23.05.1947
Neðri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (4070)

59. mál, dagheimili fyrir börn

Frsm. (Katrín Thoroddsen):

Herra forseti. — Heilbr.- og félmn. hefur lengi haft með höndum frv. þetta. Stafar sá dráttur ekki af því, að ágreiningur væri um kjarna málsins, heldur greindi menn á um framkvæmdaratriði. Þó fór svo að lokum, að fjórir af fimm nm. komu sér saman um að leggja til, að frv. yrði samþ. með þeim breyt., sem fram eru bornar á þskj. 924. Þó að ég stæði að þeim breyt., þá var mér ljóst sem lækni, að þegar menn neyðast til stórfelldra skurðaðgerða, getur það leitt til örkumla, en þar sem mér er ljós nauðsyn þess, að málið gangi fram, sætti ég mig við þessar till. Hv. 2. þm. Eyf. gat ekki sætt sig við þessi málalok, en taldi ákjósanlegast, að málinu yrði vísað til stjórnarinnar til nánari undirbúnings. Á það gátu aðrir nm. ekki fallizt, af því að við töldum það óþarfa og ástæðulausa töf, þegar svo mikil og víðtæk reynsla er komin af dagheimilum víðsvegar um land, að segja má, að föst skipun sé komin á fyrirkomulag þeirra og rekstur. Um hitt atriðið, þörfina á dagheimilum, held ég, að þurfi ekki að fjölyrða. Hún er öllum ljós. Uppeldisaðstaðan er nú svo erfið í kaupstöðum, að segja má, að þar sé aðeins um það að velja að loka börnin inni, þar sem þeim er fyrirmunað að fullnægja starfsþrá sinni, eða vísa þeim út á götu í rykið og umferðina og hætturnar, sem þar eru. Báðir kostirnir eru illir. Ég tel óhjákvæmilegt að bæta úr þessu, því að okkar fámenna þjóðfélag varðar afar miklu um hvert mannslíf, sem glatast af umferðaslysum, þó að ekki sá nefndur sá harmur, sem aðstandendur verða fyrir. Nú deyr árlega fjöldi barna af umferðaslysum, og samkvæmt síðustu heilbrigðisskýrslum, sem út hafa komið, fyrir 1943, eru slysfarir þriðja hæsta dánarorsökin hér á landi, og níu af hverjum tíu slysum eru umferðaslys. Á síðustu fimm vikum hafa fjögur börn farizt af umferðaslysum, og síðast í gær var í kvöldfréttum sagt af stórslysi á Ísafirði. Ég fjölyrði ekki um það.

Heilbr.- og félmn. lítur svo á, að stofnun og rekstur nægilega margra dagheimila sé bezta lausnin á þessum vanda, og lítur svo á, að með þessu frv. sé stefnt í rétta átt. Leggur n. því til, að frv. sé samþ. í aðalatriðunum, en gerir þó á því allmiklar breyt. Helzta breyt. er sú, að framkvæmd l. er alveg háð samþykki Alþ. og fjárveitingum. Þessi breyt. verður vafalaust til að tefja framkvæmdina nokkuð, en við treystum því, að Alþ. sýni fullan skilning þessu mikla máli og veiti svo fljótt sem það telur sér fært nægilegt fé til þessara framkvæmda.

Um aðrar brtt. vil ég segja þetta: Í 1. gr. er breytt orðalagi, eins og hv. dm. geta áttað síg á. Í 2. gr. er lagfært mállýti.

3. brtt. er veigamest. Hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Við 3. gr. Greinin orðist svo: Stofna skal dagheimili í kaupstöðum og þorpum, þegar barnaverndarnefnd staðarins færir rök fyrir þörf á því og hlutaðeigandi sveitarstjórn, barnaverndarráð og fræðslumálastjóri samþykkja, enda hafi til þess verið veitt fé í fjárlögum. Ber áður greindum aðilum að taka fullt tillit til félagasamtaka kvenna og barnavinafélaga á staðnum, ef þau annaðhvort eða bæði beita sér fyrir stofnun dagheimila“. Síðasti málsliðurinn er alls ekki í frv.

4. brtt. er um að stofnun dagheimila skuli hagað svo að þeim skuli jafnan komið fyrst upp þar, sem þörfin er mest að dómi barnaverndarráðs, og skuli svo haldið áfram, eftir því sem fé er til þess veitt, unz þörfinni er fullnægt. Um stærð og fyrirkomulag skuli fara eftir því, sem bezt hentar á hverjum stað, og byggt samkvæmt teikningu, er fræðslumálastjóri samþykkir.

5. liður er aðeins orðalagsbreyt.

Í 6. lið er rætt um skipulagsatriði. Skal þar fara eftir uppástungum fræðslumálastjóra, sem er þessum málum kunnugur, og Barnavinafélagsins Sumargjafar. — Ég mun svo ekki orðlengja meira um þetta, en vil aðeins mælast til þess, að Alþ. sýni málinu fullan skilning og samþykki það eins og það liggur fyrir.