12.02.1947
Neðri deild: 72. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (3951)

162. mál, húsaleiga

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem við hv. 2. þm. Eyf. flytjum hér nú, er samhljóða frv., sem víð fluttum á Alþ. í fyrra. Um afgreiðslu þess frv. er það að segja, að allshn. var ósammála um það. Tveir nm. lögðu til, að frv. yrði samþ. óbreytt, einn vildi breyt. á l., en tveir vildu vísa frv. frá með rökst. dagskrá, og þessi eini vildi þó bíða að koma með brtt., unz séð yrði, hvaða örlög rökst. dagskráin fengi. En örlög málsins urðu samt þau, að það dagaði uppi og varð ekki vísað frá, og er því ekki hægt að vita um vilja Alþ. í þessu máli. Það hafa verið til umr. 3 till. um þessi mál, og allir, sem töluðu við umr. þeirra, voru sammála um, að ástandið í þessum málum væri orðið óviðunandi, og allir greiddu atkv. með því, að eitthvað yrði gert. Af þessu mætti ráða það, að jafnhógvært frv. og þetta er fengi byr á þingi nú. Ég vil nú rifja upp það, sem haft var á móti frv. í fyrra, en það kemur fram í rökst. dagskránni, en þar segir, að „Alþingi það, er nú situr, hefur með þál, falið ríkisstj. að láta tafarlaust fara fram rannsókn á áhrifum húsaleigulaganna, framkvæma endurskoðun á þeim, og leggja niðurstöðurnar fyrir næsta reglulegt Alþ.“ Þetta eru ástæðurnar, og af þessum ástæðum telja þeir, að frv. sé óþarft, en að hið fyrsta þurfi að fara fram rannsókn á þessum l., um það eru allir sammála, og að svo búið megi ekki standa.

Við umr. um þetta mál í fyrra kom í ljós ótti við, að þetta mundi skapa glundroða. Húsaleigun. áleit, og það virðist vera skoðun allmargra þm., að við þetta mundu margir menn lenda á götunni. Nú eru engin rök fyrir þessu færð, og mér er ekki skiljanlegt, hvernig þetta má verða. Þvert á móti eru færð fyrir því rök af ýmsum, að hér sé verulega mikið af húsnæði ónotað, en ég hef ekki getað sannprófað það, en ef þetta er svo, stafar það vitanlega af því, að menn hafa ekki þorað að hleypa fólki inn í það.

Það hafa verið færð fyrir því rök, að húsaleigul. væru sett sem styrjaldarráðstöfun og sé því óeðlilegt að breyta ekki um nú. Þessi ráðstöfun var neyðarúrræði, og hún gekk mjög freklega á rétt manna til að ráða eignum sínum. Af l. hafa skapazt ýmiss konar óþægindi. Það hefur skapazt tvenns konar húsaleiga, önnur, sem er svo há, að telja má hana fullkomið óréttlæti, og svo önnur svo lág, að telja verður húsin verðlaus, sem verður að telja mjög illt. Önnur óþægindi, sem leitt hefur af þessum ráðstöfunum af því, hve lengi þær hafa staðið, er ill sambúð milli eigenda og leigjenda, og mætti mikið í sölurnar leggja til leiðréttingar á því.

Þegar við fluttum þetta frv. upphaflega, var mikið af íbúðum í smíðum, þá fengum við þær upplýsingar, að um 1000 íbúðir v æru í smíðum. Af þessu er mikið komið upp, en mikið enn í byggingu. En fólksfjölgun er mikil í bænum og kannske meiri en í hlutfalli við það. En það eru allir á einu máli um það, að ástandið sé óviðunandi.

Sú breyt., sem við höfum gert ráð fyrir, er ekki stórvægileg, en hún er sú, að menn fái umráðarétt yfir húsum sínum, ef um systkin og aðra nánustu vandamenn er að ræða, en nú er aðeins unnt að segja upp leigjanda, ef um er að ræða eiganda sjálfan eða ættingja í beina línu.

Önnur rýmkun, sem gert er ráð fyrir, er sú, að heimilt sé að segja upp húsnæði, sem notað er til atvinnurekstrar. Á stríðsárunum var mikið af íbúðarhúsnæði tekið til að hafa þar veitingasölu, sérstaklega fyrir hermenn. Aðalandstaðan gegn þessari breyt. var sú, að menn voru hræddir um, að með þessu yrði mjög þrengt að kosti mjólkursölunnar, og má það vissulega til sanns vegar færa. En aðalgrýlan í augum manna er samt sú, að þetta mundi lækka húsaleiguvísitöluna að nokkru.

Nú er það vissulega svo, að ég sé mikla annmarka á þessu frv., en ég sé ekki, að það sé hægt að taka nokkrum mönnum blóð, svo sem gert er, til þess að halda niðri dýrtíðinni. Það er hvorki réttmætt né sanngjarnt.

Ég mun ekki fara út í álit húsaleigun. varðandi frv., en ég hef margt við frv. að athuga. En bezt er að láta frv. nú fara til n. Eitt atriði hefur n. sett mjög út á, það að segja megi upp leigu, ef er eldri en 1941. Þetta segir n. að sé háskalegt, en ég held, að það þurfi ekki lítið hugmyndaflug til að sjá eitthvað háskalegt í þessu. Ég vil nú benda á það, að hér er alls ekki um svo stórvægilegt mál að ræða, að ekki megi sæta athugun í n., en ég vil minna á það, áður en málið fer til n., að það er mjög almennt undan því kvartað, að húseigendur láti menn borga eins konar mútur til þess að komast inn í íbúðir, og er ekki því að leyna, að ég veit dæmi þess, en af þessu er enn brýnni ástæða til þess að athuga þessi mál vandlega, og vita, hvort ekki er hægt að hnekkja þessum ósóma.

Nú hefur Reykjavíkurbær látið byggja mörg íbúðarhús, og hefur bærinn ætlað að leigja íbúðirnar með kostnaðarverði. Mér sýnist nú, að húsaleigun. ætti eftir þeim niðurstöðum, sem fást af því, hver kostnaður þessara íbúða verður, að geta fengið mælikvarða um það, hvað er réttmætt að taka í leigu fyrir hvern teningsmetra, og ættu þá að liggja ströng viðurlög við brotum á þessu. En aðalatriðið er, að allir njóti jafnréttis.

Ég mun svo ekki hafa þessi orð fleiri, en mælast til þess, að málið fái afgreiðslu í tíma og að hv. Alþ. taki ákvörðun um þessi atriði, hvort sem það kostar fórn í vísitölu eða ekki.