02.05.1947
Efri deild: 124. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (3899)

143. mál, kvikmyndastofnun ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Menntmn. þessarar d. hefur rætt þetta mál á nokkrum fundum frá ýmsum hliðum og kynnt sér það ýtarlega. Ég hygg, að ég megi fullyrða, að n. sé öll sammála um, að það þurfi að bæta kvikmyndasýningar hér á landi, svo að að þeim yrði meiri menningarauki en nú er, því að segja má, að að sumum kvikmyndum sé alls enginn menningarauki, heldur þvert á móti séu þær til tjóns í menningarlífi þjóðarinnar. T.d. hefur þess verið getið í blöðum bæjarins, að litlir drengir hafi haft í frammi hættulega leiki, sem að miklu eða öllu leyti má kenna kvikmyndasýningum, sem þeir hafa horft á. Það er því auðsætt, að af þessum myndum er enginn menningarauki, og þess vegna hygg ég, að það sé ekki aðeins vilji menntmn. þessarar d., heldur vilji allra landsmanna, að þessar kvikmyndasýningar verði algerlega bannaðar.

Hins vegar eru skoðanir nm. skiptar um það, hvernig ríkisvaldið fái bætt þetta, og hefði átt að afgr. till. um þetta efni frá n., þá er engan veginn víst, að hún hefði orðið sammála um þær meginaðferðir, sem hér er um að ræða.

Það má segja, að hér séu tvær meginaðferðir, annars vegar að hafa einkarekstur, eins og nú á sér stað, undir ströngu eftirliti þeirra, sem til þess væru settir af ríkisvaldsins hálfu, og hins vegar, að hafður verði opinber rekstur á þessu, annaðhvort ríkisrekstur, eins og frv. ætlast til, eða bæjar- og sveitarfélagarekstur, kannske samfara ríkisrekstri. Þessar aðferðir, annaðhvort strangt eftirlit ríkisins með einkarekstri eða opinber rekstur, eru leiðir, sem bent hefur verið á.

En það, sem kallast má meginatriði, kom aldrei til atkv. í n., því að flestir nm. litu svo á, að málið væri ekki nægilega undirbúið og mundi ekki vinnast nægur tími til þess að afgreiða það á þessu þingi með því, að n. hefði farið að athuga frv. í því skyni að koma fram með brtt. við það og þar á eftir að koma því í gegnum þingið. Ýmsir nm., og þar á meðal ég, telja, að það þurfi að liggja fyrir kostnaðaráætlun um stofnkostnað þessarar stofnunar, áður en frv. væri samþ., og vitanlega gæti þingn. ekki gert þá áætlun, heldur þyrfti ríkisstj. að láta gera hana. Þess vegna — þó að skoðanir nm. kunni að vera skiptar um kjarna málsins eru allir sammála um að vísa málinu til ríkisstj. til frekari undirbúnings. Að vísu hefur hv. flm., sem á sæti í n., fyrirvara um þetta. Af þeim ástæðum, sem ég hef greint, leggur n. til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, sem fylgir nál. menntmn. á þskj. 730, þar sem einmitt segir svo í hinni rökst. dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Í því trausti, að ríkisstjórnin taki til rækilegrar athugunar, á hvern hátt menningarleg not þjóðarheildarinnar af kvikmyndasýningum verði sem bezt tryggð og að ríkisstj. hraði þeirri athugun, svo sem verða má, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég hygg, að ég hafi ekki frekar að segja um þetta mál fyrir hönd n., en leyfi mér að óska eftir því, að hv. menntmrh. yrði viðstaddur umr. um þetta mál, til þess að n. geti gengið úr skugga um það — ef dagskrártill. verður samþ. —, á hvern hátt hæstv. ríkisstj. ætlar sér að snúast við henni.