02.12.1946
Efri deild: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (3925)

91. mál, fiskiðjuver á Ísafirði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég hafði ekki ætlað mér að ræða um þetta mál hér, þar sem það fer til n., sem ég á sæti í, en hv. frsm. gaf mér tilefni til að spyrja um það, hvað hann meini með því að segja, að hér séu lagðir vegspottar út um allt land, sem fáum komi að gagni. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að blanda því viðkvæma máli, vegagerðum, inn í þetta mál. En mér er ekki kunnugt um það, hvar þeir vegarspottar eru. Ég held, að baráttan um vegaframkvæmdir í landinu sé sprottin af eðlilegum þörfum þeirra, sem búa á útkjálkunum, og ég viðurkenni ekki, að þeir hafi fengið bróðurpartinn af framlögunum. Vil ég í sambandi við það benda á það, að sú regla var tekin upp hér illu heilli að verja stórkostlegu fé til vegaframkvæmda þar á landinu, sem vegirnir eru beztir. Þar hafa sums staðar verið brotnir upp vegir, sem geta flutt 6 tonn, til þess að geta látið þá bera 10 tonn, meðan ekki er séð fyrir þessum vegaspottum úti á landinu, þar sem fólkið er enn að berjast við að draga fram lífið, sem gæti þó orðið til þess að forða því frá að dragast inn í þann straum, sem ekki þykir heppilegur, að allt fólk utan af landinu flytji til Reykjavíkur. Ég vildi aðeins l.áta þetta koma fram, að það er ómaklegt í sambandi við þetta mál að halda því fram, að það sé veitt mikið fé í ónauðsynlegar vegagerðir í landinu.