07.05.1947
Neðri deild: 123. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (4030)

20. mál, vinnumiðlun

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu ekki mæla gegn því, að þessi ósk hæstv. forsrh. verði tekin til greina, þar sem hann greindi veikindaforföll eins hv. þm., sem kýs að verða við, þegar þetta mál er rætt við 3. umr. En ég kemst ekki hjá að láta í ljós óánægju við hæstv. forseta yfir því, hve lengi hefur dregizt að taka þetta mál til 3. umr. Ég kemst heldur ekki hjá að láta í ljós grunsemdir mínar um það, að ekki sé allt með felldu um drátt þessa máls, og einnig í sambandi við ósk hæstv. forsrh. Ég mun þó sætta mig við, að meðferð málsins verði frestað nú, ef það verður tekið á dagskrá á morgun. En ég sætti mig ekki við, að málið verði viku eftir viku tekið af dagskrá og að það sé fikrað sig í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut.