31.10.1946
Neðri deild: 8. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (4050)

31. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Íslendingum er það mikið fagnaðarefni, að þjóðleikhúsbyggingin hér í Reykjavík er í þann mund að verða fullgerð. Samkvæmt yfirlýsingu, sem birzt hefur í blöðunum hér í Reykjavík, frá þjóðleikhúsnefnd, má vænta, að þessi bygging verði fullgerð og tekin til nota á næsta ári. Leiklistin hér í Reykjavík og alls staðar á landinu hefur búið við afar erfið skilyrði, og þeir menn, sem að þessum málum hafa unnið, hafa orðið af þeim ástæðum að leggja á sig mikið erfiði og meira erfiði en líklegt er, að leiklistarmenn í flestum löndum hafi þurft að leggja á sig. Hefur verið unnið mikið starf hér í Reykjavík í þessum efnum, og mun bráðlega úr rætast, eins og ég áður sagði. Bygging þjóðleikhússins hefur staðið afar lengi yfir, en nú sést fyrir endann á þeirri framkvæmd, og það verður ekki eingöngu fólkinu í Reykjavík óblandin gleði, heldur og öllum Íslendingum. Þjóðleikhúsið hlýtur að verða. alþjóðareign, og er metnaðarmál allrar þjóðarinnar að sjá það rísa og gegna því starfi, sem því er búið að rækja við listina og við list þjóðarinnar í heild.

Það hefur verið þannig, að þjóðleikhúsið er að mestu leyti byggt upp fyrir þann hagnað, sem er af álagningu skemmtanaskatts á öllu landinu. Um langt skeið hefur skemmtanaskatturinn af öllu landinu runnið til þessarar byggingar. Það leiðir af því, að öll þjóðin hefur haft mikinn áhuga fyrir byggingu þessari, að fram til þessa hefur ekki gætt mikillar óánægju með það, að skemmtanaskatturinn skuli hafa runnið til þessarar byggingar. Á síðasta ári hefur þó nokkuð borið á gagnrýni á því, að fyrir skemmtanaskatt af öllu landinu væri byggt eitt hús í Reykjavík. En nú, þegar verið er að ljúka við byggingu þjóðleikhússins, er ekki óeðlilegt, að raddir komi fram um það, að eðlilegt sé, að skemmtanaskatturinn verði notaður til þess að byggja upp grundvöll undir félags- og menningarlíf fólksins utan Reykjavíkur. Það er ekki óeðlilegt, að fólk í kaupstöðum og sveitum, sem á við erfiðar aðstæður að búa í þessum efnum, geri nú kröfur um að fá það fé, sem greitt er, ekki aðeins á viðkomandi stöðum, heldur og víðar á landinu, til þess að leggja annan og betri grundvöll að félagsstarfsemi á hinum dreifðu landsvæðum og þorpum. Og þetta er ekki óeðlilegt vegna þess, hvernig ástandi nú er í raun og veru varið í þessum efnum um allt land. Það er þannig, að grundvallarskilyrði fyrir því, að félagslíf í verði víð komið á þessum stöðum, er það, að til séu hús, samkomuhús, sem geta verið miðstöðvar fyrir félagslíf fólksins, og svo íþróttahús og leikhús. Það brestur mjög á það, að það ástand sé fyrir hendi, sem viðunanlegt getur talizt, í mörgum sveitum, kaupstöðum og kauptúnum þessa lands. Ástandið er þvert á móti. þannig í mörgum byggðarlögum í sveit. og við sjó, að það eru engin samkomuhús til, og ef þau eru til, þá eru það óupphitaðir kumbaldar, óvistleg og lítt til þess fallin að laða fólk til samtals og félagslegs samstarfs. Nú er það þannig, að fólk alls staðar á landinu krefst skemmtana og samkomuhalds. Ég hygg, að ekki óverulegur þáttur í flótta fólksins úr sveitunum til Reykjavíkur sé einmitt örðugleikarnir á félagssamtökum þess, hörgull á samkomustöðum o.s.frv. Ekki sízt hlýtur þetta að varða unga fólkið. Æska nútímans krefst skemmtana og félagslífs í miklu ríkara mæli en æska liðinna tíma. Æska nútímans á Íslandi lætur sér ekki nægja áð hlusta á óminn af glaðværð höfuðstaðarins gegnum útvarpið. Hún lætur sér það ekki nægja. Hún stöðvast ekki heima á æskustöðvunum, heldur rennur á hljóðið. Hún leitar til þéttbýlisins, þar sem gnægð er skemmtana, kvikmyndasýningar, leikhússýningar, dansleikir o.s.frv. Engar fortölur eru þess megnugar að snúa henni frá þessum eftirsóttu veraldargæðum, engar ásakanir um það, að hún sé að svíkja sveitina sína, því að nú er breytt viðhorf unga fólksins í þessum efnum. Það er skoðun okkar flm., að frumskilyrðið fyrir því, að jafnvægi skapist í þessum efnum og fólkið hætti að flýja átthaga sína, eins og raun ber vitni, og flykkjast hingað til Reykjavíkur, sé bætt skilyrði, nýr, og traustur grundvöllur að félagsstarfsemi því til handa, ekki eingöngu fyrir unga fólkið, heldur og allan almenning, á hverjum einasta bæ.

Ég skal nú ekki hafa innganginn að þessu máli öllu lengri. Ég vænti þess, að skilningur sé á hv. Alþ. fyrir þessari staðreynd, þeirri staðreynd, að ungt fólk og allt fólk á Íslandi gerir meiri kröfur nú en nokkru sinni áður til félagslífs. Þetta er í samræmi við rás viðburðanna og kröfur tímans.

