20.11.1946
Neðri deild: 20. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (4104)

73. mál, byggingarstofnun ríkisins og byggingarfélög

Hallgrímur Benediktsson; Herra forseti. — Ég ætla ekki að fara að ræða þennan mikla lagabálk neitt ýtarlega að þessu sinni, en mér fannst hv. 6. þm. Reykv. ræða þessi mál nokkuð einhliða í sinni ræðu, og kom mér það raunar ekkert á óvart, þar sem ég þekki hug hans í viðskipta- og framkvæmdamálum.

Ég veit, að hv. 6. þm. Reykv. er hinn lagnasti í að stilla upp miklum áætlunum, en ég efast um, hvernig þær yrðu í framkvæmdinni. Ég ætla t.d. að minnast n eitt atriði, sem og kom fram hjá mér s.l. vetur, að gæta verður þess, að ekki komist allt á ringulreið. Ég taldi ríkið fara allt of gálauslega að ráðast í miklar framkvæmdir án þess að taka tillit til framleiðslunnar í landinu. Ég fékk þá ekki mikla áheyrn. Ég býst við, að hv. 6. þm. Reykv. hafi óskað þess, að þær framkvæmdir, sem gerðar voru s.l. sumar með byggingu síldarverksmiðja, hefðu tekizt betur, og ætla ég þó, að hans viðhorf hefðu átt að koma þar að góðu gagni. Þær framkvæmdir fóru mjög mikið fram úr áætlun. Það var skortur á vinnuafli. Það varð að taka menn af bátum og láta þá fara að vinna í landi verk, sem þeir voru óvanir við. Kostnaðurinn varð því miklu meiri en ella hefði orðið. Verkamennirnir okkar eru ágætir, en það má ofbjóða þeim. Það, sem mest hefur aukið byggingarkostnaðinn nú á þessum árum, er aðallega það, að of mikið hefur verið heimtað af verkamönnunum og afköst þeirra því orðið svo lítil. Sannleikurinn er sá, að ríkisvaldið á ekki hvað sízt þátt í þeirri óeðlilegu og óheilbrigðu samkeppni um vinnuaflið til byggingariðnaðarins, og þar á meðal til framkvæmda, sem vart munu allar teljast bráðnauðsynlegar. En afleiðing þessa hefur orðið sú, að vinnuaflið hefur dregizt stórlega frá framleiðslunni, og þar með hefur eðlilegu samræmi milli atvinnustéttanna verið raskað.

Mér fannst hv. flm. verja of miklum tíma í að lesa upp grg. frv., en það hefur ef til vill verið gert af ótta við, að þm. læsu hana ekki. Ég hygg þó þann ótta ástæðulausan. En ég held, gagnstætt því sem greinargerðin virðist gera ráð fyrir, að það sé ekki allt fengið með því að setja upp alls konar félagsbákn og nefndir.

Ég hef tekið það fram, að ég tel of hratt farið í framkvæmdir ýmsar, sem draga vinnuaflið frá framleiðslunni, og í öðru lagi ræddi ég um afkastaminnkunina og tel, að ég hafi bent á orsök hennar. Ég vil minna á það, að það, sem ég hef séð heilbrigðast í byggingarmálum, var fyrir stríð, þegar byggingarnar voru boðnar út. Á þeim tíma fékkst byggt hér með góðu verði, en ég býst við, að við verðum nú að bíða alllengi eftir því verði. En það verður að stilla svo í hóf, að það opinbera setji ekki milljónatugi í stórbyggingar, sem gleypa vinnuaflið, þannig að það er nú t.d. svo komið, að allir lagtækir menn hverfa úr sveitunum, bæði smiðir og gervismiðir, svo að þar er nú næstum ókleift að fá menn til neinnar smíðavinnu.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er svo mikið og margbrotið, að ótækt er að leggja það fyrir Alþingi, án þess að miklar athuganir hafi farið fram áður. En till. hv. 6. þm. Reykv. eru svo einhliða, að ég get ekki fallizt á þær, þar sem ríkinu er ætlað að hafa allar framkvæmdir þessara mála með höndum.

Sumar þjóðir leggja mikla áherzlu á ríkisrekstur, en ég fæ ekki séð, að hann sé ódýrari eða hagkvæmari. Hvað snertir braskið, þá sé ég ekki, að komið verði í veg fyrir það, þó að frv. hv. 6. þm. Reykv. væri komið í framkvæmd. Hvað snertir innflutning og álagninguna, má benda á gott dæmi, sem sýnir, á hve miklum rökum ummæli hv. þm. í þá átt eru reist. Erlent fyrirtæki, sem tekið hafði að sér framkvæmdir hér í nágrenni bæjarins, hafði byrjað á að flytja inn byggingarefni, en þegar þeir komust að raun um, hvað efnið var selt hér, hættu þeir að flytja það inn sjálfir, en keyptu það hér á landi.

Ég er á því, að miklu betra sé að starfa að úrlausn vandamálanna með samningum milli stétta en að gera innflytjendur tortryggilega, eins og hv. þm. gerir.

Ég mun nú ekki lengja þessar umr. að þessu sinni, en margt fleira fellur hér í sama farveg, t.d. það, að hv. þm. vill skylda bankana takmarkalítið til að lána út fé vegna þessara framkvæmda. Maður verður að gæta að því, að með auknum framförum verði gætt hófs og að fjármagn bankanna verði ekki fengið einhverjum nefndum í hendur til ráðstöfunar, sem eru óháðar bankastjórninni og ríkisstj. Og það mun verða þungt í vöfum, ef bæjarstjórnirnar eiga alltaf að sækja undir nýbyggingarráð um allar framkvæmdir, t.d. hafnargerðir og annað því um líkt.

Hv. 6. þm. Reykv. er þekktur að því að vera góður stærðfræðingur, en mér er ekki grunlaust um, að hann reikni dæmin þannig, að hann fái aðeins þá útkomu, sem honum líkar.

Eins og ég benti á í fyrra, eru húsnæðismálin stórmikilvægt vandamál, sem krefst lausnar, um það erum við hv. flm. sammála, en okkur skilur á um leiðir.

Ég vænti svo þess, að þetta mál fari til n., og verður þá tækifæri til að ræða það frekar. Ég mun eiga eftir að ræða þetta mál við hv. 6. þm. Reykv., bæði hér í hv. Alþ. og í bæjarstjórn Reykjavíkur, þar sem vegir okkar mætast líka, og er ég fyllilega sammála honum, að þessi mál verður að leysa nú á næstunni.