31.01.1947
Efri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (3976)

28. mál, iðnfræðsla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég hef ástæðu til að þakka hv. frsm. fyrir framsögu á mínum brtt., og held ég, að þetta sé alveg ný aðferð hér á Alþ. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara, og byggist það á því, að þar sem starfandi er mþn., sem á að koma með frv. um skóla, þá væri rétt, að þetta frv. biði. Hv. 6. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Rang. hefur verið falið að semja frv. um iðnskóla, og ætluðu þeir að hafa lokið því, áður en þessu þingi væri lokið, og þess vegna finnst mér ekki ástæða til að afgreiða þetta mál nú. Ég hef verið sammála n. um breytingar. En ég legg höfuðáherzlu á, að námstíminn sé gerður misjafn, þar sem þarf mismunandi tækni við hinar ýmsu iðngreinar, t.d. að gera við úr eða raka kjálkana á mér. Ég legg því mjög mikla áherzlu á þetta ákvæði, að námstíminn sé gerður misjafnlega langur.

Brtt., sem ég á einn, eru tvær og eru prentaðar á þskj. 320. Önnur segir, að sá ráðh., sem fer með iðnaðarmál, skuli skipa iðnerindreka, að fengnum till. Landssambands iðnaðarmanna og iðnfræðsluráðs, og getur verið þörf á að skýra þetta nánar. Það má vitanlega deila um það, hvort iðnerindreki skuli skipaður af atvmrh. Sumir telja, að þetta ætti að heyra undir menntmrh., en aðrir, að það sé í starfshring iðnmrh., en það, sem fyrir mér vakir með þessari till., er að fá meira samræmi í þessi mál, fá þarna mann, sem mundi verða tengiliður milli ráðsins, ráðh. og iðnaðarmanna. Eftir því sem frv. leggur til, getur ráðh. skipað iðnfræðsluráð. Að vísu á sú skipun að fara eftir tilnefningu ýmissa viðkomandi félagssamtaka, en þrátt fyrir það tel ég, að meiri festa skapist í þessum málum með því, eins og ég legg til, að skipa fastan iðnerindreka.

Hin brtt. mín miðar að því, að þeir, sem hæfir eru í einhverju fagi, eigi rétt á að ganga undir próf. Mér er ekki fyllilega ljóst, hvernig heppilegast er að haga slíkum prófum, en vegna þess að sumir hafa jafnvel talið þau ógerleg, þá hef ég snúið mér til kunnáttumanna, sem um þessi mál hafa fjallað, og leitað álits þeirra á þessu máli. Þeir hafa allir verið á einu máli um það, að vandalaust væri að framkvæma slík próf. Prófin tækju ef til vill nokkuð lengri tíma og gætu staðið nokkra mánuði, en vandalaust telja þessir menn að skera úr með slíkum prófum, hvort viðkomandi skuli öðlast sveinsbréf.

Eins og nú er málum háttað, eru margir menn starfandi í ýmsum iðngreinum, án þess að þeir stundi þar löglegt nám. Þessum mönnum finnst mér skylt að veita réttindi, ef þeir reynast til þess hæfir. Ég fæ ekki séð, að slík próf opnuðu neinar gáttir, eins og einn hv. þm. var að tala um, en að sjálfsögðu verða þau að vera í góðu samræmi og eftir ströngum fyrirmælum, en það tel ég eiga að geta tryggt það, að ólærðir menn eða fúskarar komist ekki í gegnum þau.

Ég hef svo ekki meira um þessar till. að segja á þessu stigi málsins, en ég vil að endingu vekja athygli á brtt. við 12. gr., því að ég tel eðlilegt, að námstími í hinum ýmsu greinum sé eitthvað mislangur, eftir því hver iðngreinin er, og í trausti þess, að sú heimild, sem þar um ræðir, verði notuð, tel ég þessa gr. eðlilega, en vil þrátt fyrir það bera fram eftirfarandi rökstudda dagskrá:

„Þar sem nú er starfandi milliþinganefnd í skólamálum og þess að vænta, að frá henni komi frv. um iðnfræðslu sem einn liður í heildarskólakerfi landsins, sér deildin ekki ástæðu til að afgreiða málið nú og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“