02.12.1946
Efri deild: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (3928)

91. mál, fiskiðjuver á Ísafirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta átti nú að vísu ekki að vera umr. um vegamál, þó það hafi snúizt upp í það. En í tilefni af því vildi ég segja það, að það byggist á ókunnugleika hjá hv. þm. Barð., að hann andmælir þessu atriði, sem Kjartan Jóhannsson vék að í framsöguræðu sinni. Við Ísfirðingar höfum þess dæmi, að byrjað var fyrir 10 árum á vegarspotta í miðri hlíð, en vegurinn var ekki tengdur fyrr en á 9. ári. Að verða að búa við þetta skipulagsleysi, er ekki mennskum mönnum fært að skilja, á hverju byggist, en þetta er samt staðreynd. Hitt er alveg rétt hjá hv. þm. Barð., að þeir eru of fáir og stuttir vegspottarnir, a.m.k. á Vestf jörðum, ef vonirnar ættu að aukast um það þar, að héruðin verði áfram í byggð. Eitt dæmi nægir að nefna fyrir Vestfirði. Af 9 hreppum í Norður-Ísaf jarðarsýslu eru 6, þar sem ekki er til akvegarspotti enn, 1946. Í 3 hreppum er til akvegarspotti, en í 6 enginn, svo að þessir vegspottar á Vestfjörðum eru of fáir, og það að endurbæta sífellt góða akvegakerfið í öðrum landsfjórðungum, áður en gerð eru frumdrög að vegakerfi, t.d. á Vestfjörðum, það er ekki nema eðlilegt, að það komi við taugarnar á hv. þm. Barð. og okkur öðrum þm. af þessum afskekkta kjálka. En málið, sem hér er til umr., er að einu leyti sama eðlis eins og þetta: Ef það er meiningin að halda byggð, t.d. á Vestfjörðum, þá verður ekki hjá því komizt að greiða þar fyrir undirstöðuatvinnuveginum og reyna að búa svo um hnútana, að undirstöðuatvinnuvegurinn, sem þar er sjávarútvegur, verði sem bezt sjálfbjarga. Ríkið hefur lagt gífurlegt fjármagn í stóriðju og iðnað í sambandi við sjávarútgerð á Siglufirði. Auk þess,. að þar er talinn lengstur og beztur veiðitími fyrir þann sjávarútveg, er Siglufjörður bezt valinn sem miðstöð tengd við síldveiðarnar. Við flm. þessa frv, teljum Ísafjörð hafa svipaða sérstöðu og möguleika fyrir fiskiðnað í sambandi við þorskveiðar eins og Siglufjörður er talinn hafa í sambandi við síldveiðarnar. Að vísu mætti tilnefna aðra staði, sem þarna kæmu til greina, en þeir staðir eru ekki margir að öllu samantöldu, sem hafa svipaða aðstöðu um þetta eins og Ísafjörður.

Hv. 10. landsk. þm. gerði grein fyrir öllum meginatriðum, sem ástæða er til að taka fram í sambandi við þetta mál við 1. umr.

Það er alkunna, að Ísafjarðarbær hefur betri aðstöðu til góðrar sjósóknar og til að afla á hverjum tíma ársins glænýs fisks, — sem er auðvitað betur fallinn til þess, að unnið sé úr þeim afla fyrsta flokks iðnaðarvara heldur en hægt er að tryggja annars staðar. Hafnarskilyrði á Ísafirði eru hin beztu, og er ekki þörf fyrir ríkið að leggja stórfé til þeirra hluta, því Ísafjarðarpollur er ein bezta höfn landsins. Þar er ein bezta bátahöfn landsins, og veitir hún flotanum meira öryggi, heldur en nokkur önnur höfn á landinu. Þar hefur varla skemmzt bátur í tvo áratugi, síðan bátahöfnin var byggð, á hverju sem hefur gengið. Á Ísafirði er nýr 200 metra langur hafnarbakki, og yrði fiskiðjuverið vel sett fyrir ofan hann. Fiskurinn yrði fluttur óunninn úr skipunum á flutningaböndum upp á vinnslustöðina og þaðan aftur á sama hátt um borð í skip sem fullunnin vara, og þannig þarf að búa um hnútana, að vinnslukostnaðurinn verði sem allra minnstur og véltæknin notuð sem mest. Undanfarin 2–3 ár hafa færustu sérfræðingar okkar í þessum efnum, dr. Þórður Þorbjarnarson og aðrir, fjallað um þetta mál. Áætlanir hafa þegar verið gerðar og uppdrættir að þessu fyrirtæki, og það sem stendur í vegi fyrir því, að Ísafjarðarkaupstaður ráðist þegar í framkvæmdir, er einungis skortur á fjármagni, og þarf því að leita aðstoðar ríkisins, hvort sem hún yrði í té látin í formi ábyrgðar eða iðjuverið reist sem ríkisverksmiðja, sem ekki væri óeðlilegt, heldur sambærilegt við afstöðu ríkisins gagnvart síldarútveginum. Í þessu frv. eru annars ákvæði um það, að útgerðin á Ísafirði hafi möguleika til að eignast þetta fiskiðjuver, ef henni reynist það annars kleift, ástæða þykir til og Ísfirðingar vilja. Ég vil svo vænta þess og treysta því, þar sem hér er um að ræða stórátak til að tryggja sjávarútveginn í stærsta bæ Vestfjarða, sem jafnframt er hagsmunamál fyrir allt þjóðarbúið, að mál þetta hljóti vinsamlega og gaumgæfilega meðferð í hv. sjútvn. og þessari hv. d.