20.05.1947
Neðri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (3965)

138. mál, embættaveitingar og ráðning opinberra starfsmanna

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að segja mörg orð um þetta mál, get látið nægja að vísa til nál. Þó að það sé ekki margbrotið, þá er þar drepið á það, sem máli skiptir. Ég vil geta þess, að einn nm. gat ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins sakir lasleika.

Það er ekki vafi á því, að mál það, er hér er um fjallað, er mjög þýðingarmikið. Bæði er, að mikið ríður á, að valdir séu hæfir menn, og svo hitt, að þeir hafi trygg réttindi og ákveðnar skyldur í starfi sínu. Nú er allt mjög á reiki um það, hvernig skipað er í embætti, og jafnvel eru til dæmi þess, að bætt sé við opinberum starfsmönnum, án þess að ráðh. sé á nokkurn hátt til þess kvaddur. Þetta virðist vera mjög óheppilegt. Víða erlendis eru sérstakir menn látnir meta, hvort þörf er á að bæta við nýjum starfsmönnum, og hygg ég, að við ættum að taka upp svipað fyrirkomulag.

N. var á einu máli um það, að heppilegast væri, að ríkisstj. undirbyggi og hraðaði löggjöf um þetta efni, því að á henni er mikil nauðsyn, svo að hægt verði að fá fastari grundvöll en nú er. Ég fjölyrði svo ekki frekar um þetta, en vænti, að hv. flutningsmaður og hv. deild geti fallizt á þessa afgreiðslu málsins.