14.11.1946
Neðri deild: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (4096)

70. mál, ríkisborgararéttur

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir þau orð, sem hv. flm. endaði á, að málið verði tekið fyrir og afgr. á sínum tíma. Hins vegar hef ég ekki neina löngun til þess að setja fót fyrir málið vegna þessa manns, því að hann á sjálfsagt kröfu á að fá ríkisborgararétt. En það er ekki rétt að taka einn mann út úr, sem sanngirni mælir með, að fái þennan rétt, þegar margir bíða, sem eins er ástatt með. Auk þess er ekki það áliðið þessa þings, að málið sé í neinni hættu. Það er venjulegast, þó að það væri nokkuð frábrugðið venju á síðasta þingi, að frv. um ríkisborgararétt gangi í gegnum þingið og verði að l. á mjög stuttum tíma. — Ég get vel skilið, að þessi maður, sem hér er um að ræða, óski eftir að fá ríkisborgararétt fyrir 1. jan. 1947. Og þó að talað sé um, að afgreiðsla þessa máls bíði eftir því, að afgreiðsla hliðstæðra umsókna verði látin fylgja því gegnum þingið, finnst mér, að hv. flm. þurfi ekki að taka það illa upp, ekki sízt, þegar ég sagði hv. flm. það, áður en frv. þetta kom fram, að það hlyti að verða afstaða n., að þessi mál öll fylgdust að.