06.11.1946
Neðri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Skúli Guðmundsson:

Þessu frv. hæstv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, var útbýtt hér á fundi í gær, og mér hefur nú ekki síðan unnizt tími til að kynna mér það til neinnar hlítar, en ég vildi aðeins nú með örfáum orðum minnast á eitt atriði í frv., áður en það fer til n.

Eins og segir í grg. frv., er það miðað við það að vinna bug á þessum sauðfjársjúkdómum með skipulögðum fjárskiptum, og segir hér, að það sé miðað við það jöfnum höndum með skipulögðum fjárskiptum og með innflutningi erlends fjárkyns. Hér í 6. kaflanum eru ákvæði um fjárframlög ríkisins til fjárskiptanna, og hefur sá kafli eða 1. gr. hans verið gerð að umtalsefni af öðrum.

Ekki hef ég séð í frv. nein ákvæði um það, á hvað löngum eða stuttum tíma þessi fjárskipti skuli framkvæmd, og ekki heldur í grg. Það er að vísu nokkuð að þessu vikið á bls. 16 í frv., og segir þar, að það sé, eins og vitað er, ekki öruggt um heilbrigði sauðfjár nema á Vestfjörðum, vestan og norðan þeirrar varnarlinu, sem þar er. Það er vitanlega takmörkuð tala fjár, sem hægt er að fá úr þessum landshluta árlega, eða um 1.200 líflömb. Það er því tala þessara lamba, sem ákveður, hve fljótt sé hægt að ljúka fjárskiptunum, og mér skilst, að það muni taka. langan tíma.

Nú mun það vera svo, að frá því að þessi l. taka gildi, mun ekki vera ætlazt til annarra bóta handa bændum, en þessa fjárskiptastyrks, en það hefur ekki verið hægt að komast hjá því að veita bændum nokkurn fjárstyrk, og er hér í grg. yfirlit um það, hvað mikið það hefur verið á undanförnum árum. Hér segir, að það sé eðlilegt, að aðrir styrkir falli niður, og eins og ég sagði áðan, virðist mér með frv. ætlazt til þess, að þetta falli niður, um leið og frv. verður samþ. eða l. samkvæmt því öðlast gildi.

Ég vildi vekja athygli á þessu og beina því til n. að taka það til athugunar. Ég er hræddur um, að það geti valdið eigi litlum erfiðleikum, ef þessum styrk, sem bændum hefur verið veittur til þess að þeir gætu haldið áfram búskap sínum, verður kippt af þeim í einu vetfangi. Þetta getur haft þær afleiðingar, að margir bændur hrekist frá jörðum sínum, áður en að því kemur, að fjárskipti geti orðið framkvæmd hjá þeim og þeir geta fengið þann eina stuðning, sem þetta frv. ætlast til, þ.e.a.s. þá einu greiðslu, sem ætlazt er til, að gangi beint til bænda. Þetta vildi ég biðja n. að taka til athugunar. Það hefur verið svo, þar sem ég þekki til, eins og hv. þm. S-Þ. sagði áðan, að yfirleitt hafa bændur þurft að setja sin líflömb á, á ári hverju til þess að geta haldið uppi fjárstofni sínum og stundum ekki hrokkið til. Þeir hafa fengið nokkurn stuðning miðað við árlega tölu lamba, sem sett hafa verið á til þess að halda við þessum takmarkaða fjárstofni, og ég ætla, að ef þessu yrði kippt af þeim allt í einu, kynni það að hafa alvarlegar afleiðingar á þeim svæðum, þar sem fjárskipti yrðu ekki framkvæmd fyrr, en eftir nokkur ár.

Eins og ég sagði, hef ég ekki haft tíma til að athuga frv. enn, en þessu veitti ég athygli og vil beina því til n., að hún athugi þetta.