12.11.1946
Neðri deild: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (4067)

59. mál, dagheimili fyrir börn

Flm. (Katrín Thoroddsen):

Herra forseti. — Frv. þetta, sem ég ber hér fram, fjallar um aðstoð ríkis og sveitarfélaga við uppeldi barna þeirra innan skólaskyldualdurs, er í þéttbýli búa.

Þar sem hér er um að ræða nýmæli í löggjöf landsins, sem hafa mun í för með sér allmikil fjárútlát af hálfu hins opinbera, vildi ég mega skýra málið nokkru nánar. Á þeim aldri, er frv. nær til, eru börnin áhrifagjörnust og uppeldisaðgerðir allar því suðveldastar og notadrýgstar, en mistök og vanræksla á því sviði að sama skapi óheillavænleg. Um það eru kunnáttumenn, svo sem heilbrigðis- og uppeldisfræðingar, á einu máli, að sú andlega heilsuvernd, sem í góðu uppeldi er fólgin, sé í alla staði jafnmikilvæg og líkamleg heilsugæzla, en um gildi hennar munu fáir efast lengur. Annars er allur aðgreiningur þar á milli næsta fánýtur, í fyrstu bernsku a.m.k., svo mjög eru þeir þættir saman tvinnaðir, að ógerlegt er að draga glögga markalínu milli uppeldisaðgerða og heilsuverndar líkamans, og er það ofurskiljanlegt, þegar þess er gætt hve hjálparvana börnin eru og algerlega háð umhverfi sínu og aðhlynningu, en hvort tveggja hefur óhjákvæmilega örlagarík áhrif á heilsu og hugarfar, því að á þessu aldursskeiði, sem hér um ræðir, er vöxturinn meiri og örari en nokkru sinni síðar á ævinni. Sérstaklega er þroskaúttekt og framþróun taugakerfisins mikil og hröð, og skiptir mestu, að hún verði með sem eðlilegustum hætti, en hvorki tefjist vegna of lítillar eða einhliða örvunar né sé íþyngt með of miklum og margbreytilegum áhrifum.

Þeim, sem lítið þekkja til þarfa barnsins og þroskaleiða, er meðalhófið oft vandratað á þessu tímabili hins mikla náms og nýsköpunar í lífi barnsins. En það eru engar ýkjur, að maðurinn öðlast meiri og fjölbreyttari tækni og lærdóm á fyrstu 5–6 aldursárunum en síðar á fyrir honum að liggja að læra í langskóla lífsins. Og að þeirri undirstöðumenntun, sem ungbarnauppeldið er, býr einstaklingurinn allt sitt líf, því að uppeldið ræður, ásamt upplagi og heilsufari, persónuleika og skapgerð. En hvort tveggja er að mestu fullmótað um það bil, sem barnið er 6 ára gamalt. Úr því að þeim aldri er náð, verða hvers konar ávanar, óvanar, skapbrestir og skapgerðarveilur erfiðari viðfangs. Allt enduruppeldi er örðugt og langvinnt og þó að það takist með bezta móti, ber maðurinn þess samt einhverjar menjar alla ævi, hver aðbúnaður hans var í fyrstu bernsku.

Frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar hlýtur markmið uppeldisins að vera það að skapa barninu skilyrði til að ná þeim líkams- og sálarþroska, sem meðfæddir eiginleikar frekast leyfa, temja því hollur lífsvenjur og heilbrigð lífsviðhorf, svo að það megi verða farsæll maður, góður drengur og svo nýtur þegn sem gáfur og gervileiki standa til. Að sama marki vilja vafalaust allir ábyrgir foreldrar stefna, og þó að þeim sé lokamarkið ekki alltaf jafnhugfast og uppeldisaðgerðir því stundum nokkuð lausar í reipunum, þá er þó engum efa undirorpið, að langsamlega flestir foreldrar vilja búa sem bezt að börnum sínum og ekki láta sitt eftir liggja, að þeim megi farnast sem bezt. En góður vilji nægir ekki einsamall, skilnings og lagni er líka þörf, og aðstæður mega ekki vera óhagkvæmar. Bresti á eitthvað af þessu, er undir hælinn lagt, hvort útkoman verður ekki vansæll og vanheill vandræðamaður, sjálfum sér ónógur, en öðrum til ama og byrði. Barnið á þá réttlætiskröfu á hendur foreldrum sínum, að til slíks komi ekki, en séu þeir þess ekki umkomnir, verður þjóðfélagið að takast þá skyldu á herðar, og ætti því að vera ljúft að inna hana af hendi, ekki aðeins af mannúð, heldur og af hagsýni líka.

