28.01.1947
Neðri deild: 60. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (3961)

138. mál, embættaveitingar og ráðning opinberra starfsmanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. — Það eru aðeins örfáar aths., sem mig langar til að gera. Ég þakka hv. þm. V-Sk. og 1. þm. Árn. fyrir þau ummæli, sem þeir viðhöfðu varðandi mál þetta í gær, þar sem þeir töldu þetta frv. að ýmsu leyti þarft. Hv. þm. gat um, að tvær veilur hefðu verið í rökstuðningi mínum, sem stöfuðu af ókunnugleika. Það hefði sem sé ekki komið fram hjá mér, að mér hefði verið kunnugt um, að á þinginu í fyrra hefði verið lögð fram þáltill. um að skora á ríkisstj. að breyta löggjöf um veitingu héraðsdómaraembætta. Mér var ekki kunnugt um þetta, enda hlaut till. ekki afgreiðslu. Þess vegna sé ég ekki heldur, hvaða máli það hefði skipt, þótt mér hefði verið kunnugt um þessa till. Í þeirri till. er gert ráð fyrir, að leita skuli umsagnar n., og er hún því í grundvallaratriðum ólík frv. þessu, þar sem ég tel óæskilegt, að n. fjalli um þessi mál. Ég er í hópi þeirra manna, sem hafa mjög takmarkaða trú á nefndarskipulaginu og sérstaklega til þess að verða ráðgefandi um slík mál sem þessi. Ég hef viljandi algerlega sneitt hjá því að leita til n. í stað embættismanna í þessu sambandi. Hitt atriðið, sem hv. þm. nefndi í sambandi við þetta mál, var varðandi 10. gr.gr. er um veitingu starfa hjá ríkisfyrirtækjum. Þar segir, að viðkomandi aðilar skuli setja reglugerð varðandi veitingu þeirra embætta, sem þeir hafa með að gera, og ráðh. skuli svo staðfesta þá reglugerð. Hv. þm. sagði, að slík reglugerð væri ólögleg. Hafi ég ekki misskilið hv. þm., þá kemur mér þetta spánskt fyrir, að jafnmikill lagamaður skuli halda þessu fram. Það er ómögulegt að skilja 10. gr. þannig, að ráðh. skuli sjálfur framkvæma og setja reglugerð um þetta efni. Allir, sem lesa 10. gr., munu sjá, að slíkt er misskilningur. Þar er gert ráð fyrir, að viðkomandi aðilar setji sér reglugerð, sem ráðh. svo staðfestir. Ég er þess fullviss, að hv. þm. er kunnugt um mörg hliðstæð tilfelli, t.d. setning heilbrigðisreglugerða og fleiri hliðstæð dæmi. Ég vænti, að þetta sé hér með leiðrétt.

Hv. þm. varð á örlítil ónákvæmni, þar sem hann gat um, að viðkomandi ýmsum embættisflokkum hefðu gilt fastar reglur um skeið eða jafnvel áratugi, og nefndi í því sambandi læknisembætti, þau hefðu verið veitt samkv. till. landlæknis. Þetta er ónákvæmni, því að þótt ég sé ekki gamall maður, þá man ég um veitingu slíks embættis, sem mikill styrr stóð um, og var þá embættið veitt gegn meðmælum landlæknis. Það kæmi mér mjög á óvart, ef hv. þm. er algerlega liðin úr minni stjórnartíð hv. þm. S-Þ.

Fleira kom ekki fram hjá hv. þm., sem ástæða er til að fjölyrða um. Ég þakka þann velvilja, sem kom fram í ræðum hv. þm., og þær aths., sem þeir hafa gert, álít ég, að hafi verið meintar sem mjög velviljaðar leiðbeiningar af þeirra hálfu.