14.11.1946
Neðri deild: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (4098)

70. mál, ríkisborgararéttur

Garðar Þorsteinsson:

Ég veit ekki, hvaða háreysti er á ferð hér út af þessum orðum mínum, þó að ég benti á það, að venjan hefði verið á undanförnum árum að taka í einu lagi þær umsóknir, sem komið hefðu frá mönnum um veitingu ríkisborgararéttar, og þó að sagt sé, að það sé eðlilegast að láta þær allar fylgjast að. Það er ekki að mínu áliti ástæða fyrir n. að taka í þessu efni einn mann út úr og fylgja hans frv. fram um veitingu þessa réttar, þegar um svo og svo marga aðra menn er að ræða, sem umsóknir frá liggja fyrir um ríkisborgararétt. Annað hef ég ekki sagt. Og það er mesti misskilningur, ef nokkur ætlar, að í orðum mínum hafi nokkuð falizt í þá átt að reyna að setja fót fyrir það, að þessi maður, sem um ræðir — í frv. því, sem fyrir liggur, fái ríkisborgararétt. Hv. þm. Ak. veit, að reynslan hefur verið þessi, sem ég hef getið hér, að sameinaðar hafa verið í eitt frv. slíkar umsóknir frá nokkrum mönnum, fleiri eða færri. Á síðasta þingi bar n. fram frv. um veitingu ríkisborgararéttar til 4–5 manna. Þá var það hv. þm. V-Sk., sem benti á, að von væri á fleiri mönnum með slíkar umsóknir og réttast væri að taka umsóknirnar allar fyrir á þinginu í einu. — Hins vegar getur allshn. skeikað um það, ef hún ætlar að greina í sundur, hverjir eigi rétt á að fá ríkisborgararétt og hverjir ekki.

Mín meining er alls ekki að setja fót fyrir þetta mál, sem hér liggur fyrir, heldur aðeins að fylgja þeirri venju, sem myndazt hefur um afgreiðslu þessara mála á s.l. árum.