14.11.1946
Neðri deild: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (4097)

70. mál, ríkisborgararéttur

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í fyrra lá fyrir hæstv. Alþ. frv. um, að margir menn fengju íslenzkan ríkisborgararétt. Var viðurkennt, að margir þeirra ættu tvímælalausan rétt á að fá ríkisborgararéttinn. Og mér finnst ekki rétt að láta slíka menn bíða eftir öðrum mönnum, sem um ríkisborgararétt sækja, en meiri vafi er um, að eigi rétt til að fá hann. Mér finnst ekkert því til fyrirstöðu, að t.d. tvö frv. lægju fyrir einu og sama þingi, eins og t.d. nú, um veitingu ríkisborgararéttar. Það er að mínu áliti sjálfsagt að láta vera í einu frv. till. um veitingu íslenzks ríkisborgararéttar til handa öllum þeim mönnum, sem um hann sækja og eiga tvímælalausan rétt á að fá íslenzkan ríkisborgararétt, en láta svo hina sigla á eftir í öðru frv., sem meiri vafi er um, að eigi þennan rétt, og láta ráðast um það, hvort meiri hluti þingsins vill veita þeim síðar nefndu ríkisborgararétt. Ég vil eindregið beina þeim tilmælum til hv.- allshn., að hún láti það ekki koma fyrir, sem skeði á síðasta þingi, að ágreiningur um einn eða tvo menn verði þess valdandi; að felldar verði beiðnir frá mörgum mönnum um ríkisborgararétt, kannske 20–30 manns, sem tvímælalaust eiga rétt á að fá hér ríkisborgararétt.