03.02.1947
Efri deild: 63. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (3986)

28. mál, iðnfræðsla

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Hæstv. samgmrh. hefur lýst yfir, að hann væri fylgjandi brtt. þeim, sem n. hefur flutt á þskj. 311. Þessar brtt. voru samþ. af iðnn., og sé ég því ekki ástæðu til að ræða þær frekar. Hann gat hins vegar ekki fellt sig við brtt. mína við 3. gr., og í sama streng tóku þeir báðir, hv. 1. landsk. og hv. 6. landsk., en mér fannst þeir ekki færa fullkomin rök fyrir sínu máli. Þeir telja þetta einkamál milli atvinnurekenda og sveina, en það tel ég ekki. Hér er um mikið atriði fyrir þjóðina sjálfa að ræða.

Hv. l. landsk. bar þetta saman við samsvarandi ákvæði í Danmörku. Ég veit nú ekki, hvaða vald það hefur þar, en öllum hlýtur að vera ljóst, hvílíkt gífurlegt vald þessu ráði er gefið. Þess vegna álít ég, að ríkið eigi að hafa meira en 1 fulltrúa, vegna þess að hér getur verið um mjög mikil útgjöld að ræða. Ég hef því lagt til, að ráðið sé svo skipað, að Alþ. beri ábyrgð á því. Ef rök meðnm. minna eru rétt, ætti t.d. verzlunarstéttin að skipa 4 menn í viðskiptaráð, en ríkið l. En á þessu er hafður annar háttur, vegna þess að þetta mál varðar þjóðina alla. Ef þessi háttur verður á hafður, verður strax að taka upp baráttu fyrir breytingu á skipun ráðsins.

Þá er komið að 18. gr. Ég sé ekki ástæðu til að ræða um það, þar sem hér er um smáatriði að ræða, en ég vil benda á, að hv. 1. landsk., hv. 6. landsk. og hæstv. ráðherra töldu allir og leiddu rök að því, að til náms þyrftu 4 ár, en ég fæ ekki skilið, á hverju það er byggt, né heldur þau ummæli hv. 1. landsk., að próf væru engin trygging fyrir hæfni nemandans.

Ég mun því snúa mér að brtt. nr. 3, við 22. gr., og þá þeim ummælum hv. 1. Iandsk. og hv. 6. landsk., að hér sé verið að refsa eða íþyngja nemendum, en þetta stafar af því, að þeir hafa slitið sundur a- og b-lið. Ég vil út af þessu beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann beri upp báða liðina, a. og b., í einu, því að vitanlega kemur ekki til mála að samþykkja a.-lið, en fella b.-lið. Þá væri verið að refsa nemendum. Í þessu er engin refsing fólgin, því að nemendur mega þá slíta samninginn og ráða sig til annars, en það er refsing að binda nemendur við kannske ekki neitt í heilt ár með því að banna þeim að segja upp samningum og mega svo framlengja námstímann sem því svarar.

