14.11.1946
Neðri deild: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (4094)

70. mál, ríkisborgararéttur

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. flm. er það kunnugt, að fyrir þinginu liggja allmargar umsóknir um ríkisborgararétt. Það hefur jafnan verið svo, að slíkar umsóknir hafa borizt fram eftir öllu þingi, og vani hefur það verið að sameina þær allar í eitt frv. Nú hefur hv. flm. tekið einn mann hér út úr, og finnst mér það mjög hæpið, þar eð svo margir hafa sótt um þetta, og gæti skapazt óánægja við þá ráðstöfun að láta einn sérstaklega ganga fyrir. Ég þykist þó vita, hvað vakir fyrir hv. þm., því að hér mun vera um gamlan mann að ræða, en ekki líklegt, að þessi mál verði afgr. í bráðina, en ég hygg, að allshn. geti ekki tekið þessa einstöku umsókn til greina.

Ég álít, að Alþ. beri að hugsa sig vel um, áður en það veitir mönnum ríkisborgararétt, því að í því sambandi er ýmiss að gæta. Það vill oft verða svo, að þegar menn fara að eldast, þá sækja þeir um ríkisborgararétt, þó að þeir hafi aldrei gert það áður og ekki verið íslenzkir þegnar. Þetta er að nokkru skiljanlegt, því að án ríkisborgararéttar njóta þeir ekki til fullnustu eftirlauna og annarra styrkja, sem ríkið veitir gömlum mönnum. Ég er ekki að segja, að þessi maður, sem hv. flm. var að tala um, sé að sækja um ríkisborgararétt til þess að ná í þessi eftirlaun, en ég vildi aðeins vekja athygli hv. þm. á því, að þegar um veiting ríkisborgararéttar er að ræða, þá er þar mál á ferðinni, sem krefst góðrar athugunar, og áríðandi, að ekki sé farið of langt út í að veita mönnum ríkisborgararétt.