12.04.1947
Efri deild: 115. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði, þá klofnaði fjhn. á þann veg, sem allir vissu nú fyrir fram, að ég er þar einn í minni hl. og legg til, að frv. verði fellt. Hins vegar eru í meiri hl. allir hinir meðlimir fjhn., sem leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Þetta var þegar ljóst af umr., sem þegar hafa farið fram um málið.

Ég hef skilað nál., sem er mjög stutt. Það var ekki mikill tími til þess að útbúa nál. En ég taldi réttara, að nál. kæmi samt fram, þótt ekkert nál. hefði komið frá meiri hl. n., og að það yrði þá vélritað og lesið upp hér, þar sem ekki eru möguleikar í dag á því að fá prentað nál.

Ég hef áður, bæði við umr. um þetta frv. og í umr., sem fram hafa farið um önnur tollafrv. frá hæstv. ríkisstj., fært rök að því, hvers vegna ég er á móti þessum frv. Ég þarf þess vegna ekki að fara um það frekari orðum. Það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl. fjhn., að höfuðstefna frv. er þegar orðin mjög rædd. Hins vegar hef ég freistað þess að bera fram brtt. við frv. um að undanskilja nokkrar neyzluvörur þeim tolli, sem á er lagður samkv. þessu frv., ef að l. verður. Þessar brtt. hafa áður verið bornar fram í hv. Nd. og voru felldar þar allar. Meðal þeirra vara, sem hér er lagt til, að tollur verði felldur niður af, eru vörur, sem eru nauðsynlegar fyrir framleiðslu landsmanna, undirstöðuatvinnuvegi landsmanna, vörur til útgerðar, svo sem tunnuefni tilsniðið og siglugjarðir, kassar til umbúða, botnrúllur, botnvörpuhlerar, hjólklafar og svo efni í veiðarfæri, o.s.frv. Þá er enn fremur lagt til, að undanþegnar verði tollinum ýmsar vörur, sem sérstaka þýðingu hafa fyrir landbúnað, svo sem skepnufóður, áburður og landbúnaðarvélar og áhöld. Að því er útveginn snertir, er lagt til, að skip og bátar verði undanþegin þessum tolli. Enn fremur koma til greina ýmsar vörur fyrir aðra atvinnuvegi, svo sem vélar til iðnaðar og framleiðslu úr innlendum hráefnum, borvélar, lóðhamrar, logsuðu- og logskurðartæki og vörubifreiðar. Þá eru byggingarefni og vörur, sem nauðsynlegar eru fyrir byggingariðnaðinn, sement fyrst og fremst og svo vélar til bygginga og mannvirkjagerðar. Enn fremur er lagt til, að túrbínur verði allar undanskildar tolli og trjáviður. óunninn eða sagaður. Þá er lagt til að undanskilja ýmsar matvörur, sem hafa mikla þýðingu fyrir neyzlu landsmanna, svo sem grænmeti, nýtt og þurrkað, ávexti til neyzlu, nýja og þurrkaða, mjöl úr baunum, ertum, o.s.frv., kartöflumjöl, klið, feiti og feitar olíur úr jurtaríkinu, mjöl og sterkju tilreitt sem fæðu fyrir börn og sjúka, o.s.frv., svo og vefnaðarvörur úr baðmull og ofnar vörur úr hör og hampi, svo og hör, hamp, júta og önnur spunaefni og garn.

Mér er í raun og veru alveg gersamlega óskiljanleg sú stefna, sem kemur fram hjá hæstv. ríkisstj., eftir allar umr., sem farið hafa fram, að sækja fast svo gífurlegar tollhækkanir á nauðsynjavörum, sem allir vita, að ekki er hægt að komast af án og verður til þess að auka mjög bæði framfærslukostnað manna og svo framleiðslukostnað þeirra atvinnuvega, sem hlut eiga að máli. Ef þetta frv. er borið fram til þess að aðstoða atvinnuvegina, þá er þetta með öllu óskiljanlegt, hvers vegna verið er að leggja þannig nýjar álögur einmitt á þá atvinnuvegi, sem framleiða útflutningsvörur og aðrar nauðsynjavörur. Á því hefur engin skýring komið fram af hálfu forsvarsmanna frv. Ég vil þess vegna enn freista þess að fá úr því skorið, hvort allir hv. stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. eru svo bundnir á höndum og fótum, að þeir vilji halda fast við þetta, sem ég nefni vitleysu, eins og Morgunblaðið, og mun ég því greiða atkv. gegn þessum till. í frv. Og þrátt fyrir þá undarlegu reynslu, sem hefur orðið í hv. Nd., vil ég samt sem áður enn freista þess að fá fram breyt. á frv.

