19.05.1947
Neðri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (3946)

62. mál, kirkjubyggingar

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt á öndverðu þingi og hefur verið rætt á ýmsum fundum menntmn. Efni þess var í stuttu máli það að greiða eftir föngum fyrir byggingu kirkna, en það er vitað mál, að margir söfnuðir þessa lands, fámennir og fátækir, hafa engin ráð til þess að endurreisa eða byggja kirkjuhús nema með aðstoð ríkisins. Það mál hefur verið til umr. á undanförnum prestastefnum, kirkjufundum, héraðsfundum og safnaðarfundum, og niðurstaðan af þeim umr. er eiginlega þetta frv., sem fer fram á, að ríkissjóður greiði 1/4 hluta kostnaðar við byggingu kirkjuhúsa og á nokkurra ára bili skuli að því stefnt að endurbyggja þær eldri kirkjur, þar sem þess er þörf. — N. ræddi þetta mál með bæði fyrrv. og núv. kirkjumrh. og einnig með biskupinum yfir Íslandi, og lét hann n. í té ýtarlega umsögn um málið, sem prentuð er með nál. sem fskj.

N. tókst ekki að ná samkomulagi um að mæla með þessu frv. Hins vegar var n. sammála um að æskja þess, að ríkisstj. tæki það til næsta þings til rækilegrar athugunar, á hvern veg ríkisvaldið gæti greitt fyrir kirkjubyggingum, og varð samkomulag um það í n. að afgreiða frv. að þessu sinni með svofelldri rökst. dagskrá:

Í trausti þess, að ríkisstj. taki til rækilegrar athugunar, á hvern hátt kirkjubyggingar þjóðkirkjunnar geti orðið aðnjótandi öruggrar fjárhagsaðstoðar ríkisvaldsins, og leggi niðurstöður sínar fyrir næsta reglulegt Alþ., þykir d. rétt að taka ekki að þessu sinni fullnaðarákvörðun um málið og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Ég vil svo að lokum taka fram, að ég tel sjálfsagt, að ríkisstj. taki á þessu með fullum skilningi. Enda er það svo, að samkv. okkar stjskr. hefur ríkisvaldið tekið á sig þá skyldu að styðja og vernda þjóðkirkjuna, en vitanlega er það einn þátturinn í því starfi að gera kirkjunni kleift að koma upp kirkjuhúsum.