24.10.1946
Neðri deild: 5. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (4008)

13. mál, bifreiðaskattur

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þm. S-M. að bera fram þetta frv. Meginefni þess er, eins og fram er tekið í frv., að leggja skuli hlut af benzínskatti til brúargerða, en hinn hlutinn skuli renna til þjóðvega. Undanfarið hefur svo verið, og hefur safnazt í brúasjóð um 11/2 milljón króna. Úr þessum sjóði hefur verið veitt t.d. til brúargerðar á Jökulsá á Fjöllum. En með lagabreyt. á síðasta þingi var fellt niður ákvæði um, hvernig skipta skuli gjaldinu, og rennur það til ríkissjóðs, en gengur ekki til brúar- og vegagerða. Vil ég leyfa mér að mælast til, að þetta verði fært í sama horf og var og að gjaldið verði lagt í vegi og brýr.

Það er kunnugt, að lagt er kapp á að leggja vegi um landið, og eru nú greiðfærir vegir frá Reykjavík að Skeiðarársandi og frá Reykjavík til Suður-Múlasýslu. Sums staðar á kaflanum þar á milli eru óyfirstíganlegar hindranir og ekki hægt að tengja akbrautir um landið. Vegna jökulhlaupa á Skeiðarársandi er erfitt að tengja þjóðbrautir þar saman, en kaflann, sem tengir Hornafjörð og Suður-Múlasýslu, má gera greiðfæran og greiða úr samgöngum þar og suðvelda samskipti þessara héraða, en þau hafa haft mikið saman að sælda, t.d. stunda Múlasýslumenn fiskveiðar við Hornafjörð á vetrum. Eingöngu vegna erfiðra hafnarskilyrða er Djúpivogur varahöfn Skaftafellssýslu, og eru dæmi um það, að skip, sem eiga að fara með vörur til Skaftafellssýslu, hafa orðið að fara með þær til Djúpavogs. Þetta væri ekki svo slæmt, ef samgöngur væru góðar á landi, en svo er ekki, og þess vegna er samband milli þessara héraða mjög stopult. Suður-Múlasýsla og Skaftafellssýsla hafa svo mikið félagslegt samband sín á milli, að mjög bagalegt er, að ekki skuli vera bílfært á milli. Sem dæmi má nefna, að þeir eru í búnaðarsambandi saman, en geta ekki notað bifreiðar til þessara samskipta. Það er hætt við, að íbúum annarra héraða mundi þykja miður, ef ekki væri bílfært milli höfuðsveita, t.d. milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar eða í Þingeyjarsýslum. Hvað mundu þeir segja, ef þeir þyrftu að fara ríðandi milli héraðanna? Nú ber að líta á, hvort hér sé um mikið átak að ræða. Á milli Hornafjarðar og Djúpavogs eru 90 km. Frá Hornafirði að Jökulsá í Lóni eru 24 km., og er sú leið bílfær og einnig fleiri kaflar leiðarinnar. Nú er byrjað að leggja veg yfir Lónsheiði, og er þá Jökulsá í Lóni aðaltorfæran, en hún er, sem vitað er, stórt vatnsfall. Vildi ég því leggja til, að tekjum þeim, sem innheimtast með benzínskatti, verði varið til brúargerðar á Jökulsá í Lóni, en sú brú kæmi til með að kosta mikið og erfitt að fá fé til þess kostnaðar á fjárl., og ég býst ekki við, að sá kostnaður yrði tekinn inn á fjárl. næstu ára. Vil ég því leggja til, að brúasjóður haldist og fé hans verði notað til að gera þessa brú. Ef til vill kæmi til álita að hækka benzínskattinn nokkuð og breyta hlutfallinu um framlag til brúargerða og hins vegar til akvega. Það er ekki hægt að sleppa því, að með bættum vinnubrögðum við vegagerð minnkar kostnaðurinn, en við getum ekki gert okkur vonir um slíkar breyt. við brúargerðir. Þótt þetta komi til álita, höfum við heldur lagt til að tekjustofninum sé haldið óbreyttum.

Þar sem hér er um að ræða ráðstöfun á þegar innheimtu fé, finnst mér, að vísa ætti frv. til hv. samgmn.