14.10.1946
Neðri deild: 3. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (4001)

7. mál, brúargerðir

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því, sem samgmrh. ræddi um, að afgreiðsla þessa máls dragist eitthvað, þangað til séð verður, hvað verður ofan á um till. vegamálastjóra og samgmn. um heildarlausn þessa máls. Hins vegar verð ég að segja það, þótt það máske sé ekki tímabært hér, að mér finnst meðferð þessara mála á undanförnum þingum ekki hafa gefið mjög ákveðnar vonir um, að samkomulag náist um heildarskipulag, sem allir geti sætt sig við, enda eru þessi mál þannig vaxin, að það þarf nærri því frá ári til árs að fjalla um þau. Hitt er æskilegt, og ég tel það nauðsynlegt, að heildarskipulagi sé komið á þessi mál. Ef hins vegar yrði ekki úr því, að heildartill. kæmu fram frá vegamálastjóra, mundi ég halda því fast fram að fá þessi mál afgr. Þetta frv. var á sínum tíma flutt af nauðsyn, og svo er enn.