grundvöllur, sem hann vildi byggja samkomulagsumleitanirnar á.

Þá sagði hæstv. ráðh., að útreikningur minn, hvaða tekjumissir þetta væri fyrir almenning í landinu, væri dálítið hæpinn. Hann neitaði því þó ekki, að hann væri réttur. Það mætti spyrja á móti, hvaða tekjurýrnun það væri fyrir almenning, ef vísitalan hækkaði samhliða. Út af fyrir sig er ekki hægt að tala um tekjurýrnun vegna hækkunar vísitölunnar, heldur vegna almennrar verðhækkunar í landinu. Og tekjurýrnun. sem orsakast af verðhækkun, verður þrátt fyrir þessar ráðstafanir, en verður aðeins enn þá meiri vegna þessara ráðstafana ríkisstj.

Hitt svar hæstv. ráðh. er svo ekki deilumál, að það þurfi að stöðva verðhækkunina í landinu. Það er það, sem allir flokkar eru að glíma við. Og söm er afstaða útvegsmanna í því efni. Útvegsmenn hafa hag af því, ef vísitalan og verðhækkunin er í raun og veru stöðvuð. En ekki er hægt að skilja, hvernig þessi aðferð geti orðið til hagsbóta fyrir þá, þar sem vitað er, að vörur þær, er þeir þurfa að kaupa, stórhækka í verði. Dálítið verður greitt niður af þessum vörum, en þær vörur, sem varða mestu fyrir hann, hækka óeðlilega í verði, til þess að greiða niður aðrar vörur. Sannleikurinn er sá, að þessar ráðstafanir er ekki hægt að ræða sem venjulegar fjáröflunarleiðir. Þetta eru dýrtíðarráðstafanir. Þessa fjár er aflað með þessum tollum til þess að ná inn því fé, sem nauðsynlegt er til þess að greiða niður vísitöluna samkv. áætlun ríkisstj. Ef þessi niðurgreiðsluupphæð væri ekki í fjárl., þyrfti ekki á þessari tekjuöflun að halda.