02.05.1947
Efri deild: 124. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (3914)

143. mál, kvikmyndastofnun ríkisins

Eiríkur Einarsson:

Það er skrifl. brtt. frá hv. 6. landsk., sem gefur mér tilefni til að segja hér skoðun mína. Ég held, að til þess að þessu máli sem menningarmáli sé sýnd full alúð, þá megi ekki sleppa af neinu því, sem tryggir það, að því verði sinnt, án tillits til þess, hvaða rekstraraðferð eigi að viðhafa. Þar sýnist sitt hverjum, og mun valda ágreiningi Alþ. Hitt ætti að vera hægt að afgreiða án ágreinings, að mál sem þetta þyrfti umbóta við í ýmsum menningaratriðum. Til þess að koma þessu máli til hreyfings í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. sinni því á líkan hátt og vonir standa til samkv. dagskrártill. og yfirlýsingu hæstv. ráðh., þá þarf að forðast allar sérkreddur í sambandi við rekstrarfyrirkomulagið. Í sambandi við það vildi ég koma með nokkurs konar miðlunartill. milli brtt. hv. 6. landsk. og dagskrártill. Í brtt. hv. 6. landsk. stendur, að undirbúa skuli löggjöf um kvikmyndastofnun ríkisins, en ég vil leggja til, að í stað orðanna „um kvikmyndastofnun ríkisins“ komi: um kvikmyndastarfsemi á Íslandi. —- Með þessu móti er málið falið hlutlaust í hendur ríkisstj., og þurfa þá engir að bítast út af því skoðanalega. Og getur þá ríkisstj. unnið að alhliða umbótum á þessu mikilvæga máli. Síðar kemur svo til annarra kasta um það að velja rekstrarfyrirkomulag og miða frv. við það. En ef það er ákveðið nú á byrjunarstigi, þá mundi það aðeins verða málinu til trafala. Til þess að forðast slíkt ber ég fram þessa brtt., og leyfi ég mér að afhenda hana hæstv. forseta.