03.02.1947
Efri deild: 63. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (3984)

28. mál, iðnfræðsla

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. — Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar mál þetta var hér síðast á dagskrá, og hef því ekki fengið tækifæri til að tala fyrr. Er því búið að taka fram í þessum umr. ýmislegt af því, sem ég hefði komið inn á, og get ég því sparað mér að tala hér langt mál.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 311, er n. öll sammála um framgang þessa frv. með þeim breyt., sem þar eru skráðar. Flestar þeirra eru ekki stórvægilegar efnisbreytingar á frv., heldur meiri eða minni háttar lagfæringar, sem n. hefur yfirleitt verið ásátt um, að mundu frekar vera til bóta, enda hefur það komið fram í bréfi iðnsveinaráðs alþýðusambandsins, að það telur sig geta fallizt á breyt. n. Ég tel því ekki ástæðu til að fjölyrða um þær, þar eð hv. frsm. hefur skýrt þær fyrir hönd n.

Ég vil hins vegar minnast nokkrum orðum á aðrar þær brtt., sem hér hafa verið fluttar við frv., og lýsa afstöðu minni til þeirra.

Varðandi fyrri till. á þskj. 320 er það að segja, að ég lét í ljós í n., að ég teldi síður en svo fjarstæðu að skipa slíkan erindreka, sem till. gerir ráð fyrir, en að ekki væri nægilega frá þessu gengið, eins og till. var upphaflega formuð í n., þ.e. að skipa aðeins einn iðnerindreka, heldur þyrftu einnig að vera iðnfulltrúar á ýmsum stöðum landsins til þess að fylgjast með framkvæmdum á viðkomandi stöðum, en þar sem till. felur nú einnig þetta í sér, þá sýnist mér, að þessi tilhögun sé frekar til bóta. og mun því greiða atkv. með þessari till. — Hvað snertir síðari till. á sama þskj., er það að segja, að þótt ég í raun og veru hafi nokkra tilhneigingu til að vera með því „principi“ út af fyrir sig, að mönnum verði gefinn kostur á því að öðlast iðnréttindi með því einu að taka próf í viðkomandi iðngreinum, álít ég, eins og sakir standa, naumast nægileg skilyrði fyrir hendi til að halda slík bréf á þann hátt, að hægt væri að sanna leikni og kunnáttu viðkomandi manns, svo að unnt væri að veita honum þessi iðnréttindi. Ég lít þannig á, að eins og sakir standa, þ.e. meðan iðnfræðslunni er hagað á þann hátt, sem nú er, að verklega námið er eingöngu meistarakennsla, þá sé ekki fyrir hendi nein tilhögun, sem telur sér skylt eða er fær um að láta nemendur, sem ekki hafa verið við nám hjá meistara, ganga undir slíkt próf. Eins og hæstv. ráðh. var að tala um, getur slíkt próf, sem haldið er í skyndingu og þar sem verk er leyst aðeins á skömmum tíma, ekki sannað nægilega kunnáttu þeirra manna, sem undir það ganga, að minnsta kosti er það svo í mörgum iðngreinum. Til þess að prófið væri fullnægjandi, þyrfti það að standa yfir langan tíma, jafnvel vikum saman, og eins og ég nefndi áðan, er ekki fyrir hendi nokkur sá aðili í þessum efnum, sem mundi telja sér skylt að taka við manni, sem hefur ekki verið við nám hjá honum, og halda yfir honum nokkurra vikna próf. Ég held þess vegna, að til þess að koma þessu prófi fyrir, yrði ríkið sjálft að hafa slíka stofnun með höndum og veita slíkt próf, en það álít ég, að ekki sé hægt, fyrr en iðnfræðslan sé komin í það horf, að kennslan í iðnskólunum sé einnig verkleg. En með því væri farið inn á nýja braut í þessum efnum, og þá yrði sú löggjöf, sem um þetta yrði sett, byggð á öðrum grundvelli en þetta frv., og þess vegna tel ég þá hugmynd, sem kemur fram í þessari till., ekki falla inn í þetta og því ekki tímabæra. Ég mun því greiða atkv. móti þessari till., eins og málin standa nú, þrátt fyrir það að ég telji þessa hugmynd að talsverðu leyti réttmæta og til athugunar í sambandi við endurskipulag á fyrirkomulagi iðnfræðslunnar í heild.

Hins vegar get ég sagt það í stuttu máli um brtt. á þskj. 312, sem fluttar eru af hv. þm. Barð., að ég er á móti þeim öllum. Eins og fram kom í n., varð ekki samkomulag um þær, og flutti hv. þm. Barð. því till. einn og hefur lýst afstöðu sinni og n. alveg á réttan hátt. — Viðvíkjandi l. till. hef ég gegn henni að færa sömu rök og hæstv. ráðh. gerði. Um 2. brtt. má segja, að það skipti ekki svo miklu máli, hvort hún verði samþykkt eða ekki, en hins vegar eru þar þrengd réttindi iðnnemanna á þann hátt, að hægt er að ákveða framlengingu námstíma þeirra, hversu lítið sem þeir forfallast, en í frv. er aftur á móti ekki heimilt að framlengja námstímann, nema þeir hafi verið meira en 6 mánuði frá námi. Ég held, að eins og námstíminn nú er, sé hann það ríflegur, að ekki sé rétt að íþyngja nemunum með því að þrengja þetta ákvæði enn meir. — Hvað snertir 3. till., er það að segja, að bæði a- og b-liður hennar fela í sér refsiaðgerðir gegn nemunum, meðan á vinnudeilum stendur. Auðvitað geta nemarnir engu ráðið um vinnudeilur eða hversu lengi þær standa, og álít ég fjarstæðu að setja ákvæði, sem hægt er að nota sem refsiaðgerðir gegn nemunum undir slíkum kringumstæðum. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta atriði, þar eð þegar hafa verið færð rök gegn því af öðrum ræðumönnum, en vil aðeins taka undir með þeim.

Að lokum hefur hv. 1. landsk. þm. (SÁÓ) flutt hér brtt. á þskj. 350 um lítils háttar breytingu á tilnefningu í iðnfræðsluráð, þannig að í staðinn fyrir, að iðnsveinaráð alþýðusambandsins tilnefni tvo aðila móti fulltrúum meistaranna, skuli það aðeins til nefna einn og að hinn fulltrúi þeirra skuli tilnefndur af Iðnnemasambandi Íslands. Hugsunin, sem fram kemur í frv., er sú, að það skuli vera iðnaðarmannastéttin, sem tilnefni þessa fulltrúa, en hins vegar hefur hingað til ekki verið almennt litið svo á af löggjafanum, að iðnnemar séu iðnaðarmenn, fyrr en þeir hafa lokið prófi og öðlazt sveinsréttindi, en ef hv. Alþ. sér ástæðu til og telur rétt að veita iðnaðarsamtökunum slíka viðurkenningu, hef ég fyrir mitt leyti ekkert á móti þessu og gæti hugsað mér að vera með þessari brtt., en álít, að þetta skipti ekki miklu máli eða að af þessu yrði veruleg breyting, þótt till. yrði samþykkt.

Að lokum vil ég lýsa yfir því, að ég er að sjálfsögðu með framgangi frv. með þeim breyt., sem felast í till. n. á þskj. 311, og jafnframt mun ég greiða atkv. með fyrri till. á þskj. 320.