20.11.1946
Neðri deild: 20. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (4105)

73. mál, byggingarstofnun ríkisins og byggingarfélög

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. — Mér var kunn afstaða hv. 3. þm. Reykv. og kom hún ekkert á óvart. Ég get tekið það fram strax, að ég hef vanizt því að reikna mín dæmi og reikna þau rétt og horfast í augu við útkomuna, hver sem hún er.

Í sambandi við þetta mál, þá hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, sem frv. greinir, og ég tel hana rétta.

Hvað síldarverksmiðjurnar koma þessu máli við, er mér ekki ljóst, en hv. þm. hefur svo glöggt auga fyrir fjármálum, að ég veit, að honum er fyllilega ljóst, að það gat varðað landið milljónum, hvort þær voru til eða ekki, og því var réttmætt að leggja kapp á, að þær kæmust upp. Því miður fór svo, að verksmiðjanna varð ekki þörf í sumar, en það var rétt að gera ráð fyrir þeim.

Hv. þm. lagði mikið upp úr því, að ódýrara væri, að byggingar væru boðnar út, og er vafalaust mikið satt í þessu. Hann og fleiri hafa byggt á sæmilegu verði fyrir stríð, því að þá var kapphlaup um vinnuna. Þá var atvinnuleysi, en það verkar þannig, að sumt verður ódýrara. En við skulum nú athuga, hvernig húsnæðismálin voru á þeim tíma.

Árið 1939 fór fram athugun á húsnæðinu í Reykjavík. Sú athugun leiddi í ljós, að yfir 1100 manns bjuggu í bönnuðum kjallaraíbúðum. Af þeim voru 155 taldar góðar, 575 sæmilegar, eða alls 722. Svo komu 213 íbúðir lélegar og 141 óhæf, eða alls 405 íbúðir, sem voru lélegar eða óhæfar. Þetta er árangurinn af því tímabili, og sýnir hann óumdeilanlega, að húsnæðisþörfinni var ekki fullnægt, að það voru húsnæðisvandræði. Þeir, sem nægilegt fjármagn höfðu, gátu byggt, en því fór fjarri, að einstaklingsframtakið gæti leyst þetta vandamál. Svo breyttist ástandið. Nú er nóg atvinna og góð afkoma, og enn eru húsnæðisvandræði. Einkaframtakið hefur ekki leyst vandann. Það eru enn húsnæðisvandræði og líklega aldrei meiri en nú, og ekki leysir einkaframtakið húsnæðisvandræðin. Enn frekari sönnun þess er skýrsla Arnórs Sigurjónssonar um húsnæðismálin. Samkv. henni er talið, að í landinu séu 10350 ónýtar eða lélegar íbúðir. Það er ástæðulaust að fara að þjarka hér um afstöðu bankanna til þessara mála, en ég ætlast til þess, að menn geri sér ljóst, hversu mikið fé þjóðin leggur í byggingar og hversu mikið fé er svo lagt í framleiðsluna í þessu tilliti. Eins og nú háttar, þá fer fjármagnið út um hvippinn og hvappinn og hinir ríku geta fengið lánað mikið fé, en hinir fátækari og snauðu fá ekkert.

Ég fjölyrði nú ekki meir um þetta, en vænti þess, að málinu verði vísað til félmn., og treysti ég henni mjög vel til þess að gefa þessu frv. viðeigandi meðferð.