14.10.1946
Neðri deild: 3. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (4005)

2. mál, vegalagabreyting

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það var fyrst á þessu sumri, að akvegasamband komst á við Ísafjarðardjúp. Þetta er mjög stórt spor í samgöngumálum þessara héraða og allra Vestfjarða, en þegar þessum áfanga er náð, hlýtur svo að fara, að krafan um bættar samgöngur innan héraðs komi fram, og grundvöllurinn er sá, að nauðsynlegir vegir verði teknir í þjóðvegatölu. Það er þannig í þessum héruðum, að aðeins örstuttir vegarspottar eru í þjóðvegatölu, og má því segja, að þau séu vegalaus og þjóðvegalaus. Það er þess vegna, að ég hef flutt hér þetta frv., og mun ég leggja á það mikla áherzlu, að nauðsynlegir vegir verði lagðir þar með svipuðum hætti og í öðrum héruðum landsins. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Það er gert ráð fyrir, að teknir verði í þjóðvegatölu vegir meðfram öllu Ísafjarðardjúpi norðanverðu, allt til Furufjarðar á Ströndum, en brýna nauðsyn ber til, að lagður verði vegur út Snæfjallaströndina og þar með stytt sjóleiðin til Ísafjarðar og Vestfjarðanna yfirleitt, en gert er ráð fyrir, síð í haust verði vegurinn kominn langleiðina til Melgraseyrar.

Þetta frv. miðar að því, að því sem næst vegalaus héruð fái nokkra leiðréttingu sinna mála. Það hefur ríkt misskilningur um þarfir manna, sem þarna búa. Mönnum hefur sýnzt, að þetta fólk gæti látið sér nægja góðar samgöngur á sjó. Þetta er ekki þannig. Samgöngur á landi eru nauðsynlegar, ekki einasta fyrir félagsskap manna, heldur og vegna atvinnurekstrar.

Ég leyfi mér að óska þess, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og samgmn.