Ég vil nú ofurlítið minnast á efni þessa frv., sem hér er til umr. og ég hef flutt ásamt hv. 2. þm. Rang.

Í 1. gr. er lagt til, að skemmtanaskattur leggist að 3/4 hlutum í sérstakan sjóð, sem nefnist samkomuhúsasjóður, en 1/4 hluti þess rennur í þjóðleikhússjóð, og skal honum varið til þess að standa undir rekstri þjóðleikhúss. Okkur flm. þótti ófært að leggja til, að skemmtanaskatturinn væri tekinn alveg af þjóðleikhúsinu. Nú liggur fyrir yfirlýsing um það, að byggingu þjóðleikhússins verði lokið og það tekið til notkunar á næsta ári, en það er engin yfirlýsing fyrir hendi um það, hvernig rekstri þess verði háttað. Það hefur verið skipuð n. til þess að gera till. um rekstur þjóðleikhússins, en frá þeirri n. hefur ekkert heyrzt; og hefur hún þó starfað í hart nær 2. ár. Það væri æskilegt, þegar farið verður að ákveða, í hvaða hlutfalli þjóðleikhúsið eigi að njóta skemmtanaskattsins áfram, að hafa nokkra vitneskju um, hvernig rekstrinum verði hagað, en enn þá liggja ekki fyrir upplýsingar um, að ekki geti orðið um taprekstur að ræða. Þess vegna leggjum við til, að 1/4 renni í þjóðleikhússjóð, því að okkur er áhugamál, að þjóðleikhúsið sé rekið á fjárhagslega traustum grundvelli og komi að þeim notum, sem til var ætlazt með byggingu þess.

Í 2. málsgr. 1. gr. er lagt til, að samkomuhúsasjóður sé notaður til þess að styrkja íbúa sveita og kauptúna til þess að koma upp samkomuhúsum og félagsheimilum. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að þótt kaupstaðir séu ekki nefndir í þessari málsgr., hygg ég ekki ósanngjarnt, að þeir séu teknir með í þessa till. Það er þannig, að þótt kaupstaðir hafi betri skilyrði en sveitirnar til þess að koma upp slíkum húsum og þar skapist ætíð möguleikar fyrir því að standa undir framkvæmdum, þá er það svo, að þegar á það er litið, að stærsti kaupstaður landsins, Reykjavík, hefur fengið allt það, sem aðrir kaupstaðir hafa lagt af mörkum, er það ekki ósanngjarnt, að þeir fengju að njóta þessa styrks, sem sveitunum er ætlað að njóta, og geri ég ráð fyrir, að við flm. yrðum til viðtals um það, að kaupstaðirnir kæmu til greina við styrkveitingu. Þau ákvæði, sem hér eru um þjóðleikhúsið, eru tekin beint upp úr l. um skemmtanaskatt og þjóðleikhús:

Þá er í þessari gr. ákvæði um það, hvernig stjórn samkomuhúsasjóðs skuli vera háttað. Hana skulu hafa á hendi þrír menn, einn tilnefndur af Íþróttasambandi Íslands, annar af Ungmennafélagi Íslands og hinn þriðji skipaður af menntmrh., og sé hann form. n. Okkur flm. fannst eðlilegt, að þessir aðilar, sem hafa með höndum félags- og íþróttastörf, væru látnir ráða tveim mönnum. Íþróttasambandið hefur forystu um íþróttir, a.m.k. í kaupstöðum, og ungmennafélögin hafa aðallega haft forystu um skemmtanalíf unga fólksins í sveitunum. Þess vegna er eðlilegt, að þau fái að tilnefna einn manninn. Svo er eðlilegt, að menntmrh. skipi einn mann, formann.

Það er gert ráð fyrir því í 2. gr., að ríkissjóður greiði árlega 100 þús. kr. í þennan sjóð, og töldum við ekki fært að leggja til, að sú upphæð yrði hærri, ekki vegna þess, að þörfin væri ekki fyrir hana, heldur vegna þess, í hve mörg horn ríkissjóður verður að líta. Hins vegar finnst mér sjálfsagt, að ríkið leggi þessa upphæð af mörkum, þar sem um félagsmál er að ræða, sem hefur geysimikla þýðingu fyrir þjóðina í heild. Það er mikilsvert atriði, hvort að því á að stefna, að allt landsfólkið þurfi að safnast saman á einn stað, eða hvort fólkið á að halda áfram að byggja þá fjöldamörgu staði þessa lands, sem eru utan höfuðborgarinnar.

Í 3. gr. er lagt til, að lán eða styrkir verði ekki veitt úr sjóðnum, fyrr en l. hafa verið sett um starfsemi hans. Til þess að setja slík l. er sæmilega rúmur tími, þar sem ekki er gert ráð fyrir, að l. taki gildi fyrr en 1. jan. 1948, og lýtur sú tímaákvörðun að því, eins og áður er sagt, að við flm. vildum vera öruggir um það, að þjóðleikhúsið kæmist upp, og helzt, að það yrði tekið til starfa, þegar skatturinn yrði af því tekinn.

Það er skoðun okkar flm., að það sé mjög mikilsvert, að Alþingi taki þessu frv. vel og það sé leyst á skynsamlegum grundvelli, til þess að fólkinu úti á landsbyggðinni verði sköpuð skilyrði ti1 heilbrigðs skemmtana- og félagslífs og betur búið að því í þessu efni en hefur verið á undanförnum árum. Að vísu má segja, að þetta .frv. sé ekki nema liður í þeirri starfsemi, sem þarf að hefja. Það er rétt, en þetta er þó mikilsverður liður.

Ég vil vænta, að Alþ. taki þessu máli vel, og mælist til þess, að því verði vísað til 2, umr. og menntmn.