29.11.1946
Neðri deild: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (4126)

93. mál, fiskveiðar í landhelgi

Flm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Ég flutti þetta frv. á síðasta Alþ., en málið var þá ekki útrætt. Ákvæði þessara l. eru frá 1922, og er því ekki nema eðlilegt, að sektarákvæði l. séu í ósamræmi við gildi íslenzkrar krónu nú, þótt það sé ákveðið í öðrum l., að sektirnar skuli greiðast í gullkrónum. Í grg. er gerð grein fyrir, að nauðsynlegt sé að hækka allverulega sektarákvæði l. gegn óleyfilegum veiðum í landhelgi. Landhelgisgæzla okkar er allsendis ófullnægjandi til þess að vernda hið stóra svæði kringum strendur landsins. Þess vegna þarf hæð sektanna að geta veitt okkur stuðning, svo að þeir, sem lögbrotin fremja, stefni fjárhag sínum í nokkra tvísýnu. Ég fer svo ekki nánar út í þessi atriði í framsögu, en vísa til grg.