27.01.1947
Neðri deild: 59. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (3959)

138. mál, embættaveitingar og ráðning opinberra starfsmanna

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. — Ég tel það virðingarvert af hv. flm. þessa frv. að hreyfa þessu máli og vekja athygli á því, hve óákveðið er um embættaveitingar. Eftir þeim l., sem nú gilda um þetta, er þetta nokkuð laust í reipunum, en flokksvenjan hefur verið sú regla, sem veitt hefur verið eftir, og jafnvel innan flokkanna hefur sú regla ekki verið einhlít. Það er einnig ljóst, að nokkuð hefur kveðið að því, að ráðh. stofni til embætta án þess að hafa einu sinni fjárveitingavaldið með í ráðum.

Hv. síðasti ræðumaður vék að því, að hæpið væri að einskorða of mjög veitingarvaldið. Ég er ekki fylgjandi því, að sterkar skorður séu settar út í yztu æsar, en núverandi los er óforsvaranlegt, að haldist áfram. Er launalögin voru sett, var vikið að því, að rétt væri að ákveða nánar um réttindi og skyldur embættismanna, en það vannst ekki tími til þess á Alþ. að ganga frá þeim ákvæðum þá. Síðan hefur í þessu ekkert verið gert, en þetta er svo mikilvægt mál, að það nær ekki neinni átt að hafa ekkert við að styðjast sem skilyrði fyrir embættaveitingum, svo sem nám og starfsleikni. Eins er um almennan rétt, að embættisveiting ætti að vera bundin t.d. við lögaldur og ríkisborgararétt, en allt er þetta óákveðið, og eins er um þýðingarmeiri embætti, að sé ekki um fyrri reynslu starfsmanns að ræða, þá er varhugavert, að hann sé samstundis skipaður. Ég vil benda á, eins og hv. þm. V-Sk. tók fram, að vandi er að setja l. um slík efni. Slíkt verður vart gert fyrr en eftir góða íhugun og góðan kunnugleika.

Hv. flm. frv. hefur fundið að stofnun embætta án lagaheimildar. Hyggilegt teldi ég að taka til athugunar aðferðir annarra þjóða í þessum efnum. Hjá Dönum og Svíum er fyrirkomulagið það, að sérstök n. ákveður, hvort taka eigi upp nýtt embætti, en síðan er málið að fengnum úrskurði n. lagt fyrir þjóðþingið. Þetta þyrfti að athuga. Sama ætti að vera um ýmis smærri embætti, að starfsþörfin yrði metin. Annars hygg ég, að sérstakur embættismaður í stjórnarráðinu ætti að hafa umsjón með stjórnarskrifstofunum. Þyrfti hann tvo menn sér til aðstoðar til mats á starfinu, og þriðji aðilinn yrði sá maður, sem þetta heyrði undir.

Þetta frv. drepur aðeins á nokkra þætti þessa máls. Hv. flm. hefur leitazt við að finna leið, sem betri væri, og vill að miðað sé við hæfileika, en ég er hræddur um, að það væri engan veginn öruggt ákvæði í frv., því að oft eru mikil tengsl á milli starfsveitanda og umsækjanda, og er því mikill vafi um örugglegt hlutleysi eins og vakir fyrir flm.

Ég hef vakið máls á þessu til frekari áherzlu á ræðu hv. þm. V-Sk., og ég er sammála honum í því, að hér þarf mikillar athugunar við og kunnugleika, og tel hæpið, að þingnefnd vinnist tími til að gera þetta mál vel úr garði eða hafi nægan kunnugleika til að leysa þetta verk, en þetta er gott mál. Það má vera, að þessu máli verði vísað til n., sem ég á sæti í, og fer ég því ekki nánar út í þetta að sinni, en mér gefst tækifæri að athuga málið nánar, er n. fer að vinna að málinu. Ég tel vel farið, að hv. flm. þessa frv. hreyfði málinu, ef það yrði til þess, að löggjöf verði sett um þessi efni.