06.11.1946
Neðri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég mun ekki koma mikið inn á það stóra atriði, sem kannske er grundvallaratriði þessa frv., prinsipmálið, hvort eigi að útrýma gamla fjárstofninum íslenzka með tæknifrjóvgun og kynbótum erlends kynstofns eða ekki. Það er of mikið mál til þess, að ég komi inn á það að þessu sinni. En ég vona. að hv. landbn. og Alþ. athugi sig vel, áður en ákveðið er að snúa inn á þá braut að útrýma íslenzkum sauðfjárstofni. Með þessu frv. er opnuð leið til þess, og það virðist vera einn aðaltilgangur þess. Þá vil ég geta þess, að ég kann illa við, að í frv. skuli þessir sjúkdómar vera kallaðir karakúlsjúkdómar. Þetta er stráksskapur, og það er ekki viðeigandi, að Alþ. lögfesti það, sem haft hefur verið að háði og spotti um allt landið. Það liggja engar sönnur fyrir því, að þessir sjúkdómar séu af karakúlstofninum. Það er ýmislegt annað, sem þörf er að minnast á. Fyrst og fremst er það í 2. kafla 4. gr., sem ég steyti fót minn við. Það er viðkomandi sauðfjársjúkdómanefnd. Hún hefur starfað í allmörg ár, og nú skal endurreisa hana. Skal hún skipuð 5 mönnum, 4 samkv. tilnefningu landbn. Alþ. og þann 5. skipar landbrh. Í sjálfu sér er þetta ekki svo afleitt. En mér er spurn af gamalli reynslu: Hvaða trygging er í því að láta svona n. hafa jafnmikið vald og hér er gert ráð fyrir? Það á enginn sérfróður maður sæti í núverandi sauðfjársjúkdóman., og það mun séð fyrir því, að enginn fái þar sæti framvegis. En henni er gefið einræðisvald, sem finnst varla í l. Það er jafnvel meira, en yfirfagmaður þessara mála hefur haft. Mér er spurn, hvort þetta sé sett til höfuðs mér og því embætti, sem ég skipa. Ég sé ekki betur, en tekið sé hvert atriði, sem mér er ætlað að gera, og látið í hendur þessarar n. Hver er meiningin? Ég verð ekki skipaður í þessa n. Ég vona a.m.k., að guð forði mér frá því. En þetta er eitthvað gallað. Er þá ekki eins rétt að afnema yfirdýralæknisembættið og skipa öllum þessum málum undir n.? Samkv. 5. gr. á n. m.a. að hafa stjórn þeirra sóttvarnarráðstafana, er um ræðir í l. þessum, hafa umsjón með innflutningi erlendra fjárkynja, ef leyfður verður, og vera ríkisstj. til ráðuneytis um þau mál, er l. þessi fjalla um. Þetta er allt, sem ég hef átt að gera. Ég hef átt að vera ráðunautur ríkisstj. um þau mál, sem snerta húsdýralækningar og dýrasjúkdóma í landinu, og hafa umsjón með sóttvörnum. En þetta er allt lagt í hendur n. nú. Svo er verið að fyrirskipa, að landbrh. fari eftir till. yfirdýralæknis, sauðfjársjúkdóman. og Búnaðarfélags Íslands. Við skulum segja, að yfirdýralæknir verði í andstöðu við það, sem sauðfjársjúkdóman. leggur til. En landbrh. getur farið eftir því samt og þarf ekkert að spyrja yfirdýralækninn. Yfirdýralæknir hefur sem sagt ekkert að segja. Þetta er ákaflega hæpið og varhugavert. Ég vil taka það fram, að ég er ekki hér að tala fyrir hönd sjálfs mín. Ég er orðinn gamall og dauður eftir nokkur ár. Þá yrði vonandi settur maður í þetta embætti, sem þið bæruð miklu meiri respekt fyrir en mér. Þeir, sem nú setja þessa löggjöf til höfuðs mér, mundu ekki án kinnroða viðurkenna það þá og mundu afnema það glapræði, sem þeir hefðu gert.

Í 41. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Landbrh. er heimilt, að fengnum till. yfirdýralæknis, sauðfjársjúkdóman. og Búnaðarfélags Íslands, að láta flytja inn í umsjá sauðfjársjúkdómanefndar frá Skotlandi eða Noregi hrúta“ o.s.frv. Mér hefur þótt það undarlegt og barnalegt, þegar verið er að ræða við mig og reyna að fleka mig til að gefa leyfi mitt til að flytja inn hrúta til tæknifrjóvgunar, eins og það er kallað hér. Þá hugsa ég mér, að það yrði þó alltaf með því skilyrði, að ég fengi að hafa á hendi alla stjórn sóttvarna varðandi þessa hrúta. En hér á að taka þennan rétt af mér. Ef á svo að narra mig til þessa og láta sauðfjársjúkdóman. hafa á þessu alla stjórn, þá segi ég stopp. Ég vil biðja hv. n. að athuga þetta vel. Það er fleira, sem þyrfti að tala um, þótt ég komi ekki nú inn á það nánar. Svo vil ég sérstaklega þakka hv. mþn., sem hefur afkastað svo ákaflega miklu á örstuttum tíma.