08.05.1947
Efri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (3934)

91. mál, fiskiðjuver á Ísafirði

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. — Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari er bundinn við orðalagið, þar sem hin rökst. dagskrá felur í sér, að athugun sé látin fara fram á því, hvaða tegundir fiskiðjuvera séu reistar og á hvaða stöðum, og einnig, hvort ríkið veiti frekari stuðning. Eins og hv. frsm. sagði, þá er það mín skoðun, að ríkið eigi að láta þessi mál sérstaklega til sín taka og reisa stór fiskiðjuver. Ég mun ekki ræða það mikið hér, en þrátt fyrir að þetta sé mín skoðun, þá sá ég ekki ástæðu til að kljúfa n. út af þessu frv., því að ég álít, að það sé ekki rétt að byrja á því að setja sérstök l. fyrir hvern stað, heldur sé gert heildarskipulag, eins og gert er ráð fyrir í frv., sem liggur fyrir Nd., og þess vegna er ekki ástæða til að samþykkja frv. um fiskiðjuver á Ísafirði og í Hornafirði og það því síður, þar sem báðir þessir staðir eru tilgreindir í frv. í Nd. Ef það frv. fengi pósitíva afgreiðslu þessa þings, þá er séð fyrir þeim stöðum, sem sérfrv. hafa verið lögð fram um. Ég skal ekki spá neinu um afdrif þess frv., en vænti, að það verði samþ. í Nd. og komi svo hér í þessa d., og mun ég geyma að rekja það mál, þar til það kemur hingað. En skoðun mín er sú, að reisa eigi fiskiðjuver, og koma þá báðir þessir staðir til greina.