En nú er svo komið, að uppeldisskilyrði víða í kaupstöðum, en þó einkum hér í Reykjavík, eru orðin svo slæm, að með öllu er óviðunandi og ekki annað sýnna en stefnt sé í voða, ef ekki er að gert. Og horfur eru á, að fremur muni ástandið versna en batna, ef látið er skeika að sköpuðu.

Um orsakir þessa óheillaástands er óþarfi að orðlengja. Þær eru margvíslegar, en mestu valda vafalaust breyttir lifnaðarhættir þjóðarinnar og hinn öri vöxtur bæjanna á síðustu áratugum. Breyting á lífsvenjum foreldranna hefur alltaf einhverja uppeldiserfiðleika í för með sér. Bæði er það, að los vill komast á heimilislífið meðan nýir siðir eru að mótast, og þau siðaskipti geta orðið æði langvinn og margbreytileg, þegar fjölskyldan lendir á hrakhólum vegna heimilisleysis af húsnæðisskorti, eins og nú er afar títt, einkum þó ef einhleypar mæður eiga í hlut. En jafnvel þó að ekki sé svo ömurlegu ástandi til að dreifa, tekur það foreldrana samt alltaf nokkurn tíma að átta sig á hinum breyttu viðhorfum, einkum ef mjög skeikar frá því, sem þeir sjálfir áttu að venjast í uppvextinum. En þótt foreldrarnir reki sig fljótlega á annmarkana og afleiðingar þeirra, fá þeir að jafnaði ekki rönd við reist af eigin rammleik. Hin snöggu umskipti frá strjálbýli til þéttbýlis og þröngbýlis, sem orðið hafa hér á landi, hafa leitt þetta mjög áberandi í ljós. Hvorki þeir, sem til kaupstaðanna flytja úr sveitum og þorpum, né hinir, sem þar eru bornir og barnfæddir, virðast enn hafa gert sér nægilega grein fyrir áhrifum þeim, sem svo mikið aðstreymi og ör vöxtur hlýtur að hafa á uppeldisaðstæður allar, og að allt annarra aðgerða er þörf, þar sem margt er um manninn og umferðaerill meiri en til sveita. Það er engu líkara en alls ekki hafi verið búizt við börnum í kaupstöðum landsins og því láðst að búa að þeim á mannsæmandi og heilbrigðan hátt. Börnunum er, að því er bezt verður séð, ofaukið bæði inni og úti. Má í því sambandi minnast á hinar örsmáu íbúðir, þar sem öll fjölskyldan, stór eða smá, verður að kássast saman í einu til tveim herbergjum eða kannske þremur, ef vel lætur. Mjög víða er andrúmsloft algerlega ófullnægjandi handa svo mörgum mönnum, og ekki er alls staðar séð fyrir nægri birtu. Um rúm eða afdrep til leikja fyrir börnin er ekki að ræða, nema kannske helzt í dragsúg á dimmum göngum eða tröppum.

Um húsnæðisvandræðin og hinn lélega húsakost ætla ég ekki að tala nú, en hjá því verður ekki komizt að geta þess, hve mikilsvert atriði björt og rúmgóð húsakynni eru, þegar um er að ræða andlega jafnt sem líkamlega heilsuvernd. En á slíku eiga allt of fá börn kost, eins og kunnugt er.