Viðvíkjandi því, hvort rétt sé að fara inn á till. nr. 2 á þskj. 320, að leyfa próf án námssamnings, þá hafa ekki komið fram viðamikil rök þar í móti, og í þessu sambandi vil ég lesa kafla úr bréfi frá Iðnnemasambandi Íslands, með leyfi hæstv. forseta, þar sem þeir segja: „4. þing Iðnnemasambands Íslands lítur svo á, að námstími í ýmsum iðngreinum sé óþarflega langur, og telur brýna þörf bera til, að hlutlaus athugun fari fram á því, í hvaða iðngrein. um megi nú þegar stytta námstíma, án þess að um breytta námstilhögun væri að ræða.“ Þetta þyrfti að athuga, og iðnnemar renna undir þeim rökum, að ekki þurfi fjögur ár til þess að læra iðn, en í mörgum námsgreinum er námið bundið við 4 ár með núverandi námstilhögun. Enn fremur segir í bréfi iðnnemasambandsins, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnframt færi fram rannsókn á því, í hvaða iðngreinum væri hægt að stytta námstímann með breyttri. árangursríkri námstilhögun. Það er skoðun þingsins, að þar komi aðallega til greina verknámsskólar reknir af ríki og bæjum. Þingið leggur til, að þessi leið verði farin, sérstaklega vegna þess, að hún felur í sér möguleika til úrbóta á því ófremdarástandi, sem nú ríkir í iðnaðarnáminu, svo sem að fjöldi iðnnema fær oft ekki nema nasasjón af því, hvernig vinna skuli hin vandasömustu störf í iðngreininni.“ Þetta kemur nú beint frá iðnnemum sjálfum, og er þetta ástand sannarlega óþolandi, og ég verð að segja það, að ef slík ummæli, sem iðnnemar láta frá sér fara, væru í þskj., þá þættu það þungar árásir. Og eftir því sem iðnfyrirtæki stækkar, þá eru iðnnemarnir notaðir í sendiferðir og látnir sópa gólf fyrsta árið, annað árið er þeim kennt að nota verkfæri, þriðja árið læra verkið og fjórða árið týna niður því, sem þeir hafa lært. Þetta er hin þunga undiralda, og þessu viljum við breyta, en mér finnst skiljanlegt, eins og iðnfræðslu er nú háttað, að meistari, sem tekið hefur að sér að halda uppi námi, vilji tryggja tekjur á móti og tryggja sér vinnusamning — ég vil ekki segja þrælasamning. Þótt frv. verði samþ. nú, þá verður breyting gerð á því fyrr eða seinna, og till. hv. 1. þm. N-M. um ákvæði um próf er sú sama og ég bar fram á þingi í fyrra. Því hefur verið haldið fram hér, að próf gæfu enga tryggingu um leikni og kunnáttu nemanda. En er það þá svo, að próf í stýrimannafræði frá stýrimannaskólanum sé einskis virði? Er það einskis virði, er komið er út á haf og enginn er til að leiðbeina eða rétta miða? Ég skil ekki, að ef manni er sagt að gera útskorinn bókaskáp og hans gætt og fylgt, frá því að hann tekur hráefnið, eikina eða einhvern harðvið, þar til að hann skilar því, að hann gæti ekki eins smíðað rúm eða klæðaskáp, og það kemur fram í þessu bréfi, að óskað er eftir, að þessi gr. sé athuguð. Í bréfinu segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þá vill stjórn Iðnnemasambands Íslands benda yður á, að hún telur, að nauðsynlegt sé að breyta að nokkru 13. gr. frv. og þá þannig, að í stað setningarinnar „Prófdómendur“ o.s.frv. komi: Iðnfræðsluráð skal ákveða, hvert prófverkefni skuli vera í hverri iðngrein fyrir sig, t.d. 10–15 mismunandi verkefni, og skuli nemendur síðan draga um það hjá prófnefnd, hvert verkefni þeir eigi að leysa af höndum.“ Þetta er lögð stærst áherzla á í þessu máli, og ég vil í tilefni af þessu, að n. taki 13. gr. frv. til gaumgæfilegrar athugunar. Öll rök mæla með því að fara inn á þetta svið, að stytta námstímann í opinberum skólum.

Ég vil svo að síðustu að gefnu tilefni vegna ummæla ráðherra um, að þingnefndi.r ættu ekki að láta mál koðna uppi, heldur skila þeim til þingdeilda, vísa þessu aftur, en á tveim undanförnum þingum hef ég átt mál í n., án þess að þau fengjust afgreidd, og nú síðast frá í október s.l. Mál þetta kom seint til iðnn., og á síðasta aðalþingi var mikil vinna lögð í málið, en það voru aðrir aðilar en iðnn., sem stöðvuðu málið þá. Það er og af mínum till., að frv. er nú fram borið í Ed., og mér þótti réttara, að málið kæmi fram þar, því að málinu væri hætt við að stöðvast í Nd. Ég tel allar ásakanir um, að málið yrði stöðvað í Ed., talaðar út í bláinn.