Ég ætlaði áðan, við 1. umr. málsins, að svara aðeins nokkrum orðum ræðu hæstv. utanrrh. Ég þarf nú ekki mörg orð til þess að svara þeirri ræðu, ef ræðu skyldi kalla, sem hann hélt þá hér. En áður en mig varði, sleit hæstv. forseti fundinum, þannig að mér gafst ekki kostur á því, og það sakar náttúrlega ekki, og var ekki brýn nauðsyn að svara því. Hæstv. utanrrh. var að vonum mjög úrillur, vegna þess að flokksbræður hans hafa í Morgunblaðinu talið, að stefna ríkisstj. gangi brjálæði næst. Og hann var að reyna að breiða yfir þetta með alls konar lögskýringum, en tókst það náttúrlega ekki. Það stendur hér í Morgunblaðinu, sem ég hef hér fyrir framan mig, þar sem blaðið ræðir hallann á fjárl. og stórauknar nýjar álögur, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Í slíkri baráttu tjáir litið að hækka tollana, þótt Hermannsnefndin (þ.e. hagfræðingarnir) sæju það úrræði helzt. Morgunblaðið telur fyrir sitt leyti, að hér sé stefnt út á svo háskalega braut, að nálgist fullkomið brjálæði.“ — Þetta er náttúrlega svo ljóst sem verða má. Það er öll fjármálastefna ríkisstj., sem hér er kölluð svo hættuleg braut, að hún nálgist brjálæði. En Morgunblaðið vill fara það, sem hæstv. utanrrh. einnig kallar skynsamlegar leiðir, en hann telur ekki fært að fara. En stefna Morgunblaðsins er greinileg, svo framarlega sem með þessu er nokkuð meint. Svona orðalag í Morgunblaðinu er komið til af því, að það er verið að slá þessu fram vegna fólksins, sem að vonum er óánægt með þessar nýju tollaálögur, á sama tíma sem flokkurinn stendur svo fast á því að fylgja ríkisstj. í þessum tollálögum, að flokksmennirnir eru bundnir á höndum og fótum.

Svo er það viðreisnin. Það verður ekki annað skilið, en að Morgunblaðið sé á móti viðreisnarstefnu stjórnarinnar.

Þá sagði hæstv. ráðh. (BBen) ýmsa undarlega hluti í ræðu sinni. T.d., að ráðh. Sósfl. hefðu ekki fengizt til að mæta innan stj. til þess að ræða vandamálin. Þetta er bara hreinn uppspuni, hreinn og klár uppspuni frá honum. Það hefur aldrei staðið á sósíalistum að mæta í stj. Þvert á móti stefndi hann að því að finna nýja lausn á málunum. En svo var það, að þegar ekkert samkomulag náðist í utanríkismálunum, taldi Sósfl. grundvöllinn fyrir samstarfinu fallinn, en eins og ég tók fram, var Sósfl. jafnvel þá reiðubúinn að ræða vandamálin. Hér hefur því hæstv. ráðh. borið fram hreinan og kláran uppspuna.

Þá segir ráðh., að flokkurinn hafi viljað fallast á málefnasamning, sem í höfuðatriðum væri sá sami og samningur núverandi stj. Hreinn og klár uppspuni. Hann deilir á flokkinn fyrir það, að hann vildi hafa áhrif á stjórn Landsbankans og að hann hafi ekki fylgt þeirri stefnu, sem Landsbankinn fylgir, og segir svo, að flokkurinn hafi gert svo miklar kröfur, að ekki hafi verið hægt að verða við þeim. Þetta segir hann í sömu andránni og hann segir, að flokkurinn hafi viljað allt til vinna að sitja í stjórn.

Svo voru ýmsar fullyrðingar, sem ég ætla ekki að hafa eftir og ekki að minnast á, því að ég get ekki verið að leggja mig niður við að skattyrðast við hæstv. ráðh., sem virðist hafa sérstaka þörf fyrir að ausa úr sér fúkyrðum.