Ekki tekur betra við, þegar út kemur í kaupstaðnum. Þar er næsta fátt um bletti, sem börnin geta verið óhult að leikjum. Afgirtir leikvellir munu óvíða vera, en þeir fáu, sem til eru, sniðnir eftir þörfum stálpaðri barna en hér um ræðir, og umsjón þess vegna ónóg, ef kornbörn eiga í hlut, sem aðgæzlu þurfa. Eina athvarf langsamlega flestra kaupstaðabarna er gatan eða bryggja, þar sem svo til hagar, með þeim afleiðingum, að umferðaslys og drukknanir eru tíðar dánarorsakir. En auk þessa eru minni áverkar, svo sem brunar, beinbrot, heilahristingur og hvers konar limlestingar og meiðsl afar algeng. Áleitni geðbilaðra manna og unglinga á smástúlkur, 2–5 ára, og raunar drengi líka, er miklu tíðari en margan grunar. Og má segja, að flestra illra áhrifa sé að vænta, þegar ungbörn hafast við eftirlitslaus á alfarabraut. Eins og allir mega vita, er nú orðið miklum erfiðleikum bundið að fá stúlkur til aðstoðar við heimilisstörf, og ekki er lengur kostur á unglingum til barnagæzlu. Það kemur því í hlut móðurinnar að sinna um barnið úti og inni, en hún er oftast nær önnum kafin við búsýslu og aðdrætti til heimilisins, en þeir eru stundum alltímafrekir, t.d. mjólkurkaup. Reyndin verður sú, að þegar barnið kemst á legg, er annaðhvort látið skeika að sköpuðu, krakkinn settur í umferð, út á götuna, en í húsasundum og ólæstum görðum tollir fjörugur krakki ekki, hann sækir í sollinn til jafnaldra sinna, eða þá að barnið er lokað inni og kemst aðeins undir bert loft í fylgd með fullorðnum. Er hvorugur kosturinn góður, en báðir illir frá sjónarmiði uppeldisfræði. Fyrir móðurina er þetta erfitt taugastríð. Hún á enga frjálsa stund, áhyggjulausa, á hverju sem gengur.

Hér er vissulega úrbóta þörf, og óneitanlega væru meiri og róttækari aðgerðir æskilegar en hér er farið fram á. Að sumu yrði mikil bót, ef frv. þetta væri samþ., þó að það nái aðeins til takmarkaðs hluta barnanna, sem verst eru sett. En aðgerða löggjafarvaldsins til úrbóta, sem nægi, er ekki að vænta. Áhugamenn um uppeldismál hafa að vísu sums staðar hafizt handa um samtök til rekstrar dagheimila, og hefur Barnavinafélagið Sumargjöf verið mikilvirkast og unnið afar mikið og ómetanlega þarft verk hér í Reykjavík. En þrátt fyrir nokkurn styrk af hálfu hins opinbera hefur það ekki haft bolmagn til að bæta úr þörfinni nema að litlu leyti og aðsókn að hinum tveimur dagheimilum verið svo mikil, að aðeins lítill hluti þeirra barna, sem beðið hefur verið fyrir, kemst þar að. Þetta er að vonum. Dagheimilin verða vinsæl, jafnskjótt og almenningur kynnist þeim. Þar fá börnin kjarngott uppeldi, dveljast í rúmgóðum, björtum húsakynnum og hafa aðstöðu til leikja úti og inni undir umsjá sérmenntaðra kennara, sem leiðbeina börnunum þannig, að þau nái þeim vitsmunum og félagsþroska, tækni og líkamsþjálfun, sem

hæfileikar leyfa, en skapgerð þeirra mótast á eðlilegan hátt í umgengni við önnur börn á sama aldri. Foreldrarnir verða þess fljótlega varir, að barnið er ánægðara og umgengnisbetra. Uppeldisáhrif þeirra sjálfra eru ekki skert, enda eiga hvorki dagheimilin né mega koma í stað foreldra, heldur aðeins vera þeim til aðstoðar og leiðrétta eða bæta úr ágöllum, sem óhjákvæmilega eru á uppeldi í heimahúsum, þar sem þéttbýlt er og slysahætta mikil. Fyrir konur, sem utan heimilis vinna af nauðsyn eða áhuga á starfanum, eru dagheimilin bezta lausnin, og fyrir einhleypar mæður eru þau ómetanleg hjálp. Án þeirra eiga þær margar hverjar ekki annars úrkost en að koma barninu fyrir hjá öðrum, og er það neyðarúrræði, eða vera á meira eða minna flækingi með það, og þarf ekki að lýsa, hve ill sú aðstaða er fyrir bæði.

