06.11.1946
Neðri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Jónas Jónsson:

Ég vildi segja fáein orð út af ræðu hv. 2. þm. Skagf. Það er að sjálfsögðu engin furða þótt hann sé ekki ánægður með frv., þar sem hann er mótfallinn innflutningi sauðfjár, og leiðir af sjálfu sér, að vel getur farið svo, að þingið fellt þetta, en láti hitt standa. Meiri hl. n. var á þeirri skoðun, að það bæri að prófa báðar þessar leiðir, en rök hv. þm. í þessu efni mótast nokkuð mikið af því, að hann er mótfallinn innflutningi, og er það afstaða fyrir sig. Hv. þm. hélt því fram, að ranglátt væri að miða bæturnar við fleiri ár en þau, sem skiptin fara fram á, eða líka við skattaframtal þess árs, þegar siðast var heilbrigt fé í þeim hreppi, en ég hygg, að við nánari athugun þá sjái hann, að okkar till. eru miklu sanngjarnari, sem sé að miða ekki aðeins við árið í ár. Það getur skeð, að hægt sé að finna betri leið, en frá almennu sjónarmiði er enginn vafi á því, að hugsunin, sem liggur á bak við, er alveg rétt.

Við skulum taka Skagafjörðinn, þar sem pestin er búin að vera í 10 ár. Bóndi. sem átti 300 fjár, þegar pestin kom í héraðið, mundi. þegar skiptin fara fram, eiga 200 kindur, en ef miða ætti við það, sem nú er, má ekki gleyma því, að menn eru ef til vill búnir að missa 1/3 af fé sínu í þennan vágest. og þá er í þessu mikill styrkur. Þetta var miðað við reynslu mína af fjárskiptum í Þingeyjarsýslu, því að þar var fjöldi af mönnum, sem áttu ekkert fé, þegar skiptin voru gerð. Við skulum nefna sem dæmi mann, sem hefði átt 150 ær og ætti nú 10. Hann fengi ekki nema 10. Það er nú ekki sanngjarnt. Eins er með hitt dæmið. Fyrir mér vakir, að miðað verði við jörðina, sem maðurinn býr á. Frá mínu sjónarmiði á ekki að miðast við 2 kindur, heldur það, sem var á jörðinni, og með því móti er hægt að bæta úr þessu.

Maður, sem er nýbyrjaður að búa á einni jörð og hafði 60 kindur, en hefur nú aðeins fáar kindur — í því tilfelli getur ekki verið rétt að miða við fáar kindur nú, heldur verður að miða við það, sem var. Með því að miða við jörð er hægt að bæta úr þessu.