Ég vona, að hv. þm. hafi kynnt sér þetta frv. Eins og hv. þm. sjá, eru í 1. gr., a-lið, ákvæði um gæzlustöðvar fyrir börn frá eins mánaðar aldri til þriggja missira. B-liður 1. gr. er um leikskóla fyrir börn eins og hálfs til sex ára gömul, og er til þess ætlazt, að þau dveljist þar daglangt. Undir c-lið er gert ráð fyrir leikskóla fyrir börn á aldrinum eins og hálfs til sjö ára og að þau börn dveljist þar aðeins hálfan daginn, fyrri eða síðari hluta dags eftir ástæðum. Á þessum árum er ráð barna oft á reiki. Þau dveljast í smábarnaskóla nokkurn hluta dagsins, og þá oftast fyrri hlutann, en flækjast svo á götum og tröppum seinni hluta dagsins. Nauðsynlegt er, að úr slíku ástandi verði bætt.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að yfirstjórn dagheimilanna sé í höndum fræðslumálastjórnarinnar. Það þótti mér eðlilegast, þar sem um eins konar skóla er að ræða. En í hinu nýja frv. um menntun kennara, sem lagt hefur verið fram hér á hæstv. Alþ., er gert ráð fyrir kennslu í smábarnauppeldi. Einn slíkur skóli hefur þegar verið stofnaður hér í Reykjavík í haust. Frk. Valborg Sigurðardóttir sálfræðingur rekur hann og nýtur til þess styrks, bæði frá ríki og bæjarfélagi, og hefur þar með og fengizt viðurkenning fyrir þörf skólans.

Svo er kostnaðarhliðin. Kostnaður er náttúrlega allmikill við þetta. Um hann er það að segja, að gert er hér ráð fyrir, að ríkissjóður greiði 2/5 hluta hans, en hinn hlutann greiði hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélag. Þetta getur varla þótt mjög ósanngjarnt, þegar þess er gætt, hve mannmargir kaupstaðirnir eru. En sumir kaupstaðir, a.m.k. smástaðirnir, munu eiga óhægt með að leggja fram mikið fé til stofnkostnaðar dagheimila eða leikskóla. Það má gera ráð fyrir með lauslegri áætlun, að stofnkostnaður hvers heimilis verði um hálf millj. kr. Þó má ef til vill fá hann eitthvað lægri, ef keypt eru gömul hús og þeim breytt. Um það skal ég þó ekkert fullyrða. Hvað launagreiðslum viðvíkur, er ætlazt til, að ríkið greiði laun. hjúkrunarkvenna og leikskólafóstra. Mundi þurfa eina hjúkrunarkonu við hvert heimili. Sérstaklega er hennar þörf við gæzlustöðvar, þar sem börn á fyrsta og öðru ári dveljast. Þar mun vera þörf á fjórum leikskólafóstrum við hvert heimili, en, fjórum öðrum stúlkum til aðstoðar.

Hugsanlegt væri líka, að nemar uppeldisskóla ynnu þarna kauplítið eða kauplaust. — Um stærri dagheimilin hef ég gert ráð fyrir, að þau taki 120 börn alls. Í smærri kaupstöðum er það kannske ríflega áætlað, svo og í kauptúnum. Ég hef ekki athugað það náið, enda erfitt að fá vitneskju um barnafjölda hvers staðar. En reynslan hefur sýnt, að betra er, að þessi heimili séu lítil og dreifðari um bæina. Með því móti er hægara að stjórna þeim og hægara fyrir foreldra að koma börnunum og sækja þau þangað.

Það verður því allmikið fé, sem þessi dagheimili kosta. En þá vaknar spurningin um það, hvort það borgi sig að leggja fram svo stórkostlegar fjárhæðir til hluta, sem gefa ekki beinan arð. Ég vil halda því fram, að engu fé sé betur varið en því, sem fer til að manna, hlúa að og ala upp hina verðandi þjóðfélagsþegna. Og ég vona, að hv. þdm. séu svipaðrar skoðunar og að þeir líti því svo á, að hér sé um gróðafyrirtæki að ræða og samþykki frv. til 2. umr. Að því loknu vildi ég, að því yrði vísað til hv. heilbr.- og félmn. Þó að hér sé um mikið fjárhagsmál að ræða, þá er það þó fyrst og fremst heilbrigðismál og félagsmál.